[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ferðaklúbburinn 4x4 á 25 ára afmæli um þessar mundir og heldur upp á það með veglegri sýningu í Fífunni um helgina. Undirbúningur gengur vel þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Ferðaklúbburinn 4x4 heldur veglega afmælisveislu í Fífunni í Kópavogi um næstu helgi, en félagið fagnar nú 25 ára afmæli sínu. Sýndir verða á annað hundrað bílar ásamt því sem öll helstu fyrirtæki tengd jeppamennsku kynna starfsemi sína og allar nefndir og deildir klúbbsins verða með kynningarbása. Undirbúningurinn fyrir sýninguna gengur vel að sögn Loga Ragnarssonar, ritara félagsins. „Okkur miðar vel þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu enda margir sem leggja hönd á plóginn,“ segir hann. „Þetta verður mjög áhugaverð sýning enda verða til sýnis bílar á ýmsum aldri, það er að segja, glænýir bílar með öllum þeim útbúnaði sem prýðir þá, í bland við eldri. Þetta verður bílaflóra síðustu 25 ára og sumir eru eldri en klúbburinn sjálfur.“

Starfræktur um allt land

Ferðaklúbburinn 4x4 var stofnaður árið 1983 af hópi jeppaáhugamanna. Í dag eru félagar um 6.000 talsins og eru tíu landsbyggðanefndir og fjöldi nefnda starfræktar á vegum klúbbsins. Á hverju ári heldur klúbburinn námskeið og fræðslufundi af ýmsu tagi ásamt því sem farnar eru nokkrar ferðir. „Við leggjum til dæmis mikla áherslu á allt það sem við kemur umhverfisvernd og landvernd og erum virk við landgræðslu, stikun á lóðum, fræsöfnun og fleira,“ bendir Logi á.

Meðal þess sem verður á afmælissýningu Ferðaklúbbsins 4x4 verður stærsti jeppi landsins og „miðja Íslands“. Opnunartími verður föstudaginn 10. október frá klukkan 18 til 22, laugardaginn 11. október frá 10 til 20 og sunnudaginn 12. október frá 12 til 19.

Í hnotskurn
Á hverju ári eru farnar nokkrar ferðir á vegum klúbbsins eins og nýliðaferðir, þorrablótsferð, kvennaferð, stikuferð, vinnuferðir og gróðursetningarferðir auk styttri dagsferða.