KR-INGURINN Guðjón Baldvinsson hefur verið eftirsóttur upp á síðkastið og nú hafa forráðamenn KR fengið kauptilboð frá sænska úrvalsdeildarfélaginu GAIS, en þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það hafa mörg félög sýnt honum áhuga og boðið honum til æfinga hjá sér og hann hefur nýtt hluta af því. Við vitum alveg hve góðan leikmann við erum með í höndunum og hann er orðinn 22 ára gamall svo það væri mjög gott fyrir hann að komast út núna,“ sagði Rúnar í gær.

Fimm félög hafa óskað eftir því að fá Guðjón til æfinga eftir að leiktíðinni lauk nú í haust og hefur Guðjón tekið boði frá tveimur þeirra. Hann æfði með norska liðinu Aalesund í nokkra daga fyrr í mánuðinum og kom heim í gær frá öðru norsku liði, Lilleström, eftir fimm daga dvöl.

„Við getum ekki stöðvað hann ef rétta tækifærið kemur en tilboðið verður að vera ásættanlegt,“ sagði Rúnar, en stjórn KR mun taka ákvörðun varðandi tilboðið frá GAIS á næstu dögum.

Fyrir hjá GAIS er einn Íslendingur, Eyjólfur Héðinsson.