eftir Ófeig Sigurðsson. Nýhil 2008 – 70 bls.

Í einhvers konar inngangi að ljóðabók sinni Tvítólaveizlan kemst Ófeigur Sigurðsson svo að orði að veisla tvítólanna sé draumur. Hann vinnur að einhverju leyti út frá þeirri hugmynd að trúarbrögð heimsins eigi sér upphaf í dýrkun æxlunar og skaparinn rísi úr djúpinu sem tvíkynja guð. Það sé forsenda æxlunarinnar í upphafi. Sannarlega er bók Ófeigs draumkennd og hún er að ýmsu leyti veisla fyrir augað þó að hún sé ekki alltaf fögur því að veislan er í reynd óhófskennd orgía.

Ljóðabókin er í raun einn flokkur ljóða. Þau hafa enga titla en eru augljóslega efnislega og stíllega skyld. Myndheimur ljóðanna einkennist af forneskjulegum og goðsagnakenndum kynjaverumyndum sem eru tengdar kynsósa raunheimi fullum með alls kyns slím, vökva og ýmiss konar úrgang en opnar okkur einnig sýn í martraðakennt helvíti þar sem neyslan er í forgrunni eða öllu heldur afleiðing hennar. Kveðskapurinn einkennist því af einhvers konar stefjaleik þar sem neysluhyggjan og kynferðishyggjan er í forgrunni. Endalaust er í okkur troðið, ýmist við matarborð, í kynferðislegum leikjum eða með sprautunálum.

Veislustjórinn

hefur upp sína rifnu raust

í örvandi stormræðu

að aldrei skuli hætta

að matast svala þörf

sinni drekkja sér í nautn

hámið í ykkur

vanþakklátt lífið

það lengist ekki

svo lengi

óháð gjaldi

Á bak við þessa hedónísku sýn er þó siðferðisleg afstaða, einhver prédikandi andi. Annars væru lýsingarnar á neyslunni og ofgnóttinni ekki svona uppfullar af vitundinni um hrunadansinn. Kveðskapurinn minnir hvað þetta varðar um sumt á eldri verk Megasar á borð við Jason og gullna reifið en er þó án hinna sterku og áþreifanlegu samfélagslegu skírskotana sem einkenndu verk meistarans.

Stíllinn er flæðandi, setningar skarast og falla jafnvel hver inn í aðra, greinarmerkjalaust. Fyrir bragðið er kveðskapurinn harður undir tönn. Á hinn bóginn er þetta kraftmikill kveðskapur og myndríkur og óneitanlega tengir hann sig við tímann.

bækur