Ólöf Ýrr Atladóttir
Ólöf Ýrr Atladóttir
Ólöf Ýrr Atladóttir skrifar um aukna þýðingu ferðaþjónustunnar á Íslandi: "Ferðaþjónusta mun á komandi misserum gegna stóru hlutverki við öflun gjaldeyristekna, atvinnusköpun um allt land og kynningu út á við á landi og þjóð."

UNDANFARNIR dagar hafa verið okkur Íslendingum erfiðir og við þurfum á öllu okkar að halda í uppbyggingarstarfi á næstu misserum. Ferðaþjónustan hefur um árabil verið ein okkar mikilvægustu atvinnugreina og mun á næstu misserum gegna enn stærra hlutverki en hingað til: sem atvinnuskapandi afl úti um allt land, einn af hornsteinum byggðastefnu í landinu en síðast en alls ekki síst ein stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar.

Tekju- og gjaldeyrisskapandi atvinnugrein

Frá árinu 1995 hefur erlendum gestum fjölgað um átta prósent á ári að jafnaði og á milli áranna 2000 og 2007 fjölgaði þeim um 60 prósent, úr ríflega 300 þúsundum í 485 þúsund. Tekjur af erlendum gestum okkar jukust í sama hlutfalli, eða úr um 30 milljörðum íslenskra króna árið 2000 í um 50 milljarða.

Í nýlegri skýrslu Hagstofu Íslands um ferðaþjónustureikninga 2000-2006 kemur fram að hlutur greinarinnar í útflutningstekjum var um 19% á árunum 2004-2006. Þetta þýðir eina af hverjum fimm krónum sem kom inn í íslenskt hagkerfi í dýrmætum gjaldeyri. Ferðaþjónustan hefur haldið sínum hlut og vel það, þrátt fyrir aukin umsvif í öðrum atvinnugreinum.

Það er því gleðilegt að þau fyrirtæki sem flytja fólk til landsins ætla nú að auka markaðssetningu á landinu, á eigin vegum sem í góðri samvinnu við ferðamálayfirvöld. Nú er mikilvægt að láta ekki deigan síga og vinna að því af krafti að halda í gestafjölda okkar, þrátt fyrir erfitt hnattrænt ástand á sviði ferðamála. Á því sviði má víða leita fanga: til tækifæra sem skapast með ráðstefnuhöll í Reykjavík og með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, til ýmissa markhópa sem hingað geta leitað til að næra líkama og anda og sinna áhugamálum sínum, til þeirrar sérstæðu kyrrðar sem býr í vetrarmyrkrinu og svo mætti lengi telja. Nú er einnig lag að ráðast í að endurnýja kynningarvefi okkar og huga að framleiðslu myndefnis til markaðssetningar.

Árið 2006 var framleiðsluvirði ferðaþjónustunnar á markaðsvirði ríflega 134 milljarðar króna. Í þeirri tölu birtist enn mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir íslenskt þjóðarbú, en það má líka benda á það að út úr henni má einnig lesa mikilvægi íslenskra ferðamanna fyrir ferðaþjónustuna, sem áttu um 48% af heildarferðaneyslu innanlands – sannarlega markaður sem ber að hlúa að.

Atvinnugrein í uppbyggingu

Á nýlegum OECD-fundi um stöðu ferðaþjónustunnar fór ekki hjá því að fyrirsjáanlegur samdráttur innan ferðaþjónustunnar væri ræddur. Sú vinna sem framundan er þarf ekki síst að beinast að markaðsstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og því að undirbúa jarðveginn fyrir grósku að loknum þrengingum. Niðurstöður fundarins má setja fram á formi fimm aðaláherslna:

1. Samvinna innan hins opinbera („whole-government approach“).

2. Fjármögnun.

3. Tengslanet allra hagsmunaaðila.

4. Rannsóknir og þróunarstarf.

5. Menntun, upplýsingarveita og almennt fræðslustarf.

Það er áhugavert að hve miklu leyti þeir aðilar sem koma að íslenskri ferðaþjónustu tileinka sér þessar áherslur og boðar það að mínu mati gott fyrir þá vinnu sem framundan er. Þannig hefur samstarf stofnana verið að aukast og svæðisbundin samvinna ferðaþjónustuaðila hefur verið að styrkjast á undanförnum misserum og er að skila góðum árangri. Hagstofan birti ferðaþjónustureikninga 2000-2006 nú nýverið, en þeir eru mikilvægt skref í þá átt að auka yfirsýn um stöðu ferðaþjónustunnar á hverjum tíma. Fjármagn er veitt til þróunarverkefna á sviði ferðaþjónustu og verið er að skoða leiðir til þess að auka veg fræðilegra rannsókna á sviði ferðamála. Menntunarframboð vex á öllum framhaldsnámsstigum.

Íslensk ferðaþjónusta er á réttri leið og þar er afar margt jákvætt að gerast. Nú er lag að hamra járnið og halda áfram að byggja upp innviðina, enda annars til lítils að ráðast í aukna markaðssetningu.

Jákvæð atvinnugrein

Ferðaþjónustan er ein af grunnstoðum byggðafestu í landinu og áhrif hennar teygja sig vítt og breitt inn í fjölmargar aðrar atvinnugreinar. Innan ferðaþjónustunnar eru mýmörg tækifæri til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Störfin eru vissulega krefjandi en þetta eru líka gefandi störf – störf sem veita tækifæri til mannlegra samskipta og þeirrar upplifunar að sjá ómetanlegar minningar og reynslu verða til í huga þeirra sem þjónustunnar njóta.

Ferðaþjónustan hefur víða átt þátt í að efla sjálfsmynd samfélaga, því að með því að skilgreina hvað það er sem við viljum bjóða gestum okkar drögum við fram þá þætti í umhverfi okkar og athöfnum sem okkur þykja aðlaðandi og jákvæðir.

Ferðaþjónustan er sá hluti íslensks atvinnulífs sem hefur hvað mest áhrif á ásýnd okkar út á við. Hún mun þannig gegna mikilvægu hlutverki á næstu misserum við að endurheimta þá jákvæðu mynd sem land og þjóð hefur haft – mynd sem e.t.v. hefur fallið ögn á undanfarið.

Af framansögðu má vera ljóst hversu þýðingarmikil ferðaþjónustan er okkur Íslendingum. Ég er þess fullviss að greinarinnar bíður enn miðlægara hlutverk í íslensku þjóðlífi og að hún muni mæta þeim áskorunum sem framundan eru með frumkvæði, sköpunarkraft og bjartsýni að leiðarljósi. Hvað sem á okkur dynur eigum við einstakt land, óteljandi náttúrudjásn og sérstæða menningu, sem óviðjafnanlegt er að kynnast. Tímabundnar efnahagsþrengingar breyta engu þar um.

Höfundur er ferðamálastjóri.

Höf.: Ólöf Ýrr Atladóttir