Ofeldi Fleiri elda hollan mat heima í kreppu og forðast feita skyndibita.
Ofeldi Fleiri elda hollan mat heima í kreppu og forðast feita skyndibita. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is HVAÐA áhrif hafa áföll eins og kreppa og stríð á heilsu okkar? Líklega er rétt að velta því fyrir sér nú þegar efnahagslegar hamfarir ríða yfir heiminn og margir óttast um sinn hag.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

HVAÐA áhrif hafa áföll eins og kreppa og stríð á heilsu okkar? Líklega er rétt að velta því fyrir sér nú þegar efnahagslegar hamfarir ríða yfir heiminn og margir óttast um sinn hag. Fleiri leita til geðlækna en áður og sjálfsvígum fjölgar. En niðurstöður rannsókna á því hvernig fólk bregst við í stríði hafa sýnt að ekki er um einhlítt svar að ræða þegar spurt er um áhrifin á almannaheilsu. Reynslan er misjöfn.

Í Danmörku batnaði heilsufar almennings undir hernámi Þjóðverja 1940-1945. Þess ber að gæta að enginn raunverulegur matarskortur var í landinu en ekki var lengur auðvelt að ná sér í hvítan sykur eða hvítt brauð, ýmis annar munaður var ekki á boðstólum og afleiðingin var hollara mataræði.

Aukin samheldni

Og þótt ótrúlegt megi telja segja heimildarmenn að minna hafi verið um margvíslega kvilla, þ. á m. sumar geðraskanir, en venjulega í Sarajevo í umsátri Bosníu-Serba 1992-1995.

Eitt af því sem bent hefur verið á er að samheldni eykst stundum mikið meðal þeirra sem deila erfiðum tímum. Danir voru langflestir mjög andvígir nasistum og hernámið varð smám saman til að þjappa fólki saman. Utanaðkomandi þrýstingur getur eflt sálarlífið í afmörkuðum hóp.

Tíminn kostar meira í góðæri

Bandaríska blaðið The New York Times fjallaði um efnahaginn og heilsuna í gær og sagði það fara eftir lífsvenjum fólks í góðærinu hvaða áhrif þrengingarnar gætu haft. Sumir hefðu drukkið of mikið, líka borðað of mikið af kaloríuauðugu veislufæði á veitingahúsum og ekki gefið sér tíma til að stunda heilsurækt vegna anna í lífsgæðakapphlaupinu. „Tíminn er verðlagður hærra en ella í góðæri,“ segir Grant Miller, aðstoðarprófessor í læknisfræði við Stanford-háskóla.

Miller hefur m.a. kannað hvaða áhrif sveiflur á kaffibaunaverði hafi í Kólumbíu. Þótt lægra verð á markaði hafi slæm áhrif á efnahag landsmanna sýna tölulegar vísbendingar að almannaheilsufar batnar.

„Það sem skiptir máli fyrir heilsufar barna í sveitahéruðum Kólumbíu kostar ekki mikla peninga en útheimtir mikinn tíma. Þetta á við um brjóstagjöf, að sækja hreint drykkjarvatn langa leið og fara með barn á fjarlæga heilsugæslustöð til að fá ókeypis bólusetningu.“

Þess vegna hækkar dánartíðni kólumbískra barna þegar kaffiverðið er hátt og fullorðnir leggja sig fram við ræktunina. Minni ástæða er til að strita þegar verðið lækkar og þá fá börnin meiri athygli.

Í hnotskurn
» Niðurstöður bandarískra rannsókna frá áttunda áratugnum benda til að tíðni hjartasjúkdóma, skorpulifrar, sjálfsvíga og innlagna á geðdeild hækki í kreppu. Fræðimenn hafa síðar bent á slæma galla á rannsókninni og efast um niðurstöðurnar.