Sameining Framarinn Paul McShane og Fjölnismaðurinn Ágúst Gylfason takast hér á í leik liðanna í sumar.
Sameining Framarinn Paul McShane og Fjölnismaðurinn Ágúst Gylfason takast hér á í leik liðanna í sumar. — Morgunblaðið/hag
REYKJAVÍKURFÉLÖGIN Fram og Fjölnir hafa skipað sex manna vinnuhóp sem ætlað er að kanna möguleika á samruna félaganna.

REYKJAVÍKURFÉLÖGIN Fram og Fjölnir hafa skipað sex manna vinnuhóp sem ætlað er að kanna möguleika á samruna félaganna. Umræða um sameiningu félaganna hefur verið í gangi síðustu misseri og sjá stjórnir félaganna mikil tækifæri fólgin í samruna, ekki síst eftir að Fram var úthlutað stóru landsvæði í Grafarholti.

„Við í Fjölni erum með tíu deildir í okkar félagi á meðan Fram á eftir að byggja upp fjölgreinastarfsemi í sínu hverfi. Á móti kemur að Fram er lengra komið í framkvæmdaundirbúningi en okkur vantar meira pláss fyrir okkar uppbyggingu. Við sjáum því gríðarleg tækifæri í sameiningu,“ sagði Ragnar Þórir Guðgeirsson formaður aðalstjórnar Fjölnis í gær.

„Við ætlum að gefa okkur viku núna í að kortleggja helstu atriði sem samningar þurfa að nást um. Svo stefnum við á að geta lagt fram viljayfirlýsingu fyrir stjórnir félaganna að viku liðinni. Félagsfundir beggja félaga þurfa svo að samþykkja samrunann til að af honum yrði, og það yrði í fyrsta lagi í lok nóvember,“ sagði Ragnar.

Eitt lið í Landsbankadeild?

Bæði eiga félögin keppnislið í Landsbankadeild karla í knattspyrnu og ef af sameiningu verður kveðst Ragnar búast við að eitt lið verði sent til keppni. Það myndi þýða að Selfoss léki í efstu deild næsta sumar. „Verðum við ekki bara að horfa á það jákvæða? Fram er með sterkustu vörnina og við sterkustu sóknina. Þetta eru allt hlutir sem á eftir að fara í gegnum með deildunum þegar fram líða stundir en ég geri ráð fyrir því að það verði bara eitt lið.“ sindris@mbl.is