„Í þriðjungi þeirra 42 landa þar sem einna mest hætta er á að átök brjótist út eða náttúruhamfarir dynji yfir er enginn til staðar til að samhæfa hjálparstarf og stjórna aðgerðum alþjóðasamfélagsins,“ sagði Gareth Thomas, ráðherra...

„Í þriðjungi þeirra 42 landa þar sem einna mest hætta er á að átök brjótist út eða náttúruhamfarir dynji yfir er enginn til staðar til að samhæfa hjálparstarf og stjórna aðgerðum alþjóðasamfélagsins,“ sagði Gareth Thomas, ráðherra þróunarsamvinnu í Bretlandi.

Endurskoðun er nauðsynleg

Thomas, sem ávarpaði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í Genf í gær, sagði frá því að slæm forysta SÞ vegna neyðaraðstoðar hefði kostað fólk lífið. Endurskoðun yrði að ganga í gegn í ljósi þess að hamfarir af völdum manna og náttúru ykjust stöðugt.

„Hamfarir sem tilkynnt er um síðastliðin 10 ár hafa aukist um 60% frá því á síðasta áratug,“ sagði Thomas. Að hans mati hafa hjálparstofnanir ekki náð að halda í við þróunina. Í samtali við breska dagblaðið The Guardian segir Thomas að í þeim löndum þar sem fólk sé til staðar til að samhæfa aðgerðir sé það yfirleitt ekki hæft til starfsins. Hann tekur sem dæmi hvernig staðið var að dreifingu vatns meðal flóttamanna í Tsjad. „Slæm samhæfing leiddi til þess að þar var drykkjarvatni dreift ójafnt og fólk í neyð leið skort.“

Í ræðu á mánudag sagði António Guterres, yfirmaður Flóttamannastofnunarinnar, að stjórnun starfsmannamála hjá stofnuninni væri afleit. „Ég hef hvergi orðið vitni að jafn slæmri stjórnun á öllum mínum starfs- og stjórnmálaferli,“ sagði Guterres. Og fyrir það þyrftu starfsmenn að gjalda sem og skjólstæðingar stofnunarinnar. jmv

Í hnotskurn
Þörf fyrir hjálparstarf hefur aukist, t.d. vegna hlýnunar og hækkunar matvælaverðs. Breskur ráðherra þróunarsamvinnu segir brýnt að fá fólk frá þróunarlöndum til starfa.