Það eru talsverð tíðindi að rússnesk stjórnvöld séu reiðubúin að veita Íslandi stórt lán, að upphæð um fjórir milljarðar evra. Erlendur gjaldeyrir er vissulega það sem ríkið þarf nú á að halda til að styrkja varasjóði sína.

Það eru talsverð tíðindi að rússnesk stjórnvöld séu reiðubúin að veita Íslandi stórt lán, að upphæð um fjórir milljarðar evra. Erlendur gjaldeyrir er vissulega það sem ríkið þarf nú á að halda til að styrkja varasjóði sína.

Engu að síður er mörgum brugðið við þessar fréttir. Ástæðan er sú hvernig Rússar hafa hagað sér upp á síðkastið, einkum og sér í lagi í Georgíu, en jafnframt hér á Norður-Atlantshafinu, þar sem herflug þeirra gefur til kynna að þeir séu að reyna að skapa sér stöðu og áhrifasvæði.

Margir, þar á meðal erlendir fjármálasérfræðingar, telja að hér sé ekki endilega um neitt „vinarbragð“ að ræða hjá Rússum, heldur tilraun til að seilast til áhrifa. Það er ekki hægt að útiloka að Rússar telji sig geta komizt upp með meira á Norður-Atlantshafinu ef þeir taka þátt í að hjálpa NATO-ríkinu Íslandi út úr erfiðri efnahagskreppu.

Þess vegna var reyndar gott hjá Geir H. Haarde forsætisráðherra að rifja upp harða gagnrýni sína á framferði Rússa er hann ræddi um hið mögulega rússneska lán á blaðamannafundi í gær.

Í þessu máli má ekki gleyma því að Ísland og Sovétríkin voru hvort í sínu liðinu í hinni harðvítugu baráttu kalda stríðsins. Íslenzkir ráðamenn gagnrýndu harðlega mannréttindabrot og yfirgang Rússa og sovézkir árásarkafbátar og herflugvélar voru eins og mý á mykjuskán umhverfis Ísland. Engu að síður áttu ríkin með sér blómleg viðskipti um áratugaskeið. Það sama á auðvitað við um Ísland og Rússland nútímans: hægt er að eiga viðskipti á jafnræðisgrundvelli, sem báðir hagnast á, en deila á pólitíska sviðinu.

Geir H. Haarde sagði í gær að í vandræðum sínum hefði Ísland leitað til margra vinaríkja, en hvergi mætt skilningi nema hjá Norðurlöndunum. Í þeirri stöðu leituðu menn sér að nýjum vinum.

Fyrri tilkynning Seðlabanka Íslands í gær um Rússlandslánið virtist fljótfærnisleg og flausturslega unnin. Annaðhvort þarf bankinn að vanda sig betur eða – sem er ekkert sérstaklega ólíklegt – var verið að drífa þessar upplýsingar út til umheimsins, í því skyni að gömlu vinirnir rönkuðu við sér.

Það gerðu frændur okkar Norðmenn strax; norski fjármálaráðherrann sagðist reiðubúinn að aðstoða Ísland og Stoltenberg forsætisráðherra hringdi í Geir Haarde í gær til að bjóða fram stuðning. Enda eru Norðmenn sennilega ekkert spenntir fyrir því að Rússar eflist frekar á norðurslóðum.

Rumska fleiri af gömlu vinunum? Mun bandaríski seðlabankinn halda áfram að senda út óskiljanlegar tilkynningar um viðræður við Íslendinga eða er enn einhver taug á milli Reykjavíkur og Washington?