Hrun Landsbankans gæti haft í för með sér að íslenskir skattborgarar þurfi að bæta breskum og hollenskum sparifjáreigendum allt að 560 milljarða króna tap. Þetta er vegna svokallaðra Icesave-reikninga, sem bankinn var með á Bretlandi og í Hollandi.

Hrun Landsbankans gæti haft í för með sér að íslenskir skattborgarar þurfi að bæta breskum og hollenskum sparifjáreigendum allt að 560 milljarða króna tap. Þetta er vegna svokallaðra Icesave-reikninga, sem bankinn var með á Bretlandi og í Hollandi.

Það er með ólíkindum að bankinn skuli hafa stundað viðskipti með þessum hætti, vitandi vits að verið væri að skuldbinda Tryggingasjóð innistæðueigenda á Íslandi.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Icesave-reikningarnir falla undir reglur, sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu þess efnis að fari illa eigi innistæðueigendur að leita fyrst til upprunalands eftir bótum áður en þeir geta leitað til heimalandsins. Landsbankinn hafði því samkvæmt þessum reglum fulla heimild til að stofna útibú í þessum tveimur löndum.

Á Bretlandi er augljóslega gert ráð fyrir því að Íslendingar muni standa við skuldbindingar sínar og greiða innistæðueigendum allt að 16 þúsund pund og breski innistæðusjóðurinn taki þá við og leggi fram allt að 50 þúsund pund til viðbótar. Gera má ráð fyrir því að sömu kröfur verði gerðar í Hollandi.

Því yrði ekki tekið af léttúð ákvæðu Íslendingar að standa ekki við þær skuldbindingar, sem Landsbankinn hefur búið til með þessum reikningum, sem til skamms tíma var hampað eins og þeir væru ljósið í myrkrinu, en ekki viðbótarfarg á myllusteininn. Vanefndir gætu hæglega orðið að milliríkjadeilu.

Það er súrt í broti að þurfa að standa við þessar skuldbindingar og óskiljanlegt að Landsbankinn skyldi ekki fara sömu leið og Kaupþing og ganga þannig frá hnútum að innistæðurnar væru tryggðar í heimalandi viðskiptavinanna. Nægur er skellurinn vegna ævintýramennsku íslenskra bankamanna samt.