Byggt Íbúðalán bankanna nema 600 til 700 milljörðum króna.
Byggt Íbúðalán bankanna nema 600 til 700 milljörðum króna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR mun taka við íbúðalánum banka á þeim kjörum og með þeim skilyrðum sem lánasamningarnir kveða á um.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR mun taka við íbúðalánum banka á þeim kjörum og með þeim skilyrðum sem lánasamningarnir kveða á um. Félagsmálaráðherra fullyrðir að lántakendur verði betur settir í skjóli Íbúðalánasjóðs en þeir hefðu verið hjá bönkunum.

Í neyðarlögum Alþingis um heimildir til aðgerða á fjármálamarkaðnum var Íbúðalánasjóði heimilað að yfirtaka húsnæðislán bankanna. Gert er ráð fyrir því að félagsmálaráðherra geti gefið út reglugerð til að mæla fyrir um slíka yfirfærslu. Reglugerðin hefur ekki verið samin og ekki von á henni fyrr en í lok þessarar viku eða byrjun næstu. Unnið var að undirbúningi málsins í félagsmálaráðuneyti og hjá Íbúðalánasjóði í gær.

Vegna yfirtöku skilanefndar á stjórn Landsbankans í gærmorgun má búast við að fyrst reyni á húsnæðislán þess banka. Þar virðast einmitt hafa skapast þær aðstæður sem nýju lögin taka til. Eftir því sem næst var komist hafði í gær ekki borist ósk frá skilanefnd bankans um sölu á lánum með húsnæðisveðum til Íbúðalánasjóðs. Skýrt kemur fram í lögunum að ekki þurfi að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu.

Ekkert liggur fyrir um það hvort og þá hvernig vaxtakjör lánanna munu breytast við yfirfærslu til Íbúðalánasjóðs. Stór hluti húsnæðislána bankanna er verðtryggður með 4,15% vöxtum en jafnframt með endurskoðunarákvæði sem heimildar lánveitanda að breyta vöxtum til samræmis við breyttar aðstæður. Endurskoðunarákvæði lánanna sem veitt voru haustið 2004 verður virkt næsta sumar eða haust. Lán sem bankarnir hafa veitt að undanförnu eru á mun hærri vöxtum.

Afsláttur veitir svigrúm

Vextir lána Íbúðalánasjóðs fara eftir þeim kjörum sem sjóðurinn fær á skuldabréfum sem hann býður út á markaði, að viðbættu álagi. Vextir þeirra eru núna 4,9%, miðað við uppgreiðsluákvæði, en 5,4% á almennum lánum.

Íbúðalánasjóður tekur við lánunum með núverandi kjörum. Vextir verða óbreyttir, fyrst um sinn, gengistryggð lán færist yfir í þeirri mynt og gengi sem í gildi er. Það síðarnefnda þýðir að þeir sem tekið hafa lán í erlendri mynt, geta enn lifað í voninni um að þau lækki aftur með hækkun íslensku krónunnar.

Erfitt er að fullyrða hvort lánakjörin haldast óbreytt. Hluti húsnæðislána bankanna virðist vera fjármagnaður til skamms tíma. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sagði í gær að verið væri að skoða á hvaða verði tekið verði við íbúðalánum bankanna. „Við hljótum að yfirtaka [þau] með ákveðnum afslætti sem gefur okkur möguleika til þess að gera betur fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum,“ segir Jóhanna. Hún segir að fara verði vel yfir lánasöfnin og taka tillit til veðanna á bak við þau þegar yfirtökuverð Íbúðalánasjóðs verður ákveðið. Hún segir nauðsynlegt að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum og vísar til þess að Íbúðalánasjóður hafi betri úrræði til þess en bankarnir. Þá bindur hún vonir við ný úrræði í frumvarpi viðskipta- og dómsmálaráðuneytis um greiðsluaðlögun.

Í hnotskurn
» Íbúðalán nema 1.200 til 1.300 milljörðum kr. Þar af eru verðtryggð íbúðalán bankanna 500-600 milljarðar og íbúðalán í erlendri mynt hátt í 100 milljarðar kr.
» Heildarskuldir heimilanna við lánakerfið nema 1.760 milljörðum kr.

„Fólk í öruggara skjóli“

EKKI hefur verið ákveðið hvernig húsnæðislánin sem Íbúðalánasjóður tekur við verða greidd. Félagsmálaráðherra segir að verið sé að skoða málið. Skuldabréfaútboð Íbúðalánasjóðs komi til greina en einnig aðrar leiðir sem ekki sé hægt að segja frá nú.

Íbúðalánasjóði hefur gengið ágætlega að fjármagna útlán sín að undanförnu. Það hefur aðallega verið gert með skuldabréfaútboðum. Nú hlýtur hins vegar að vera meiri óvissa um kjör í slíku útboði, vegna þeirra aðstæðna sem ríkja á fjármálamarkaðnum og lækkun lánshæfismats íslenska ríkisins og stofnana þess.

Takist Íbúðalánasjóði ekki að fá fjármagn á góðum kjörum til þess að fjármagna þessi nýju verkefni sín, hlýtur það að koma til skoðunar að nýta endurskoðunarákvæði lánasamninganna, eins og búist hefur verið við að bankarnir myndu gera. Á móti má lesa yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur varað við afleiðingum þess ef bankarnir hækka vexti húsnæðislána verulega, meðal annars í ræðustól Alþingis. Talið er að lán um 5500 einstaklinga sé með þessum ákvæðum. Félagsmálaráðherra kveðst ekki geta lofað óbreyttum vöxtum, þeir fari eftir vaxtastiginu. „Það eina sem ég get sagt er að þetta fólk verður í öruggara skjóli hjá okkur en bönkunum við þær aðstæður,“ segir Jóhanna.