Einbeittir Jakob Sigurðarson, KR, sækir að körfu Keflvíkinga þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson er til varnar.
Einbeittir Jakob Sigurðarson, KR, sækir að körfu Keflvíkinga þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson er til varnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Íþróttafélög draga saman seglin í afreksíþróttunum á óvissutímum *Samningar við erlenda leikmenn í uppnámi vegna gengisþróunar *Samningar við stórfyrirtæki eru enn í gildi en illa gengur að rukka *Fjölmörg stór fjármálafyrirtæki eru helstu styrktaraðilar íþróttafélaga *Vonlaust að ná endum saman

PENINGAR eru lífæð íþróttafélaga um allt land og nú þegar mikil óvissa ríkir á fjármálamarkaðinum hafa mörg félög ákveðið að skera niður kostnað og draga úr umsvifum sínum. Í gær ræddi Morgunblaðið við fjölmarga aðila sem stýra málum hjá liðum í Iceland Express-deildinni í körfuknattleik og rauði þráðurinn í þeim samtölum var sá að nánast vonlaust væri að ná endum saman.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

„Allir okkar styrktaraðilum eru allir af vilja gerðir og menn reyna að standa við þá samninga sem eru í gildi. Það sem vantar er að fyrirtækin greiði þá peninga sem um var samið og á meðan svo er er ekki nein önnur lausn en minnka kostnað og senda erlendu leikmennina heim. Það jákvæða sem gerist við slíkar breytingar er að forsendurnar breytast. Niðurstaðan verður sú að þeir leikmenn sem vilja vera áfram gera það af því þeir elska íþróttina – eins og það á að vera,“ sagði formaður úrvalsdeildarliðs í körfuknattleik í gær við Morgunblaðið þegar hann var spurður að því hvernig honum litist á rekstrarumhverfið þessa dagana. Það er deginum ljósara að næstu dagar og vikur verða mjög erfiðar fyrir þá sem stýra gangi mála hjá íþróttafélögum. Illa gengur að fá fyrirtæki til þess að leggja fé í rekstur íþróttafélaga.

Stór íslensk fjármálafyrirtæki eru oftar en ekki stærstu bakhjarlar íþróttafélaganna og það er ljóst eftir atburði síðustu daga að miklar breytingar munu eiga sér stað á þeim samningum. Forsvarsmenn þeirra félaga sem rætt var við í gær sjá enga aðra lausn úr vandanum nema að draga úr kostnaði. Enga fyrirgreiðslu er að fá hjá fjármálafyrirtækjum og yfirdráttarheimildir til íþróttafélaga eru nánast úr sögunni.

Sá sem er elstur þjálfar!

„Við sem höfum tekið að okkur að stýra þessum deildum getum ekki tekið á okkur ábyrgðir vegna reksturs íþróttafélags. Það eru of margir sem hafa brennt sig á því að leggja eigur sínar að veði fyrir áhugamálið.

Ef það koma ekki peningar í kassann verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Það er varla hægt að borga þjálfara laun fyrir sína vinnu. Þetta verður eflaust þannig að sá sem er elstur hjá viðkomandi félagi tekur að sér að þjálfa – fyrir ekki neitt,“ sagði forsvarsmaður úrvalsdeildarliðs á Vesturlandi. Eins og áður segir eru 12 lið í efstu deild karla og af þeim eru 9 með samninga við stór fjármálafyrirtæki. Einn viðmælandi Morgunblaðsins sagði að það væri ekki algengt að félög fengju meirihluta sinna tekna í gegnum einn styrktaraðila.

„Margt smátt gerir eitt stórt. Það er kannsi okkar styrkur á þessum tímum að við erum með marga aðila sem leggja okkur lið. Sumir hafa lofað okkur 300.000 kr. fyrir veturinn en þegar uppi er staðið þá er niðurstaðan 50.000 kr. greiðsla. Þannig er veruleikinn sem við búum við í dag,“ sagði sá aðili sem ekki vildi láta nafn síns getið.

Auglýsingaspjöld á veggjum á keppnisstöðunum eru einnig stór tekjupóstur hjá mörgum félögum. „Við munum taka niður 30-40% af þeim skiltum sem voru hengd upp í fyrra þar sem við fáum ekki greitt fyrir þessi skilti í ár,“ sagði einn forsvarsmaður.

Miklar sviptingar

Á undanförnum dögum hafa miklar sviptingar verið hjá nokkrum liðum í Iceland Express-deildinni. ÍR reið á vaðið og sagði upp samningum við tvo erlenda leikmenn liðsins og Snæfell úr Stykkishólmi fylgdi í kjölfarið með því að segja upp þjálfaranum frá Makedóníu og þremur erlendum leikmönnum liðsins.

Ástandið er það alvarlegt í Stykkishólmi að forsvarsmenn félagsins boðuðu til íbúafundar í gærkvöld þar sem að farið var yfir stöðuna. Snæfell lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor en miðað við þær breytingar sem verða á leikmannahópi félagsins er ljóst að staða liðsins er allt önnur en fyrir nokkrum dögum síðan.