8. október 1720 Skriða féll úr Vatnsdalsfjalli á bæinn Bjarnastaði og síðan í Vatnsdalsá. Sex manns fórust. Skriðan fyllti upp farveg árinnar og þar fyrir ofan myndaðist stöðuvatn sem nefnt er Flóðið. 8.

8. október 1720

Skriða féll úr Vatnsdalsfjalli á bæinn Bjarnastaði og síðan í Vatnsdalsá. Sex manns fórust. Skriðan fyllti upp farveg árinnar og þar fyrir ofan myndaðist stöðuvatn sem nefnt er Flóðið.

8. október 1910

Enskur togari, sem var að veiðum í landhelgi, rændi sýslumanni Barðstrendinga og hreppstjóra og flutti þá til Englands. Þeir komu aftur til landsins síðar í sama mánuði.

8. október 1946

Karl Ísfeld blaðamaður hlaut Móðurmálsverðlaun Björns Jónssonar þegar þeim var úthlutað í fyrsta sinn, en þennan dag voru hundrað ár frá fæðingu Björns.

8. október 1994

Breski dægurlagasöngvarinn Donovan skemmti í Þjóðleikhúskjallaranum „og lék þar öll sín vinsælustu lög við mikinn fögnuð viðstaddra,“ að sögn Morgunblaðsins. „Það var kominn tími á tónleika hér,“ sagði listamaðurinn í samtali við DV.

8. október 1999

Ráðstefnan Konur og lýðræði hófst í Reykjavík og stóð í þrjá daga. Hillary Clinton forsetafrú Bandaríkjanna var meðal þrjú hundruð þátttakenda.

8. október 2001

Mislæg gatnamót Breiðholtsbrautar, Nýbýlavegar og Reykjanesbrautar voru formlega tekin í notkun. Um fimmtíu þúsund bílar fóru þá um gatnamótin á sólarhring.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson