Auður Jónsdóttir rithöfundur er í félagsskap kóngafólks og Nóbelshöfunda í nýútkominni bók.

Auður Jónsdóttir rithöfundur er í góðum félagsskap Nóbelsverðlaunahafa, vísindamanna og kóngafólks í bók sem er nýkomin út í Sevilla á Spáni. Bókin heitir Lof orðanna. Rithöfundar, listamenn og heimsþekkt fólk í þágu menntunar og menningar og inniheldur texta eftir hundrað rithöfunda alls staðar að úr heiminum. Þar á meðal eru heimsfrægir höfundar á borð við José Saramago og Paulo Coelho og José Luis Rodrígues Zapatero, forsætisráðherra Spánar.

Með prinsinum á baksíðunni

„Ég er eiginlega sjálf hálfgáttuð. Ég var bara beðin um að vera með í bók þar sem ég átti að skrifa fyrir krakka um töfra þess að skrifa og lesa. Síðan fékk ég bókina í hendurnar og þá voru bara krónprinsinn, forsætisráðherrann og allir að skrifa í hana,“ segir Auður. „Mér þykir afar vænt um þetta. Þetta er falleg bók og svo fannst mér svo gaman að sjá myndir af mér og krónprinsinum á baksíðunni.“

Í ritsmíð sinni fjallar Auður um töfra skáldskaparins fyrir börn. „Ég skrifaði um ævintýrið að skrifa og lesa, hvernig maður getur blandað öllu saman, búið til sinn eigin heim og ráðið þeirri veröld eftir eigin draumum og duttlungum.“

einarj@24stundir.is