Guðmundur Birgisson fæddist í Reykjavík 17. október árið 1955. Hann lést á heimili sínu 30. september síðastliðinn. Foreldrar hans eru hjónin Birgir Kristjánsson, f. á Vopnafirði 4.8. 1932 og Elín Ellertsdóttir, f. í Reykjavík 21.10. 1933. Þau eru búsett í Hveragerði. Systkini Guðmundar eru Helgi, maki Tune Birgisson; Kristján, maki Valgerður Kristjánsdóttir; Valgeir, maki Valgerður Jóhannesdóttir og Guðmunda H., maki Snorri Snorrason.

Guðmundur kvæntist hinn 16. október 1976 Grétu Vigfúsdóttir, f. í Reykjavík 19. nóvember 1952. Foreldrar hennar voru hjónin Vigfús Árnason, f. 23.4. 1925, d. 22.3. 1983 og Inga Jenný Guðjónsdóttir, f. 15.12. 1925, d. 27.2. 2008. Börn Guðmundar og Grétu eru: 1) Birgir Kristján, f. 31. mars 1978, sambýliskona Jóna Björg Ólafsdóttir, f. 9. maí 1983; dætur þeirra eru Hafdís Björg, f. 12.9. 2003 og Sandra Ósk, f. 1.1. 2005; 2) Inga Vigdís, f. 20. mars 1985, sonur hennar er Birgir Máni, f. 16.5. 2005.

Guðmundur ólst upp að mestu í Reykjavík og bjó þar öll sín fullorðinsár. Hann gegndi hinum ýmsu störfum um ævina. Guðmundur naut þess mjög að ferðast, hvort sem var innanlands eða utan. Ófá sumur var dvalið við Meðalfellsvatn þar sem hann eignaðist marga góða vini. Síðari árin dvöldu Guðmundur og Gréta mikið í hjólhýsi sínu í Úthlíð í Biskupstungum. Guðmundur var handlaginn mjög eins og ófáir útskurðarmunir eftir hann bera glögglega með sér.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Fella- og Hólakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Þegar ég kveð hann pabba minn.

hinstu kveðju koma fyrst og fremst upp í hugann ljúfar minningar.

Það var svo gaman að fara að veiða í Meðalfellsvatni.

Eitt sinn vildi Árni frændi stjórna bátnum og þið fóruð báðir út í vatnið og sneruð bátnum og klifruðuð upp í.

Hestamennskan var líka æðisleg, fórum þar um víðan völl og áttum margar góðar minningar frá þeim tíma.

Síðan veikist þú, elsku pabbi, og það hefur nú verið þrautaganga en margt gerst á þeim tíma og er ég þér þakklátur fyrir góða kennslu og uppeldi til að takast á við lífið – alltaf

með svör við öllu og alltaf til í að hjálpa til.

Og nú í sumar fannst okkur svo gaman að koma til ykkar mömmu í Úthlíð. Og nutu stelpurnar þess svo mikið að vera með ykkur þar.

En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því að hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

(F1 3:20-21) Ó, þegar Jesú auglit fæ að sjá,

ósk mín og vonir rætast Guði hjá,

sem lítið barn mig leiðir hann við hlið

og lofar mig að skilja aldrei við.

Ó, þegar fæ ég heyrt hans hlýju raust,

hjá honum dvelja má ég endalaust.

Ó, þegar sjálfur segir Jesús mér,

sorgir hvers vegna oft mig beygður er.

(Elínborg Guðmundsdóttir.)

Minning þín lifir í huga mér, mun ætíð elska þig pabbi.

Þinn sonur,

Birgir Kr. Guðmundsson.

Elsku vinur og mágur.

Erfitt er að kveðja svona góðan dreng eins og Guðmundur var, og erfitt að skrifa um hann því hann var frábær í alla staði.

Manstu, Gummi minn, þegar ég og systir þín komum í bústaðinn til ykkar hjóna og við strákarnir fórum að veiða, eða fórum með veiðistangirnar niður að vatni en fengum ekki nokkurn einasta fisk og urðum ekki einu sinni varir. Við gátum spjallað og gortað um veiði, hvort sem sögurnar voru sannar eða lognar var þetta yndislegur tími. Við hjónin sváfum í tjaldvagni fyrir utan og ég vaknaði um nóttina og vakti Guðmundu og hélt að það væri kominn jarðskjálfti, en þá varst það bara þú sofandi og hraust.

