Samson Kaup Samson eignarhaldsfélags á Landsbankanum undirrituð í Þjóðmenningarhúsinu árið 2002. Ríkið hefur nú aftur eignast bankann.
Samson Kaup Samson eignarhaldsfélags á Landsbankanum undirrituð í Þjóðmenningarhúsinu árið 2002. Ríkið hefur nú aftur eignast bankann. — Morgunblaðið Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Vigni Sigurpálsson og Björn Jóhann Björnsson HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur veitt stjórn Samson eignarhaldsfélags heimild til greiðslustöðvunar til næstu þriggja vikna, eða til 28. október nk. Gunnar Sturluson hrl.

Eftir Björn Vigni Sigurpálsson og

Björn Jóhann Björnsson

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur veitt stjórn Samson eignarhaldsfélags heimild til greiðslustöðvunar til næstu þriggja vikna, eða til 28. október nk. Gunnar Sturluson hrl. hefur verið skipaður aðstoðarmaður félagsins á greiðslustöðvunartíma. Hefur hópur á vegum Samson aðstoðað starfsmenn Landsbankans og skilanefndar við úrlausn mála síðustu daga, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Samson eignarhaldsfélag er sem kunnugt er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og var stofnað sérstaklega utan um kaup félagsins á hlut ríkisins í Landsbankanum haustið 2002. Þá var keyptur 45,8% hlutur í bankanum á rúma 12,3 milljarða króna. Við birtingu síðasta hluthafalista var hlutur Samson um 42% og verðmæti hans um 90 milljarðar króna fyrir ekki svo mörgum vikum.

Engin áhrif á Novator

Við kaupin á hlut ríkisins á sínum tíma var Magnús Þorsteinsson einnig meðal eigenda Samson, en hann seldi sinn hlut í félaginu í ágúst 2005.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Samson, segir að þessi greiðslustöðvun hafi engin áhrif á önnur félög í eigu Björgólfsfeðga, t.d. Samson Global Holding, sem fer með 36% hlut feðganna í Straumi. Eina eign Samson eignarhaldsfélags hafi verið Landsbankahluturinn.

„Novator er sjálfstætt alþjóðlegt fjárfestingafélag, sem starfar frá Lundúnum og hefur engar fjárfestingar í íslenskum fjármálafyrirtækjum og verður þess vegna ekki fyrir áhrifum. Jafnframt hefur þetta heldur engin áhrif á stöðu eða skuldbindingar Actavis,“ segir Ásgeir en Novator á þar stærstan eignarhlut. Novator rekur einnig farsímafyrirtækið Nova hér á landi.

Af öðrum félögum tengdum Björgólfsfeðgum á Íslandi má nefna Novator Properties en dótturfélag þess er Samson Properties, sem á og rekur fjölda fasteigna hér á landi. Meðal verkefna sem félagið hefur unnið að er fyrirhuguð nýbygging Listaháskólans við Laugaveg. Erlend fasteignaverkefni Novator Properties eru síðan töluverð, m.a. í Danmörku við þróun á World Trade Center í Kaupmannahöfn og þriðjungshlutur í Sjælsö Gruppen.

Dótturfélag Samson eignarhaldsfélags er Ópera fjárfestingar sem er eigandi að fjórðungshlut í fjárfestingafélaginu Gretti. Grettir er aftur stór eigandi að Eimskip, með 33,15% hlut samkvæmt hluthafalista í Kauphöllinni í lok ágúst sl. og Icelandic Group.

Saman eiga Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson Forsíðu ehf., sem er stærsti hluthafi Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins, með 25%. Björgólfur Guðmundsson á Ólafsfell, sem á 8,02% hlut í Árvakri auk þess sem Straumur á MGM ehf., sem á 16,7% í Árvakri.