— 24stundir/Kristinn
Eftir Láru Ómarsdóttur lom@24stundir.is Starfsmenn Seðlabanka Íslands munu á næstunni fara til Rússlands í þeim tilgangi að sækja um gjaldeyrislán að upphæð 4 milljarða evra. Láninu er ætlað að styrkja krónuna og gjaldeyrisforða landsins.

Eftir Láru Ómarsdóttur

lom@24stundir.is

Starfsmenn Seðlabanka Íslands munu á næstunni fara til Rússlands í þeim tilgangi að sækja um gjaldeyrislán að upphæð 4 milljarða evra. Láninu er ætlað að styrkja krónuna og gjaldeyrisforða landsins. „Við höfum ekki fengið þann stuðning, sem við óskuðum eftir frá vinum okkar, og þegar þannig stendur á verðum við að leita að nýjum vinum,“ sagði forsætisráðherra á blaðamannafundi í Iðnó í gær aðspurður hvort leitað hefði verið eftir aðstoð annarra ríkja.

Vinir sem brugðust

Forsætisráðherra vildi hins vegar ekki gefa upp á blaðamannafundinum hvaða vini hann ætti við en ítrekaði að Norðurlöndin hefðu staðið með Íslendingum. Hins vegar var haft eftir Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra og starfandi utanríkisráðherra í Markaðnum í gær að Bandaríkjamenn hefðu sýnt Íslendingum fingurinn þegar leitað hafi verið eftir aðstoð þeirra. Það er í samræmi við heimildir 24 stunda sem segja að bandaríski seðlabankinn hafi ekki viljað gera gjaldeyrisskiptasamning við Seðlabanka Íslands þegar Norðmenn, Danir, Svíar og Ástralir gerðu slíkan samning á dögunum vegna bágrar stöðu íslensku bankanna.

Hefur ekki verið útskýrt

Seðlabanki Íslands hefur ekki gefið upp hvers vegna ekki var samið við bandaríska seðlabankann. Þá hefur bankastjórn Seðlabankans ekki viljað staðfesta að það hafi verið vegna bágrar stöðu íslensku bankanna. Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í lok september vegna málsins sagði hins vegar: „Seðlabanki Íslands hefur átt viðræður við Seðlabanka Bandaríkjanna á undanförnum vikum. Ekki voru taldar ástæður eða efni til þess að gera á þessu stigi saming við Seðlabanka Íslands.“

Rússalán vekur athygli

Fyrirhugað lán Seðlabanka Íslands hefur vakið mikla athygli erlendis. Þar hefur það vakið upp spurningar um samstarf Íslendinga við NATO. Á vef New York Times er haft eftir Carlo Gallo, sérfræðingi í málefnum Rússa, að taki Íslendingar lán hjá Rússum muni það vekja undrun innan NATO. „Ég held að íslensk stjórnvöld verði að spyrja sig og Rússa ýmissa spurninga áður en þeir taka slíkt lán“ sagði Carlo í samtali við blaðið. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu þá hafa hins vegar engar viðræður átt sér stað milli íslenskra ráðamanna og NATO vegna málsins.

Norðmenn hafa einnig miklar áhyggjur af Íslendingum og haft er eftir norska fjármálaráðherranum, Kristin Halvorsen, á fréttavefnum E24.no í gær að ekki myndi standa á þarlendum yfirvöldum að hjálpa Íslendingum ef þess yrði óskað.

Í hnotskurn
Forsætisráðherra sendi inn beiðni til rússneskra stjórnvalda í sumar. Gert er ráð fyrir fjögurra milljarða króna láni. Ekki er búið að semja um lánskjör ennþá. Bandaríkjamenn vildu ekki lána Seðlabanka Íslands. Ekki er vitað hvort lántakan mun hafa áhrif á NATO samstarf Íslendinga.