Rætt var um Ísland og afleiðingar fjármálakreppunnar á blaðamannafundi með fjármálaráðherra Noregs, Kristínu Halvorsen, vegna norskra fjárlaga í gær.

Rætt var um Ísland og afleiðingar fjármálakreppunnar á blaðamannafundi með fjármálaráðherra Noregs, Kristínu Halvorsen, vegna norskra fjárlaga í gær. Halvorsen er formaður SV, Vinstri sósíalistaflokksins, og tók því líklega að Noregur gæti lagt sitt af mörkum til að bjarga íslensku fjármálakerfi.

Áður hafði Lars Sponheim, formaður borgaraflokksins Venstre, spurt um sama mál. Halvorsen lýsti Íslandi sem stöðugu ríki. „En það býr við fjármálakerfi sem er tíu sinnum stærra en kerfi þjóðarinnar sjálfrar. Íslensk stjórnvöld hafa ekki snúið sér til okkar, en komi slíkt erindi frá þeim, göngum að að sjálfsögðu til viðræðna við þau um lausnir, “ sagði norski fjármálaráðherrann í gær. Formaður Venstre sagði þegar hann tók til máls: „Látum þá (Íslendingana) ekki vera eina úti í reginhafi,“ og hann telur að Norðmönnum beri skylda til að aðstoða Íslendinga.

„Blóð er þykkara en vatn, við höfum sömu genin og norska ríkisstjórnin á að hafa samband við bræður okkar í vestri og fá álit þeirra á því hvernig við getum aðstoðað,“ sagði Sponheim. Norskir fjölmiðlar fylgjast nú með íslenska fjármálahruninu og spurt er hvort Noregur ætti að kaupa íslenska banka. Engu var þó svarað í gær.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hefur átt í óformlegu sambandi við fjármálaráðherrann í systurflokknum í Noregi. „Ég hef hvatt ríkisstjórnina til að ræða við Norðmenn. Glitnir á miklar eignir og góðar í Noregi og það skiptir máli hvað um þær verður.“ Steingrímur bendir á að norski seðlabankinn sé sá sterkasti á Norðurlöndum og Samfylkingin ætti að eiga hægt um vik að tala við norska forsætisráðherrann, Jens Stoltenberg, leiðtoga norskra jafnaðarmanna. beva@24stundir.is