Jólaverslun Jyllands-Posten spáir auknu ferðamannaflæði um jólin.
Jólaverslun Jyllands-Posten spáir auknu ferðamannaflæði um jólin. — 24stundir/Júlíus
Ísland getur orðið mekka jólainnkaupa fyrir nágrannaþjóðir okkar í ár vegna lágs gengis krónunnar.

Ísland getur orðið mekka jólainnkaupa fyrir nágrannaþjóðir okkar í ár vegna lágs gengis krónunnar. Þetta kemur fram á vef Jyllands-Posten sem segir að Danir, Norðmenn, Svíar og Englendingar fái nú nokkuð margar krónur þegar þeir skipta gjaldmiðli sínum, en evran er nú kringum 160 krónur en var 90 krónur á sama tíma í fyrra.

Í blaðinu er vísað í grein í blaðinu Financial Times þar sem segir að undanfarin ár hafi Íslendingar flykkst til Kaupmannahafnar, London og Óslóar til að gera jólainnkaup en að gengishrun krónunnar muni eflaust snúa þeirri þróun við. Þá segir þar að greinilega hafi mátt sjá merki efnahagsþrenginganna í næturlífi Reykjavíkur um síðustu helgi þar sem fjölmörg borð á vinsælustu stöðunum hafi staðið auð.

Blaðið segir að í miðju þunglyndinu yfir fjármálakreppunni og fallandi gengi geti Íslendingar vonað að jólaverslunin hjá þeim í ár muni ganga vel.

Mikil óvissa hefur ríkt um gengi krónunnar en sérfræðingar sögðust ekki vita hvað væri rétt gengi og eiga afar erfitt með að átta sig á stöðunni.

asab@24stundir.is