Við gátum skipst á skoðunum um tónlist en þar hafðir þú fastar skoðanir.

Eða þegar við fórum á hestbak og þú dast af baki hélt ég að þú hefðir meitt þig en eins og oft áður reistir þú þig upp og sagðir mér að halda áfram því það væri ekkert sem amaði að þér. Þetta og svo margt fleira geymi ég í hjarta mínu.

Jesú er Guð þinn

því aldrei skalt gleyma.

Hann gengur við hlið þér

og leiða þig vill.

Þú eilífa lífið

átt honum að þakka,

hann sigraði dauðann

og lífið gaf þér.

Guðs son á himni

nú vakir þér yfir.

Hann gleymir ei bæn þinni

hver sem hún er.

Líf mitt sé falið þér

eilífi faðir.

Faðminum þínum ég hvíla vil í.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Þökk fyrir allt.

Þinn mágur,

Snorri Snorra.

Svo leggur þú á höfin blá og breið

á burt frá mér og óskalöndum þínum,

og stjarna hver, er lýsir þína leið,

er lítill gneisti, er hrökk af strengjum mínum.

Þú skilur eftir minningar hjá mér

um marga gleðistund frá liðnum árum,

og alltaf mun ég fagna og þjást með þér

og þú skalt vera mín – í söng og tárum.

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál

er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.

En seinna gef ég minningunum mál,

á meðan allt á himni og jörðu sefur.

Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,

í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,

Þú gafst mér alla gleði sem ég á.

Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

(Davíð Stefánsson.)

Það er erfitt að trúa því að Gummi bróðir hringi ekki oftar til þess að spjalla.

Það eru margar minningarnar sem sækja á hugann.

Gummi og Gréta stóðu saman eins og klettur og ég gat alltaf leitað til þeirra ef eitthvað var. Við Gummi fórum í margar veiðiferðir saman, núna síðast í ágúst áttum við góðan dag saman. Hann var mættur eldsnemma með kaffi á brúsa og vakti litla bróður sinn og hló að því að ég skyldi ekki vera vaknaður.

Við vorum komnir út í á um klukkan 7 og komum heim um kvöldmat, en engin var nú veiðin. Hann hugsaði alltaf um að hafa nóg nesti meðferðis, en ég hafði ekki áhyggjur af því, ég vissi að Gummi hugsaði alltaf fyrir því.

Í vor fóru konurnar okkar með okkur í óvissuferð. Við bræður sátum í aftursætinu og skemmtum okkur konunglega, því þessar elskur rötuðu nú ekki alveg þangað sem þær ætluðu með okkur, en Gummi var fljótur að kveikja á því hvert ferðinni var heitið, og gat því vísað þeim veginn. Þetta var mjög góður dagur. Og þær voru margar góðu stundirnar, til dæmis oft þegar Gréta fór í saumó þá kom Gummi í heimsókn og við horfðum saman á góða mynd. Fyrir okkrum árum fórum við tveir saman til Noregs að heimsækja stóra bróður og var það mjög fín ferð sem við höfðum báðir mjög gaman af og rifjuðum oft upp. Að lokum þakka ég Gumma bróður samfylgdina og ég veit að hann er kominn á góðan stað og fylgist með okkur.

Elsku Gréta, Birgir, Jóna, Inga Vigdís og börn, ég og fjölskylda mín biðjum að Guð veri með ykkur og styrki í sorginni.

Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

(Kahlil Gibran.)

Þinn bróðir

Valgeir.

Dagurinn sem Guðmundur Birgisson kvaddi þennan heim var fagur og bjartur. Eftir langvarandi rigningartíð hafði skyndilega stytt upp og fegurð haustsins naut sín sem aldrei fyrr. Minning okkar um þann góða dreng, sem Guðmundur var, er umvafin sömu birtu og fegurð sem þessi einstaki dagur bar í skauti sér.

Með söknuði en jafnframt gleði lítum við til baka og minnumst liðinna samverustunda. Minningar um hamingjuríka og yndislega tíma streyma fram þar sem hlátrasköll og skemmtilegheit voru allsráðandi. Það var bæði í leik og starfi sem fjölskyldur okkar nutu samverunnar. Ef framkvæmdir stóðu fyrir dyrum sameinuðum við krafta okkar og lögðumst á eitt um að hjálpa hvert öðru. Við minnumst Guðmundar sérstaklega á þeim stundum því að hann var slík hamhleypa til verka að undrun sætti. Það sem þó var meir um vert var sá hugur sem verki fylgdi. Að aðstoða, hjálpa og létta undir með hverjum þeim sem þess óskaði var skylda sem Guðmundi var í blóð borin. Í því sambandi má hins vegar alls ekki gleyma Grétu því þau hjónin voru sérlega samrýmd og samhent og hlutur hennar til allra góðra verka verður seint ofmetinn.

Guðmundur lenti í mjög alvarlegu vinnuslysi fyrir allmörgum árum og þrátt fyrir mikla endurhæfingu varð heilsa hans aldrei söm. Veikindin reyndust honum erfið og drógu smám saman úr honum þann kraft og þá lífsgleði sem einkennt hafði hann fram að því.

Í sumar sem leið fóru fjölskyldur okkar ásamt Árna Guðjóni og Hrönn og litlu dóttur þeirra Kristjönu Ólöfu, í ógleymanlegt ferðalag inn að Landmannalaugum. Guðmundur, sem oftar, tók sér forystuhlutverk og leiddi bílalestina af mikilli röggsemi yfir vötn og aðrar ófærur. Það var gaman að sjá hve Guðmundur naut sín vel og í hve góðu ásigkomulagi hann var bæði andlega og líkamlega. Hann hafði þá um nokkurt skeið getað stundað vinnu og allt virtist vera á uppleið. Okkur finnst því sárt til þess að hugsa að þetta einstaka ferðalag skyldi verða síðasta samverustund fjölskyldnanna.

Við biðjum þess og trúum að vel verði tekið á móti Guðmundi handan þessa heims, að sú birta og fegurð sem einkenndi daginn sem hann kvaddi fái að fylgja honum og umvefja hann og minningu hans um ókomna tíð.

Við hjónin vottum öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls Guðmundar Birgissonar okkar innilegustu samúð. Sérstaklega dvelur hugur okkar á þessum tímum sorgar og saknaðar hjá foreldrum hans og nánustu aðstandendum þeim Grétu, Birgi Kristjáni, Jónu og Ingu Vigdísi og litlu barnabörnunum.

Knútur og Gyða.

Elsku Gummi bróðir. Mér finnst svo skrítið að hafa þig ekki lengur hjá mér. Ég á svo margar minningar og langar að rifja upp nokkrar. Þegar við fórum í Þrastaskóg keyrandi á Bronco-bílnum, ég, þú og Karen. Við villtumst því stundum var keyrt dálítið greitt, þannig að þú gast engan veginn fylgst með því hvar þú varst. En þá kom talstöðin þín að góðum notum. Þú kallaðir á Grétu og Gyðu sem voru á öðrum bíl þannig að við komumst á leiðarenda og áttum svo saman góða viku. Og þegar þið Gréta buðuð okkur krökkunum heim til ykkar í Krummahóla í bíó með poppi og kók. Ekki má gleyma því að þú varst oft að leiðbeina mér í lífinu og stóðst alltaf við bakið á mér. Svo áttum við saman yndislega helgi í sumar með fólkinu okkar. Þakka þér fyrir að hafa fylgt mér og mínum öll þessi ár.

Hann vissi um veginn

til himins

gegnum frelsarans slóð.

Hann kunni bæði

sálma og bænir

sögur og ljóð

samt fór hann aldrei veginn

hvernig sem á því stóð.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Þín systir,

Guðmunda.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni

vekja hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Við kynntumst Guðmundi fyrir rúmum fimm árum. Það er þungbært að hugsa til þess að hann sé dáinn og samverustundirnar verði ekki fleiri. Við hefðum viljað hitta hann mun oftar en við gerðum og nú er of seint að bæta úr því.

