Sannir jafnaðarmenn hafa viðkvæma sál og finna til með öðrum á erfiðum tímum. Þeim gengur yfirleitt illa að leyna þessum tilfinningum sínum eins og opinberaðist greinilega í fari Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósþætti síðastliðið mánudagskvöld.

Sannir jafnaðarmenn hafa viðkvæma sál og finna til með öðrum á erfiðum tímum. Þeim gengur yfirleitt illa að leyna þessum tilfinningum sínum eins og opinberaðist greinilega í fari Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósþætti síðastliðið mánudagskvöld. Hún tók hinn skelfilega efnahagsvanda greinilega mjög nærri sér.

Þessi svipur sást ekki á Geir Haarde og hans fólki sem er reyndar ekkert skrýtið. Kapítalistarnir eru yfirleitt harðir af sér, það er bara í eðli þeirra. Þeir eru jarðbundnir að eðlisfari og finnst veikleikamerki að sýna að þeim sé brugðið. Sem merkir ekki að þeir hafi ekki tilfinningar, þeir eru bara meira inn í sig á tilfinningasviðinu en jafnaðarmennirnir.

Vinstri-grænir ganga um með hinn óþolandi „Ég sagði ykkur þetta allt fyrir löngu“-þrumusvip. En hverjum átti svosem að geta dottið í hug að þessir afturhaldsskarfar, eins og þeir eru venjulega stimplaðir, hefðu haft á réttu að standa allan tímann í baráttunni gegn einkaþotu-kapítalistunum?

Framsóknarmenn láta svo eins og þeir séu bernskir og hugsjónaríkir í pólitík, hafi ekki setið í ríkisstjórn fyrir nokkrum árum og aldrei nokkurn tíma látið sér til hugar koma að leggja blessun sína yfir einkavæðingu bankanna. Hvað Frjálslynda flokkinn varðar þá getur hinn dæmigerði fylgismaður þess flokks fundið huggun í því að í ömurlegu efnahagsástandi hrökklast útlendingar frá Íslandi og halda til síns heima.

Og aldrei þessu vant spyrst ekkert til útrásarvíkinganna galvösku sem lögðu undir sig bankakerfið þannig að eftir var tekið og virtust lifa sælir við glaum og glys. Engu er líkara en þeir séu horfnir af landi brott í einkaþotunum sínum.

Fjölmiðlar hafa svo yfrið nóg að gera. Sumir þeirra eru að hræða líftóruna úr almenningi með fréttaflutningi um yfirvofandi fjöldagjaldþrot, vöruskort og einangrun landsmanna í kulda og trekki. Fjölmiðlafólk móðgast svo ógurlega þegar viðmælendur þess benda kurteislega á að það eigi ekki að tala ástandið niður. Alvöru fjölmiðlafólk sér ekki marktækt fréttaefni í björtu hliðunum, svoleiðis dútlefni er að þess mati bara fyrir Séð og heyrt og önnur léttvæg blöð sem líta svo á að hlutverk þeirra sé að gera lífið skemmtilegra.

Almenningur, sem lifði að flestu leyti góðu lífi fyrir tíu dögum eða svo, bregst yfirleitt skynsamlega við. Fólk endurtekur hvað við annað það sem stjórnmálamennirnir hafa sagt á undanförnum dögum: „Við komumst í gegnum þetta.“ Og það er ákveðin huggun í orðum forsvarsmanna atvinnulífsins sem segja að möguleikar felist í stöðunni.

Það er ekki útilokað að þjóðin komist að mestu ósködduð frá kreppunni. Með þrautseigju og útsjónarsemi má vinna óvænta sigra. Það sem mestu skiptir er að hræðast ekkert og nenna að berjast. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir