Nú reynir á „Átta stjórnendur Árvakurs sig á þeirri gríðarlegu lýðræðislegu ábyrgð sem fylgir þessari stöðu að vera eigendur langstærstu dagblaða landsins?“
Nú reynir á „Átta stjórnendur Árvakurs sig á þeirri gríðarlegu lýðræðislegu ábyrgð sem fylgir þessari stöðu að vera eigendur langstærstu dagblaða landsins?“ — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er búið. Eða byrjað. Annaðhvort. Líklega hvort tveggja. Jón Trausti Reynisson skrifaði merkilegan leiðara í DV föstudaginn 10. október. Þetta var í lok þjóðnýtingarvikunnar miklu árið 2008.

Þetta er búið. Eða byrjað. Annaðhvort. Líklega hvort tveggja.

Jón Trausti Reynisson skrifaði merkilegan leiðara í DV föstudaginn 10. október. Þetta var í lok þjóðnýtingarvikunnar miklu árið 2008. Í leiðara sínum fjallar Jón Trausti um ábyrgð fjölmiðla í hruninu. Hann rekur ágætlega hvernig ráðamenn réðust gegn þeim sem gagnrýndu kerfið. Jón Trausti segir meðal annars: „Það eru ekki lygasjúkir stjórnmála- og viðskiptamenn sem eru rót vandræða okkar, heldur fjölmiðlarnir sem endurómuðu lygina gagnrýnislaust. Þetta snýst ekki um einhver æðri gildi, eins og að sannleikurinn hafi gildi í sjálfum sér. Þetta snýst um hreina hagsmuni almennings og varðar öryggi hans og lífsafkomu.“

Jón Trausti hittir naglann á höfuðið. Ef við eigum sem þjóð að draga einhvern lærdóm af þessu skelfilega ástandi sem skapast hefur þá er það að við verðum að vera virk í lýðræðinu. Þeir eru ófáir, stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk, starfsmenn fjármálafyrirtækja og almenningur sem finnast þeir hafa verið hafðir að fíflum, sviknir. Og ólíkt því sem gerist þegar náttúruhamfarir ríða yfir og þjappa þjóðinni saman í óttablandinni virðingu fyrir krafti og miskunnarleysi náttúrunnar, þá stöndum við nú frammi fyrir manngerðum hamförum. Reiðin beinist jafnt inn á við sem út á við.

Á þessum síðum hef ég skrifað pistla um það hversu fréttaformið hefur reynst aumt í alvarlegum málum. Hin hlutlausa frétt gerir sannleika og lygi jafnhátt undir höfði. Afstöðuleysið verður afstaða. Tómhyggja afstöðuleysisins hefur leitt okkur í þá stöðu sem við erum í nú: fjárhagslegt og siðferðilegt gjaldþrot.

Stórkostlegir hagsmunir í pólitík og viðskiptum hafa gert það að verkum að menn gengu hart fram í því að vernda hagsmuni sína, oft á kostnað hagsmuna almennings. Með ofbeldi hafa gagnrýnisraddir verið þaggaðar niður.

Í virkjanamálum kristallast allir helstu lestir umræðunnar. Náttúrufræðingar, verkfræðingar, jarðfræðingar og fleiri sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa þagað af ótta við að missa vinnu, missa tækifæri til vinnu: eins og í slæmum eineltismálum hafa ráðandi öflin skapað ótta sem leitt hefur til þöggunar, hlýðni. Ráðist hefur verið gegn þeim sérfræðingum sem tjáð hafa sig um virkjanakosti, bæði opinberlega og prívat. Fólk hefur verið sakað um „annarleg sjónarmið“. Það hefur ekki verið neitt rými fyrir ólíkar skoðanir. Hagsmunirnir hafa verið of miklir. Í frasanum „annarleg sjónarmið“ felst að fólki er ekki sjálfrátt ef það er á annarri skoðun: það er handbendi.

Á sama tíma og margir virðast loksins sjá þörfina fyrir sjálfstæða gagnrýna fjölmiðla þá sameinast útgáfur tveggja stærstu dagblaðanna undir merki Árvakurs og í eina sæng ganga tætlurnar af viðskiptaveldum Baugsmanna og Björgólfanna. Morgunblaðið , fyrrverandi málgagn Sjálfstæðisflokksins er orðið systurblað Fréttablaðsins þar sem fremstur í flokki fer ritstjórinn Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Á síðustu vikum höfum við séð að eigendur skipta máli. Nú reynir á útgefandann Árvakur. Átta stjórnendur Árvakurs sig á þeirri gríðarlegu lýðræðislegu ábyrgð sem fylgir þessari stöðu að vera eigendur langstærstu dagblaða landsins? Verða stjórnendur Árvakurs ekki að leggja fram stefnu sína og sýna ábyrgð? Hvernig sjá þeir fyrir sér samspil blaðanna í lýðræðislegri umræðu á Íslandi?

Nú renna upp erfiðir tímar fyrir íslensku þjóðina þar sem eitt helsta viðfangsefnið er að byggja upp traust meðal þjóðarinnar og rannsaka ítarlega hvernig stóð á því að mánudaginn 6. október klukkan 16.05 lýsti forsætisráðherra landsins því yfir að verkefni næstu daga væri að forða íslensku þjóðinni frá gjaldþroti. Hvernig komumst við þangað? Í þessu verkefni leika fjölmiðlar stórt hlutverk. Hvernig ætla þeir að rækja það?

Og ég held að þjóðin verði að fá svar.

sigtryggur@naiv.is

ÞETTA HELST

Sveppabrjálæði og fleira

Síðasta vetur hlógu Íslendingar og grétu með Næturvaktinni á Stöð 2. Þrjár persónur urðu í einu vetfangi bestu vinir þjóðarinnar, ekki síst nafni forsetans: Ólafur Ragnar, umboðsmaður og starfsmaður á plani. Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem Dagvaktarinnar var beðið.

Ragnar Bragason leikstjóri kann að velja leikarana til að vinna með. Með Dagvaktinni hefur hann tekið skref upp á annað svið í íslensku sjónvarpi. Hinar kómísku persónur sem kynntar voru til sögunnar í Næturvaktinni fá sterkan tragískan hljóm í Dagvaktinni . Persónusköpun í sjónvarpi hefur tekið stökk, stórt stökk.

Pétur Jóhann Sigfússon sýnir það áfram að hann er gríðarlega hæfileikaríkur leikari. Það finnst hversu mikla umhyggju Jón Gnarr ber fyrir Georg Bjarnfreðarsyni. Jörundur hefur blik uppreisnarmannsins í augunum, mannsins sem er að sigrast á sjálfum sér.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir er kapítuli út af fyrir sig. Ólafía Hrönn klikkar aldrei. Hún er yndisleg. Guggan hennar fær mann til að hlæja þegar hún hellir sér yfir Georg en á sama tíma líður manni illa yfir því. Heilu fjölskyldurnar hlógu eins og hýenur með henni í hlátursköstum sveppabrjálæðisins í síðasta þætti.

Á morgun er sunnudagur. Ég hlakka til.

Meðmælin

Blóraböggull

Sjónvarpið, sunnudag kl. 21.10

Blóraböggull ( The Hudsucker Proxy ) er bandarísk bíómynd frá 1994, úr smiðju Cohen-bræðra.

Myndin þykir reyndar ekki með bestu verkum bræðranna. Hún kom í kjölfarið á Barton Fink sem þeir slógu í gegn með 1991. Blóraböggull var gerð með tilstyrk framleiðendanna í Hollywood en skilaði hins vegar litlu í kassann.

Myndin er hins vegar ekki jafnilla heppnuð og margir héldu fram á sínum tíma. Að auki segir hún sögu sem á sannarlega vel við nú.

Eftir að forstjóri iðnfyrirtækis styttir sér aldur ákveða stjórnarmenn að ráða fávita í hans stað í þeim tilgangi að græða rosalega sjálfir.

Markmiðið er að hlutabréfin falli svo í verði að þeir geti hirt fyrirtækið fyrir smáaura. Sem forstjóra velja þeir Norville Barnes, hugsjónamann sem er nýbyrjaður hjá fyrirtækinu og vinnur við að flokka póst.

Norville er nógu illa gefinn til að rústa hvaða fyrirtæki sem er en áður en langt um líður áttar blaðakonan Amy Archer sig á því að eitthvað er bogið við þessa ráðstöfun og fer að rannsaka málið.

Leikstjóri: Joel Coen. Aðalhlutverk: Tim Robbins, Jennifer Jason Leigh, Paul Newman, Charles Durning og John Mahoney.

throstur@mbl.is

Höf.: Sigtryggur Magnason