Eftir Magnús Halldórsson magnush@24stundir.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@24stundir.is

Íslensk stjórnvöld, í gegnum Tryggingarsjóð fyrir innistæðueigendur, ábyrgjast innistæður upp á rúmlega 20 þúsund evrur, 2,7 milljónir króna, fyrir meira en 200 þúsund manns í Bretlandi sem hafa nýtt sér Icesave-innistæðureikninga Landsbankans.

Samtals eru viðskiptavinir með um fimm milljarða punda, um 800 milljarða króna, inni á innlánsreikningum sínum.

Til viðbótar við ríflega 20 þúsund evra tryggingu koma um 50 þúsund pund, 8,4 milljónir króna, sem breski tryggingarsjóðurinn ábyrgist.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, ræddi um þessi mál, meðal annarra, við Geir H. Haarde síðastliðinn laugardag, samkvæmt heimildum 24 stunda.

Nauðsynleg innlán

Landsbankinn og Kaupþing hafa einblínt á að styrkja innlán sín til að mæta erfiðleikum á fjármálamörkuðum. Á undanförnum tveimur árum hefur viðskiptavinum bankanna með innlánsreikninga fjölgað ört erlendis. Bankarnir buðu hærri vexti en flestir aðrir bankar og náðu þannig til sín hundruðum þúsunda viðskiptavina á stuttum tíma.

Ólíkt því sem er í tilfelli Icesave ábyrgjast bresk stjórnvöld innistæður sem eru inni á reikningum Kaupþing Edge í Bretlandi. Því er hins vegar ekki svo farið í hinum tíu löndunum þar sem Kaupþing er með starfsemi. Íslensk stjórnvöld ábyrgjast innistæðurnar upp að fyrrnefndu marki, 20 þúsund evrum, í einhverjum tilfellum ásamt stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig.

Breska ríkisútvarpið greindi frá því í gær að mörg Evrópulönd leituðu nú leiða til þess að auka samstarf um vernd innistæðna. Meðal ástæðna fyrir nauðsyn samstarfs er að fjármálafyrirtæki, sem hafa höfuðstöðvar sínar í einu landi, hafa opnað innistæðureikninga um víða veröld og þannig starfað inni á svæði með annað regluverk en tíðkast hér á landi. Við þetta hefur komið upp flókin staða þar sem stjórnvöld í einu landi hafa borið ábyrgð á innlánum fólks í öðru landi.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, telur augljóst mál að innlánastarfsemi íslenskra banka verði breytt.

„Ég held að það sé alveg ljóst að það verði girt fyrir það í framtíðinni að íslensk fjármálafyrirtæki geti tekið lán í útlöndum, með því að hvetja til innlána á háum vöxtum, og gert það í skjóli íslenskrar ríkisábyrgðar. Það er galið og eflaust kemur það aldrei upp aftur.“

Í hnotskurn
Samtals eru um fimm milljarðar evra inni á innlánsreikningum Kaupþing Edge í ellefu löndum í Evrópu. Mörg lönd hafa að undanförnu hækkað tryggingarupphæð fyrir innistæðueigendur frá því sem var til að verja hagsmuni almennings af hruni banka.