[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og við mátti búast er Ísland komið í heimspressuna út af bankakreppunni ógurlegu.

Eins og við mátti búast er Ísland komið í heimspressuna út af bankakreppunni ógurlegu. Breska blaðið Observer birti til að mynda um daginn ítarlega grein um Ísland þar sem meðal annars var sagt frá því að unga kynslóðin hér á landi hefði í mesta lagi óljósar minningar um erfiða tíma. Það er svosem alveg rétt. En svo alhæfir blaðið um unga Íslendinga, kallar þá krúttkynslóðina, segir þá umhverfisverndarsinnaða, spillta af eftirlæti og að þeir hlusti á Björk og Sigur Rós.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að erlendir blaðamenn skuli misskilja og halda að meginþorri ungs fólks á Íslandi hafi alla tíð verið umhverfisverndarsinnað og að Björk og Sigur Rós hafi verið óumdeildar stjörnur í landinu. En það er jafnrangt fyrir því. Mér hefur nefnilega fundist eins og umhverfisverndarsinnar, og þar með talið Björk og meðlimir Sigur Rósar, hafi fulllengi verið litnir hornauga. Það hafi þótt hallærislegt að leggja áherslu á annað en skjótfenginn gróða, sem eigi enga samleið með náttúruvernd. Krúttkynslóðin, á hvaða aldri sem er, skildi ekki að peningar yxu ekki á trjánum.

Ég fékk á tilfinninguna að niðurstaða blaðsins væri sú að nú væri kominn tími á viðhorfsbreytingu hér á landi. Því er ég alveg sammála. En það er ekki krúttkynslóðin sem þarf að hugsa sinn gang heldur einmitt hinir, sem hafa talið fégræðgi vera göfugri en verndun náttúrunnar og lykilinn að framförum. Við sjáum nú hversu rétt þeir höfðu fyrir sér, eða þannig.