Við hittum Guðmund síðast í júní. Það er okkur mjög minnisstæð stund þegar hann leiddi Grétu sína út á dansgólfið og sveiflaði henni um allt gólfið í flottum dansi. Þau brostu allan hringinn og virtust ástfangin upp fyrir haus. Helst minntu þau okkur á menntaskólapar sem var að stíga sín fyrstu skref saman. Ekki óraði okkur fyrir því að þetta væri í síðasta sinn sem við ættum góðar stundir með Guðmundi. Við yljum okkur nú á köldum haustdögum við minningarnar um þennan mæta mann sem Guðmundur var. Við minnumst m.a. stundanna í Miðhúsaskógi og á Þingvöllum. Eina helgina á Þingvöllum fengum við óvænta heimsókn í tjaldið okkar. Úti var hávaðarok og rigning. Allir voru flúnir heim vegna óveðursins. Þar voru hjúin úr Vesturberginu mætt, jafnþrjósk og við að láta ekki veðrið aftra sér frá góðri útilegu og mögulegri veiði. Gréta hefur æ síðan grínast með að öruggara sé að vera á öðru landshorni en við í sumarfríi, þá væri kannski möguleiki á sól og sumaryl. Þessi kvöldstund á Þingvöllum er um margt eftirminnileg fyrir utan veðrið og vonlausa veiðiferð. Við sötruðum kaffi og Baileys til að halda á okkur hita og hlógum mikið yfir skemmtilegum sögum Guðmundar frá veiðivarðarárum hans og einnig yngri árum þegar hann túraði um landið með Bubba og fleirum. Því þykir okkur við hæfi að kveðja Guðmund með texta eftir hann. Megi allar vættir heimsins vernda ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímamótum elsku Gréta, Inga Vigdís, Birgir, Jóna, barnabörn og aðrir aðstandendur.

Okkur langar að koma á framfæri að opnaður hefur verið styrktarreikningur til stuðnings Grétu og fjölskyldu hennar. Margt smátt gerir eitt stórt. Reikningsnúmerið er 0101-26-55352, kt. 191152-2639. Hvíl í friði

Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir og Ívar Torfason.

Þegar ég var lítil stelpa og vildi ekki fara heim frá afa og ömmu eftir fjölskylduboð var brugðið á það ráð að láta Guðmund klæða mig. Ég bar nefnilega óttablandna virðingu fyrir honum og sat alveg kyrr á meðan hann klæddi mig. Ég vil ekki segja að ég hafi verið hrædd við hann þar sem hann reyndist mér alltaf svo góður. Þessar minningar á ég ekki sjálf, mín fyrsta minning um Guðmund er þegar ég er hjá honum og Grétu í Krummahólunum að horfa á sjónvarpið og ég mátti sitja í húsbóndastólnum og best fannst mér að sitja í fanginu á Guðmundi. Á þessum árum gekk hann mér að vissu leyti í föðurstað, enda bjó pabbi minn þá langt í burtu og gerir reyndar enn. En það eru margar minningar sem streyma fram frá barnæsku og fram á unglingsár, ferðalög alla leið vestur á firði og í sumarbústaði, já ég fór ýmislegt með Grétu og Guðmundi. En eins og oft vill verða þá fjarlægist fólk þegar það fullorðnast, og þannig var það með samband mitt við Guðmund. Við nutum þess samt alltaf að hittast og spjalla saman, ekki alltaf sammála en það gerir hlutina nú bara aðeins skemmtilegri. Samband okkar Guðmundar var reyndar alltaf þannig að það voru engar kvaðir gerðar, aldrei kvartað yfir að við hittumst ekki nógu oft eða þess háttar, bara notið þess að hittast þegar tækifæri voru til. Guðmundur og Gréta, Gréta og Guðmundur, þar sem annað þeirra var þar var hitt, en samt á svo óþvingaðan hátt. Þau voru fyrirmyndarhjón enda búin að eiga langt og farsælt hjónaband. Eins og hjá öllum skiptast á skin og skúrir en alltaf stóðu þau saman. Gréta frænka mín hefur misst mikið, líkt og móðir hennar, amma mín, stendur hún frammi fyrir því að vera orðin ekkja alltof ung, alltof snemma. Megi algóður guð styrkja hana í framtíðinni. Einnig bið ég guð að styrkja foreldra Guðmundar, systkini hans og ekki síst börnin hans Birgi Kristján og Ingu Vigdísi, tengdadótturina Jónu, og barnabörnin, sem voru honum svo kær.

Karen Jenný.

Elsku frændi okkar. Við viljum þakka þér allar stundirnar sem þú hefur gefið okkur og munum varðveita þær í hjarta okkar.

Sef um daga, dreymir um nætur

dreymir um það sem áður var.

Kafa svefninn, kanna hugann

kannski finn ég eitthvað þar

sem hjálpað gæti mér að muna

og minnast þín í hjarta mér.

Nóttin langa lág svo hvíslar

leiðist þér að vaka með mér?

(Bubbi Morthens.)

Þínar frænkur,

Birgitta, Helga og Anna María.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku afi

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson.)

Ég hugsa svo fallega um þig, afi minn. Þín

Sandra Ósk.

Ég elska þig mikið, afi minn.

Þín

Hafdís Björg.