Engin kæti Andrúmsloftið hefur verið sérstakt á Alþingi undanfarna daga. Fjöldi fjölmiðlafólks, jafnt frá innlendum sem erlendum miðlum, hefur sett mark sitt á þinghúsið og allir vilja vera fyrstir með fréttirnar.

Engin kæti

Andrúmsloftið hefur verið sérstakt á Alþingi undanfarna daga. Fjöldi fjölmiðlafólks, jafnt frá innlendum sem erlendum miðlum, hefur sett mark sitt á þinghúsið og allir vilja vera fyrstir með fréttirnar.

Óvenju margir þingmenn voru viðstaddir umræður um neyðarfrumvarp varðandi fjármálamarkaðinn í fyrradag, eða 62 þingmenn af 63. Óhætt er að segja að ekki hafi ríkt mikil kæti í húsinu. Þingmenn voru almennt á einu máli um að það væru alvarleg tíðindi hversu illa var komið fyrir bönkum landsins og enginn fagnaði því að setja þyrfti neyðarlög . Daprastir voru sjálfstæðismenn en það tók þá marga sárt að þurfa að samþykkja frumvarp sem felur í sér svo miklar valdheimildir fyrir ríkið.

Beðið og beðið

Þingmennirnir þurftu að bíða milli fyrstu og annarrar umræðu um frumvarpið eða á meðan viðskiptanefnd Alþingis fjallaði um málið. Starfsfólk var á þönum og álagið á vefsíðu Alþingis svo mikið að hún lá reglulega niðri. Mötuneytið þurfti að reiða fram mat með skömmum fyrirvara og bílstjórar ráðherranna máttu bíða eftir næstu ferð, sem þeir hafa varla vitað hvert var heitið.

Agndofa og andlaus

Stemningin í þinghúsinu í gær var allt öðruvísi. Það var eins og ákveðin deyfð væri yfir öllum. Ráðamenn þreyttir og allur vindur úr stjórnarandstöðunni . Lýstu margir líðan sinni með orðum á borð við agndofa og andlaus og hefur það eflaust haft áhrif á að færri óundirbúnar fyrirspurnir voru á dagskrá en hefðu getað rúmast innan þess hálftíma sem til þeirra er ætlaður. Þingfundur hélt síðan áfram með umræðum um þingmannamál en var slitið snemma á fimmta tímanum. Og þá datt allt í dúnalogn.

Dagskrá þingsins

Þingfundur hefst kl. 13.30 með umræðum um störf þingsins og í framhaldi af því eru þingmannamál á dagskrá. Á morgun verða jafnframt nefndarfundir opnir fjölmiðlum í fyrsta sinn og þeim verður sjónvarpað. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fundar kl. 8.30 og heilbrigðisnefnd kl. 12. halla@mbl.is

Þetta helst...