Mikilvægt að allir standi saman Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra héldu blaðamannafund í Iðnó í gær.
Mikilvægt að allir standi saman Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra héldu blaðamannafund í Iðnó í gær. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is „AUÐVITAÐ hefur skapast ákveðið óöryggi hjá fólki, bæði starfsmönnum í bönkunum og kannski sérstaklega Landsbankanum við þessar aðstæður, og líka hjá viðskiptavinum og almenningi.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

elva@mbl.is

„AUÐVITAÐ hefur skapast ákveðið óöryggi hjá fólki, bæði starfsmönnum í bönkunum og kannski sérstaklega Landsbankanum við þessar aðstæður, og líka hjá viðskiptavinum og almenningi. Það er mjög mikilvægt að allir standi saman,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á fundi sem hann og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra héldu með blaðamönnum í gær. Til fundarins var boðað eftir að tilkynnt var í gærmorgun að Fjármálaeftirlitið hefði skipað skilanefnd sem tæki við stjórn bankans á grundvelli neyðarlaga sem Alþingi setti í fyrrakvöld. Í tilkynningu frá FME vegna málsins sagði að þetta væri gert til þess að tryggja fullnægjandi innanlandsstarfsemi bankans og stöðugleika íslensks fjármálakerfis. Tekið var fram að bankainnlán á Íslandi væru að fullu tryggð.

Viðskiptaráðherra sagði á fundinum að það sem væri gott í stöðunni væri að Landsbankinn færi ekki í þrot heldur yrði ríkisbanki stofnaður um innlenda starfsemi bankans. „Það gefur auga leið hvert hlutskipti hluthafanna verður. Þeir tapa sínum hlut,“ sagði Björgvin.

Um stöðu Glitnis sagði Björgvin að að Fjármálaeftirlitið væri að fara yfir stöðu bankans. Hann hefði ekki upplýsingar um hvernig sú staða væri, en kæmi í ljós að bankinn væri kominn í sömu stöðu og Landsbankinn yrði gripið til sömu aðgerða og gagnvart þeim banka. Seint í gærkvöldi leysti skilanefnd FME stjórn bankans af hólmi.

Geir H. Haarde ræddi viðbrögð ríkisstjórnar og Alþingis við bankakreppunni og kvaðst sannfærður um að þau yrðu til þess að tryggja stöðugleika og koma í veg fyrir upplausnarástand sem skapast hefði ef einhver bankanna hefði farið í þrot.

Seðlabankinn hefði fest gengi krónunnar tímabundið við gengisvísitöluna 175, en Geir sagði ekki hægt að segja til um hversu lengi þessi ráðstöfun stæði.

„Við teljum líklegt að þegar markaðsviðskipti hefjast á nýjan leik með krónuna muni hún verða umtalsvert sterkari en hún var í [fyrradag] eða um helgina.“

Geir sagði að staða bankanna hefði myndast mjög hratt og óvænt og nauðsynlegt hefði verið að grípa í taumana. „Ýmsir verða fyrir óþægindum af þeim sökum,“ sagði Geir. Fólki yrði hjálpað í gegnum erfiðleika sem kynnu að skapast.

Geir ræddi um 4 milljarða evra gjaldeyrislán frá Rússum, sem íslensk stjórnvöld vinna að því að útvega. Hann sagði að þetta mál hefði verið í vinnslu frá því í sumar, en í gærmorgun hefði það verið staðfest að Rússar væru reiðubúnir að ræða þetta á jákvæðum nótum. Íslensk sendinefnd heldur senn til Rússlands til viðræðna um lánið.

„Þetta eru mikil og góð tíðindi og þakkarverð af hálfu rússneskra yfirvalda,“ sagði Geir.

Þurfum að finna nýja vini

Ráðherra sagði jafnframt á fundinum að allt þetta ár hefðu Íslendingar kannað hjá vinaþjóðum möguleika á gjaldeyrisskiptasamningum. „Við höfum ekki fengið þann stuðning sem við óskuðum frá vinum okkar,“ sagði Geir. „Í slíkri stöðu þurfum við að leita nýrra vina.“

Hann tók fram að Norðurlöndin hefðu gert gjaldeyrisskiptasamninga við Íslendinga og hefðu því reynst vinir í raun. Ráðherrann vildi ekki upplýsa hvaða lönd hefðu hafnað umleitunum Íslendinga.