FYRIR rúmlega tveimur áratugum voru aðeins íslenskir leikmenn sem höfðu rétt til þess að leika með íslenskum liðum á Íslandsmótinu í körfubolta. Ívar Webster var gulls ígildi í liði Hauka á þeim tíma, með tvöfalt ríkisfang.

FYRIR rúmlega tveimur áratugum voru aðeins íslenskir leikmenn sem höfðu rétt til þess að leika með íslenskum liðum á Íslandsmótinu í körfubolta. Ívar Webster var gulls ígildi í liði Hauka á þeim tíma, með tvöfalt ríkisfang. „Bannreglan“ var tekin upp þar sem forráðamenn margra liða höfðu steypt sínum félögum í skuldafen til þess að geta fengið leikmann frá Bandaríkjunum í sínar raðir. Og verið samkeppnishæfir. Menn hættu ekki að spila eða æfa körfubolta þrátt fyrir að leikmenn á borð við Danny Shouse hjá Njarðvík hyrfu á braut. Íslenskir leikmenn öxluðu ábyrgðina í staðinn. Valur Ingimundarson, Teitur Örlygsson og Guðjón Skúlason voru hetjurnar á næstu árum. Þeir fengu tækifæri til þess að sýna hvað í þeim bjó og þeir ásamt fleiri snjöllum leikmönnum nýttu tækifærið.

Upp er komin svipuð staða í íslenskum körfuknattleik og á „bannárunum“. Aðstæður í fjármálaheiminum eru þess eðlis að fyrirtæki hafa ekki bolmagn til þess að styrkja við bakið á körfuknattleiksdeildum. Og mörg félög hafa brugðist við aðstæðum með þeim hætti að segja upp samningum við erlenda leikmenn og þjálfara. Þetta er sú staða sem blasir við, og til lengri tíma litið er þetta kannski ekki svo slæm niðurstaða.

Það eru nokkur félög sem telja sig geta „klórað“ sig í gegnum tímabilið með erlenda leikmenn í sínum röðum. Það er þeirra val og magnað ef mönnum tekst að ná endum saman í rekstrinum með erlent vinnuafl á launaskrá. Ég ætla að hrósa forráðamönnum þeirra félaga sem hafa tekið þá ábyrgu ákvörðun að grípa í taumana, skera niður kostnað og horfa þess í stað fram á veginn. Þeir vilja ekki skila af sér rekstrinum með þeim hætti að þeir sem taki við þurfi einnig að taka við „gömlum“ syndum og skuldahala.

Ég efast ekki um að gæðin á Iceland Express-deildinni verða minni með brotthvarfi fjölmargra hæfra einstaklinga. En því má ekki gleyma að það eru margir íslenskir leikmenn sem kunna sitt fag og það verður spilaður körfubolti þrátt fyrir að það vanti erlendar skrautfjaðrir í mörg lið. seth@mbl.is

Sigurður Elvar Þórólfsson