Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is ENN ríkir mikil óvissa um raunverulegt gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

ENN ríkir mikil óvissa um raunverulegt gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Talsmenn fyrirtækja í innflutningi, sem Morgunblaðið talaði við, segja að þeir haldi að sér höndum við núverandi aðstæður, enda sé ekki nokkur leið að vita hvað erlendur gjaldeyrir muni kosta.

Seðlabanki Íslands ákvað í gær að eiga viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri á föstu gengi, sem tók mið af gengisvísitölunni í 175 stigum og gengi evru í 131 krónu. Megnið af gjaldeyrisviðskiptum dagsins var hins vegar á mun veikara gengi eða um og yfir 200 krónur á evru. Á erlendum mörkuðum mun gengi evru hafa tímabundið farið allt upp í 350 krónur. Hér heima var skráð gengi evrunnar um 150 krónur í bönkunum og á vefsíðu Valitor, sem sér um VISA-þjónustu hér á landi, var gengi evru skráð 226 krónur í gær.

Frekari útfærslu þörf

Svo virðist sem gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans hafi ekki staðið undir þeirri fastgengisstefnu sem bankinn kynnti í gær og því hafi farið sem fór. Væri gjaldeyrisvarasjóðurinn nógu sterkur ætti loforð Seðlabankans um viðskipti á áðurnefndu föstu gengi að festa raunverulegt gengi krónunnar nærri hinu fasta gengi.

Til skýringar mætti koma með stutt dæmi þar sem annar banki vill eiga viðskipti með evrur á genginu 150 krónur. Þá gæti fólk farið í Seðlabankann, keypt evrur á 131 krónu og selt hinum bankanum á 150 krónur. Áhættulaus gróði næmi þar 19 krónum á hverja evru. Því myndi hinn ónefndi banki fljótlega færa gengi evrunnar hjá sér nær gengi Seðlabankans. Þetta dæmi gengur hins vegar ekki upp ef Seðlabankinn getur ekki staðið við loforð sitt um fast gengi krónunnar eða vill það ekki.

Ljóst er að frekari útfærslu fastgengisstefnunnar er þörf og að stækka þarf gjaldeyrisvarasjóðinn, eins og reyndar stendur til að gera með því að fá lán hjá Rússum.

Bankinn hefur upplýst að nánar verði greint frá fyrirkomulagi gengismála á allra næstu dögum.

Velta má hins vegar fyrir sér hvort rétt hafi verið hjá Seðlabankanum að fara út í aðgerðir sem þessar án þess að ganga úr skugga um að hann gæti staðið við fast gengi krónunnar. Þá þarf líka svör við því hvað Seðlabankinn ætlar að standa lengi við tilboð sitt um fast gengi gjaldmiðla, því vart á að viðhalda því til frambúðar.

Afþökkuðu fé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Íslensk stjórnvöld afþökkuðu fjárhagslega aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) við lausn bankakreppunnar hér, að því er Reuters-fréttastofan hafði eftir ónafngreindum embættismanni eins G7-ríkjanna, samtaka sjö stærstu hagkerfa heims, í gær.

Sagði hann Japana hafa lagt til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðstoðaði Íslendinga. Íslendingar vildu hins vegar ekki biðja sjóðinn um peninga, enda vildu þeir ekki að það spyrðist út að landið þyrfti á slíkri fjárhagsaðstoð að halda.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri vék að samskiptunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í viðtali við Kastljósið í gær, þar sem hann sagði fimm sérfræðinga bankans nú veita seðlabankanum aðstoð og ráðgjöf.

Minnti hann á að ofangreind fjárhagsaðstoð IMF væri skilyrt og að með því að þiggja hana myndu stjórnvöld tímabundið afsala sér stjórn eigin peningamála. Þetta væri aðstoð til handa gjaldþrota ríkjum og Ísland væri ekki gjaldþrota. baldura@mbl.is