Anna Ástrós Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 11. desember 1914. Hún lést á heimili sínu, Seljahlíð, Hjallaseli 55, hinn 1. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Pálína Þorfinnsdóttir, f. 1879, d. 1924 og Ólafur Sæmundsson, sjómaður frá Reykjavík, f. 1886, d. 1953. Anna Ástrós átti fjögur alsystkini en einnig átti hún þrjú hálfsystkin að föður. Systkini hennar voru Jónína Margrét húsmóðir, f. 1908, d. 1973, Sigurfinnur húsgagnasmiður, f. 1912, d. 2003. og Svanhvít Unnur húsmóðir, f. 1916, d. 2007. Hálfsystkin hennar eru Svanhvít Stella, f. 1921, Guðlaug, f. 1924, og Ólafur Sverrir, f. 1925, d. 2000.

Anna Ástrós giftist 28. júní 1941 í Reykjavík Filippusi Þorvarðarsyni leigubílstjóra og ökukennara, f. 26. október 1919. Hann býr nú á Lindargötu 61. Þau eignuðust tvö börn, þau eru: 1) Hafsteinn, húsgagna- og húsasmíðameistari, f. 20. desember 1942, búsettur í Brisbane í Ástralíu. Maki Arndís Magnúsdóttir, þau eiga fjögur börn. Þau eru a) Anna Bjarney, f. 1963, gift Gary Melbon, börn þeirra Jodie Lee, Katie Louise, Michael Roy og Melissa Kaitlyn. b) Magnús, f. 1966, kvæntur Gillian Frances, börn þeirra Brian Joseph, Andrew Lewies, Christopher David, Natalie Marie og Keith Lucas. c) Kári, f. 1973, d) Berglind Guðný, f. 1975, 2) Sólveig tannsmiður, f. 8. júní, 1945, búsett í Reykjavík, var gift Guðmundi Inga Benediktssyni, þau eiga tvær dætur. Þær eru a) Svala, doktorsnemi í Washington, f. 1969, gift Ólafi Sigurðssyni sendifulltrúa. Hún á tvær dætur, Söru Sebastians, f. 1998 og Snæfríði Önnu, f. 2006. b) Linda, f. 1973, í mastersnámi í London.

Anna ólst upp í Reykjavík til tíu ára aldurs. Þegar móðir hennar veiktist var Anna send í fóstur að Litlabæ í Kjós. Anna fluttist til Reykjavíkur 18 ára gömul og hóf þá nám við kjólasaum og starfaði hún alla tíð við þá iðn. Seinustu árin bjó hún á dvalarheimilinu Seljahlíð í Hjallaseli 55 í Reykjavík.

Útför Önnu fer fram frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Amma var búin að vera gigtveik mikinn hluta ævinnar, og síðastliðin ár var heilsan orðin afar léleg. Mamma hennar dó þegar hún var tíu ára og var hún þá send í sveit, systkini hennar einnig en öll á sitt hvorn bæinn. Hún var ekki heppin með fjölskyldu, því hjónin áttu engin börn og skilst mér að þau hafi aðallega litið á þessa stúlku sem þau tóku að sér sem vinnuafl. Einu sinni sagði hún mér, að henni var ekki sagt að hún ætti að vera þarna til frambúðar, því hún var alltaf að bíða eftir að hún yrði sótt aftur. 16 ára fór hún aftur til Reykjavíkur, hún lærði saumaskap í tvo vetur og lauk náminu með afbragðs einkunnum. Ég man að hún gat saumað hvað sem var, og einnig prjónað, heklað, málað myndir og saumað út. Hún saumaði öll föt á börnin sín og einnig ófáar flíkurnar á mig og systur mína. Þó hún væri hætt að geta saumað skoðaði hún oft í hverju ég var, og við ræddum um hvernig tískan hefði breyst. Amma var í stuttu máli afskaplega dugleg og einlæg manneskja sem trúði á guð, og að því sögðu trúi ég að hún sé á sérstaklega góðum stað núna.

Elsku amma mín, ég þakka þér kærlega fyrir vinskapinn, umhyggjuna og allt annað sem þú hefur gefið mér.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Linda Guðmundsdóttir.

Með þessu ljóði kveð ég þig að sinni elskulega amma mín og þakka þér fyrir alla umhyggjuna, hjartahlýjuna og góðvildina.

Nú leggur þú á hinn ljósa vog,

sem liggur á milli stranda.

Þér verður fagnað af vinum, þar

sem verðir himnanna standa,

sem alkomnum bróður, úr útlegð, heim

af eyðimörk reginsanda.

En þín við minnumst með þökk í hug

sem þess sem við líkjast viljum.

Og fetum veginn í fótspor þín,

hve fátt og smátt, sem við skiljum.

