Fundur Starfsfólk Landsbanka Íslands hlýddi á framsögur tveggja ráðherra í hádegishléi sínu í gærdag.
Fundur Starfsfólk Landsbanka Íslands hlýddi á framsögur tveggja ráðherra í hádegishléi sínu í gærdag. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is STARFSFÓLKI Landsbanka Íslands var rórra eftir fund sem viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra áttu með því í höfuðstöðvum bankans í hádeginu í gær, segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

elva@mbl.is

STARFSFÓLKI Landsbanka Íslands var rórra eftir fund sem viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra áttu með því í höfuðstöðvum bankans í hádeginu í gær, segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Margir voru uggandi um stöðu hans og persónulega stöðu sína eftir að fregnir bárust af því í gærmorgun að stjórn bankans hefði verið leyst frá störfum og að ríkið tæki við Landsbankanum.

„Við fórum býsna ýtarlega yfir stöðuna, rólega og yfirvegað. Það virtist hafa jákvæð áhrif,“ sagði Björgvin eftir fundinn. Ýmsum vafaatriðum hafi verið eytt á fundinum.

Ríkið heldur ekki úti ofurlaunum

Björgvin segir að meðal þess sem fólk hafi velt fyrir sér sé hvort uppsagnir liggi í loftinu. „En það er svo fjarri því að það standi til eða liggi fyrir,“ segir hann. Nú séu uppskipti á rekstrinum að ganga yfir. „Innri hagræðing er seinni tíma mál. Við munum gæta hagsmuna hinna almennu starfsmanna til hins ýtrasta,“ segir hann. Það hafi verið gert með lagasetningu Alþingis í fyrradag. „Kjarasamningar almennra starfsmanna ganga óbreyttir inn í hið nýja félag með varnagla um ofurlaunamenn. Þeir að sjálfsögðu halda því ekki,“ segir Björgvin. „Það er okkar að skilgreina það,“ segir hann, aðspurður um hvernig skilgreina eigi slík laun. „Kannski eru engir ofurlaunamenn þarna núna. Það er ekki búið að fara í gegnum það,“ segir Björgvin og tekur fram að rétt hafi þótt að slá varnagla um slíkt. „Að sjálfsögðu ætlar ríkið ekki að halda úti ofurlaunum og þessari misskiptingu sem hefur riðlað þessu kerfi öllu eins og þjóðfélaginu öllu.“

S&S

Hver var afkoma bankans?

Í fyrra var hagnaður eftir skatta 39,9 milljarðar króna. Samkvæmt árshlutareikningi var hagnaður á fyrstu sex mánuðum 2008 eftir skatta 29,5 milljarðar króna.

Hversu mikið er af innlánareikningum í bankanum?

Innlán í Landsbankanum námu 1.617 milljörðum króna 30. júní 2008, samkvæmt kynningu á hálfsársuppgjöri. Fjórðungur þessara innlána er á Íslandi.