Birgir Valdemarsson fæddist á Akureyri 27. apríl 1941. Hann andaðist á Sjúkrahúsinu á Akureyri 22. september síðastliðinn og fór útför hans fram í kyrrþey.

Birgir var eiginmaður Kolbrúnar Theódórsdóttir frænku minnar en hún er elsta barn Huldu Kjerúlf föðursystir minnar og Theódórs Johansen frá Færeyjum. Það mun hafa verið 1965 sem ég kynntist Bigga fyrst, hávöxnum og myndarlegum manni og héldust þau kynni æ síðan og bar aldrei neinn skugga þar á. Að vísu var dálítið langt á milli okkar í kílómetrum talið en það kom ekki í veg fyrir að vinskapurinn dafnaði, því okkur var ekki lagið að telja mikið kílómetra ef ferðahugurinn greip okkur og alltaf var pláss til að gista hjá Bigga og Kollu og skipti engu hvað klukkan var, hvaða árstími var né hvað ferðalangarnir voru margir, hvort sem það var í Skarðshlíð, Einholti eða Huldugili því þar bjuggu samhent hjón og rausnarskapurinn var í fyrirrúmi. Fyrir það ber að þakka og sú skuld verður aldrei greidd að fullu.

Samband þeirra hjóna við Austurland var sérstakt, oft var komið við í Brekkugerði, farið að veiða og skoða náttúruna, heimsækja frændfólk og ræða málin. Fyrir fáum vikum voru þau hjón á ferðalagi hér fyrir austan, komu við hjá okkur hjónum, stoppuðu góða stund og snæddu kvöldverð. Birgir var lasinn en bar sig vel, minntist aðeins á að ekki væri nógu rösklega unnið á heilbrigðisstofunum og var orðinn langþreyttur á að bíða eftir niðurstöðum úr rannsóknum, einarður að vanda og þótti illt að geta ekki gert góðum mat betri skil. Ekki grunaði mig þá að þetta yrði okkar síðasti fundur því Akureyrarferð var fyrirhuguð hjá okkur hjónunum, en þegar þar að kom var sú ferð farin til að kveðja þennan ágæta mann. Ég hef átt því láni að fagna um dagana að kynnast mörgum ágætum Akureyringum og einn þeirra var Birgir Valdimarsson fremstur meðal jafningja.

Við útförina varð mér hugsað til þess að ég minntist þess ekki að hafa nokkurn tíman heyrt neitt annað en gott um þennan ágæta dreng. Það var kalt í veðri en sólskin, þriðjudaginn 3. september síðastliðinn og fallegt á Akureyri þegar Birgir var kvaddur hinstu kveðju frá Höfðakapellu. Útgöngulagið var Hreðavatnsvalsinn sem var vel við hæfi og hef ég ekki heyrt það ágæta lag betur flutt í annan tíma, eftir stóð minningin um heilsteyptan og góðan dreng.

Við hjónin sendum Kollu og hennar fólki samúðarkveðjur og vonum að framtíðin verði gjöful á áframhaldandi vináttu okkar í milli og ég veit að þess óskar líka Þórey systir mín, Dodda og Siggi, Alda og Svenni, Vassi og Sigga og öll hin.

Megi guð blessa þig og þína.

Sölvi Kjerúlf.