Óvissa Eimskip er með skrifstofur í 14 löndum auk Íslands.
Óvissa Eimskip er með skrifstofur í 14 löndum auk Íslands. — Morgunblaðið/hag
Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur camilla@mbl.is EIMSKIP segir mikla óvissu ríkja um langtímafjármögnun félagsins.

Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur

camilla@mbl.is

EIMSKIP segir mikla óvissu ríkja um langtímafjármögnun félagsins. Í tilkynningu frá félaginu í gær segir að þar sem Samson hafi farið fram á greiðslustöðvun ríki mikil óvissa um fyrirhuguð kaup fjárfesta á kröfu á hendur Eimskipafélaginu upp á 207 milljónir evra. Krafan sé tilkomin vegna gjaldþrots XL.

Heiðrún Jónsdóttur, framkvæmdastjóri hjá félaginu, segir þó enn óbreytt ástand hjá því þrátt fyrir ósk Samson um greiðslustöðvun. Með tilkynningunni hafi Eimskip viljað vekja athygli á því að enn hafi ekki verið formlega gengið frá því að Björgólfsfeðgar tækju við henni.

„Þessi krafa er því yfir okkur áfram og við vitum ekki hvað verður um hana,“ segir Heiðrún. Þegar hún er spurð hvort Eimskip stefni í gjaldþrot segist hún ekki geta sagt til um hvað gerist með kröfuna í framtíðinni.

„Við höldum okkar óbreyttu stefnu þangað til annað gerist. Enn hefur enginn krafið okkur um hana og við erum að vinna í langtímafjármögnun. Eins og staðan er í dag, hefur í sjálfu sér enginn hag af að gjaldfella kröfuna.“

Áform Eimskips um sölu eigna eins og Atlas Versacold sé í ferli sem ætti að klárast fyrir áramót. Þá sé flutningastarfsemi Eimskips í góðum rekstri, dagleg starfsemi sé tryggð og þjónusta félagsins sé því með óbreyttum hætti.

Í fréttum í tengslum við gjaldþrot XL í september kom fram að Eimskip hefði gengið í ábyrgðir fyrir lánið, sem Landsbankinn er kröfuhafi að, við söluna á XL árið 2006. Þá kom fram að sala á Atlas Versacold væri afar mikilvæg til að greiða niður miklar skuldir og lækka vaxtakostnað Eimskips. Eigendur eru taldir heppnir ef Versacold verður selt án mikils taps. Markaðsvirði Eimskips í íslensku kauphöllinni hefur fallið úr 12,4 í 3,9 á einum mánuði eða um 68,5%.