[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólíklegt er talið að framherjinn Robin van Persie og varnarmaðurinn John Heitinga geti leikið með hollenska landsliðinu gegn Íslandi í undankeppni HM í knattspyrnu á laugardaginn.

Ólíklegt er talið að framherjinn Robin van Persie og varnarmaðurinn John Heitinga geti leikið með hollenska landsliðinu gegn Íslandi í undankeppni HM í knattspyrnu á laugardaginn. Van Persie á við smávægilega tognun í læri að stríða og Heitinga er meiddur á hné. Þeir gætu því bæst í hóp þeirra Arjen Robben , Jan Vennegoor of Hesselink og Maarten Stekelenburg sem allir missa af leiknum vegna meiðsla.

Íshokkíliðið Björninn vann í gærkvöld sinn fyrsta leik á nýhafinni leiktíð þegar það lagði SR að velli með sex marka mun, 9:3, í Egilshöllinni. SR-ingar höfðu unnið tvo fyrstu leiki sína en Björninn komst 2:1 yfir í fyrsta leikhluta í gær, og hafði 6:3 yfir eftir annan. Liðið skoraði svo öll þrjú mörkin í lokaleikhlutanum.

Sjúkraþjálfari brasilíska knattspyrnumannsins Ronaldo segir að leikmaðurinn hafi jafnað sig eftir hnéaðgerðina sem hann gekkst undir í sumar og geti byrjað að spila innan mánaðar. Ronaldo, sem er 32 ára, hefur ekki spilað síðan hann meiddist illa á hné í febrúar og í kjölfarið þurfti hann að gangast undir aðgerð. Reiknað hafði verið með að Ronaldo yrði frá keppni í 9 mánuði en kappinn hefur verið duglegur í endurhæfingu sem hefur flýtt fyrir batanum.

Einn af silfurdrengjum knattspyrnuliðs Keflavíkur , Hallgrímur Jónasson , heldur á sunnudag til Svíþjóðar þar sem hann mun verða til reynslu hjá úrvalsdeildarliði GAIS , en þar lék liðsfélagi hans Jóhann B. Guðmundsson áður en hann sneri aftur til Keflavíkur. Vefsíðan fótbolti.net greindi frá þessu. Einn Íslendingur er á mála hjá GAIS en það er miðvallarleikmaðurinn Eyjólfur Héðinsson . Samningur Hallgríms við Keflavík rennur út um miðjan mánuðinn.

Rússneski framherjinn Roman Pavlyuchenko , leikmaður Tottenham , er kominn á sjúkralistann og verður frá keppni í 3-4 vikur vegna meiðsla á ökkla sem hann varð fyrir í leik gegn Hull um síðustu helgi.