Íslenskur slagur Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, og Jón Nordal Hafsteinsson úr Keflavík eru lykilmenn í sínum liðum en svo gæti farið að þeir myndu aðeins mæta íslenskum andstæðingum í Iceland Express deildinni í vetur.
Íslenskur slagur Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, og Jón Nordal Hafsteinsson úr Keflavík eru lykilmenn í sínum liðum en svo gæti farið að þeir myndu aðeins mæta íslenskum andstæðingum í Iceland Express deildinni í vetur. — Morgunblaðið/Eggert
Miklar sviptingar eru í leikmannamálum hjá körfuknattleiksliðum í Iceland Express-deildinni. Í gær sendu tvö félög frá sér tilkynningu þess efnis að þau hefðu rift samningunum við leikmenn.

Miklar sviptingar eru í leikmannamálum hjá körfuknattleiksliðum í Iceland Express-deildinni. Í gær sendu tvö félög frá sér tilkynningu þess efnis að þau hefðu rift samningunum við leikmenn. Fleiri félög funduðu um sín mál í gær og er ljóst að gengi íslensku krónunnar og óvissa á fjármálamarkaðinum á Íslandi hefur sett allar áætlanir félaganna úr skorðum.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

Forráðamenn Njarðvíkinga funduðu um sín mál í gær og þeir komust að þeirri niðurstöðu að segja upp samningum sínum við Heath Sitton, Slobodan Subasic og Colin O'Reilly. Í gærmorgun gaf Snæfell úr Stykkishólmi út þá yfirlýsingu að þjálfari liðsins sem er frá Makedóníu og þrír erlendir leikmenn yrðu ekki áfram hjá félaginu.

Seint í gærkvöld sátu forráðamenn Skallagríms á fundi með bandarískum þjálfara liðsins og fóru yfir stöðuna. Allt benti til þess að samningum við hann og þrjá erlenda leikmenn liðsins yrði rift.

„Ég borgaði laun hinn 3. október og þeir sem eru á launum sömdu allir um greiðslur í erlendri mynt. Við gengum út frá sömu forsendum og fyrir ári síðan þegar samið var við leikmenn. Launakostnaðurinn hefur hækkað um 100% frá því í september í fyrra og það sér það hver maður að þetta ástand getur ekki gengið lengi,“ sagði Hafsteinn Þórisson formaður körfuknattleiksdeilar Skallagríms í gær.

Keflvíkingar voru einnig að meta stöðuna í gær en Íslandsmeistaraliðið er með tvo erlenda leikmenn í sínum röðum og allar líkur eru á því að aðeins annar þeirra verði með.

Það voru forráðamenn ÍR sem tóku fyrstir ákvörðun um að skera niður kostnað og segja upp samningum við leikmenn. Tveir erlendir leikmenn voru á samningi hjá liðinu. Það hafa því 8 leikmenn og 1 þjálfari misst vinnuna á undanförnum dögum og miðað við fundarhöld gærkvöldsins hjá öðrum úrvalsdeildarliðum er ljóst að fleiri lið gætu tekið svipaðar ákvarðanir.

Þórsarar íhuga sín mál

Forráðamenn Þórs frá Akureyri eru að íhuga sína stöðu en liðið er með þrjá erlenda leikmenn í sínum röðum. Hjá Tindastóli á Sauðárkróki er svipaða sögu að segja, þar er ýmsum möguleikum velt upp en ekki er búið að taka endanlega ákvörðun.

KR-ingar bera sig ágætlega og ætla þeir að halda sínu striki með einn erlendan leikmann og sömu sögu er að segja af Grindavík, sem er með bandarískan leikmann í sínu liði.