Það léttir þá raun að rata heim

í reynslunnar hörkubyljum.

(Kristján frá Djúpalæk.)

Svala Guðmundsdóttir.

Elsku langamma mín.

Það var svo gaman að hitta þig í sumar, við skemmtum okkur svo vel og hlógum svo mikið saman. Ég fékk að prufa hjólastólinn þinn, við létum taka af okkur myndir og þrátt fyrir að vera rétt tveggja ára tókst mér að keyra þig um í Seljahlíð.

Elskulega amma Anna, ég ber nafn þitt stolt og glöð og hlakka til þegar ég er orðin nógu stór til að heyra mömmu segja mér sögurnar um þig.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson.)

Snæfríður Anna Ólafsdóttir.

Elsku langamma mín, þú varst alltaf svo sæt og fín með slæðu og sitt hvað fleira. Neglur snyrtar og hárið fínt, nælur, hringa og nammigott, ég sögur fékk að heyra.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Guð geymi þig langamma mín alla tíð og tíma. Þín

Svala.

Hún Anna var einstök kona. Þegar Anna var lítil stúlka missti hún móður sína og barnahópnum var komið fyrir á ýmsum sveitaheimilum. Tvö yngstu börnin, Anna 10 ára og móðir mín Svanhvít 8 ára, voru settar hvor á sinn bæinn í Kjósinni, Blöndholt og Litlabæ. Það var lán að þær voru svo nálægt hvor annarri. Þær gátu þannig veitt hvor annarri stuðning. Þarna voru þær þangað til þær voru komnar yfir fermingu, en þá fluttu þær til Reykjavíkur þar sem þær fengu sér vinnu og öfluðu peninga til að mennta sig. Anna, sem var afar lagin í höndunum, var einstaklega góð saumakona, enda eru þeir margir kjólarnir og aðrar fallegar flíkur sem hún saumaði. Hún hafði hjá sér einstaklega fallegan púða sem hún saumaði og notaði í hann gamalt sjal frá móður sinni sem uppistöðu í verkið.

Anna var sífellt glaðlynd, umhyggjusöm og hlý. Svo hafði hún afar gaman af því að dansa og fór oft á böll þar sem gömlu dansarnir voru dansaðir. Síðustu árin bjó hún á Seljahlíð og komum við Fanney stundum til hennar og spjölluðum. Það voru alltaf blóm hjá henni, ýmist afskorin eða fallega blómstrandi pottablóm. Bleiki liturinn var í uppáhaldi og Anna var sjálf alltaf í fallegum og snyrtilegum fötum, enda mikil smekkkona. Hún fylgdist vel með landsmálum og hvað var að gerast.

Oft þegar við komum til hennar sat hún með stækkunarglerið sitt og var að lesa Moggann. Við spjölluðum um alla heima og geima. Hún sagði okkur frá æskuárunum sínum og hvernig lífið gekk fyrir sig á árunum fram að stríðinu. Lífsbaráttan var hörð og oft þurfti hún að leggja mikið á sig til að ná endum saman. Þetta hafði augljóslega mikil áhrif á hana. Hún var útsjónarsöm, nýtin og fór vel með. Hún tók alltaf vel á móti okkur þegar við kíktum í heimsókn. Vildi vita um okkar hagi og fjölskyldunnar. Oftar en ekki dró hún fram myndaalbúm en þau hálffylltu einn fataskápinn hjá henni. Ekki nema von, því hún var alltaf með myndavél og elskaði að taka myndir af gestum og einhverjum atburðum og svo var allt sett í myndaalbúm. Þá þótti henni gaman að fá póstkort frá útlöndum og við höfðum mikla ánægju af því að senda henni kveðju þegar við vorum á ferðalögum. Þessi kort og fullt af öðrum kortum setti hún í myndaalbúm sem hún skoðaði reglulega.

Myndirnar af börnum og þá sérstaklega barnabörnum prýddu alla veggi og hillur hjá Önnu. Stór hópur barnabarnanna er búsettur í Ástralíu og fundum við hversu Önnu þótti þau vera langt í burtu. Síminn var notaður þannig að Anna gat haldið tengslum við son sinn og sitt fólk hinum megin á hnettinum. Anna var afar lánsöm hversu vel Sólveig dóttir hennar annaðist hana og gerði allt til að létta henni lífið. Sólveig sýndi henni einstaka umhyggju og hlýju. Við þökkum Önnu fyrir allt sem hún hefur sýnt okkur og kennt. Við þökkum fyrir allar góðu stundirnar og gleðina sem hún færði okkur. Þetta allt hefur verið okkur ómetanlegt. Við vottum Sólveigu, Hafsteini og fjölskyldum okkar dýpstu samúð. Einstök kona hefur kvatt.

Fanney og Friðbert Pálsson.