Í hinu yfirþyrmandi krepputali síðustu vikur hafa sjónvarpsáhorfendur kynnst nýrri stétt manna: hagfræðingum. Satt að segja hefur maður aldrei veitt hagfræðingum sérstaka athygli en nú kemst maður ekki hjá því að vita af tilvist þeirra. Hagfræðingar virðast vera alveg eins og annað fólk, nema hvað þeir vita meira um hjól efnahagslífsins en aðrir. Sumir hagfræðingar eru glaðlegir, aðrir fýlulegir. Sumir bjartsýnir, aðrir svartsýnir. Þar sem þeir eru yfirleitt ekki sammála verður maður að taka afstöðu til þeirra á persónulegum nótum.
Einn hagfræðingur sem ég man ekki nafn á er alltaf eins og þrumuský þegar hann birtist á skjánum. Samkvæmt honum hafa allir brugðist á vaktinni og munu halda áfram að bregðast. Maður verður dauðhræddur við að hlusta á hann. Uppáhaldshagfræðingurinn minn er Gylfi Zoëga. Þegar hann mætir á skjáinn finnst mér að þarna sé hagfræðingur sem láti ekkert hagga ró sinni. Það er alveg sama hversu dökkum litum fréttamaðurinn málar ástandið, alltaf horfir Gylfi Zoëga á hann með umburðarlyndissvip og segir að þetta sé nú ekki alveg svona slæmt. Þetta er hagfræðingurinn sem þjóðin þarf á að halda.
Kolbrún Bergþórsdóttir