Samið Starfsmenn fjármálafyrirtækja fá margháttaðan stuðning.
Samið Starfsmenn fjármálafyrirtækja fá margháttaðan stuðning.
GERA á átak í eflingu atvinnusköpunar fyrir félagsmenn í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Nýsköpunarmiðstöð Íslands, SSF og Samtök atvinnulífsins gerðu í gær með sér samstarfssamning um þetta verkefni.

GERA á átak í eflingu atvinnusköpunar fyrir félagsmenn í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Nýsköpunarmiðstöð Íslands, SSF og Samtök atvinnulífsins gerðu í gær með sér samstarfssamning um þetta verkefni. Samningurinn er gerður með stuðningi iðnaðarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Anna Karen Hauksdóttir, varaformaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, og Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, undirrituðu samstarfssamninginn í gær.

Þá fara hörkutólin á kreik

„Þegar harðnar á dalnum fara hörkutólin á kreik. Nýsköpunarmiðstöð Íslands vill leggja sitt af mörkum og við teljum að samningurinn sé í senn táknrænn og mikilvægur til að nýta þann mikla mannauð sem nú losnar um í fjármálageiranum og blása til nýrrar sóknar í nýsköpun á Íslandi,“ var haft eftir Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar, eftir undirritunina.

Sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar munu styðja meðlimi SSF í mótun viðskiptahugmynda og veita þeim endurgjaldslausa handleiðslu varðandi stofnun fyrirtækja, stoðumhverfi nýsköpunar innanlands og erlendis og þá styrki sem í boði eru.

Einnig mun Nýsköpunarmiðstöð setja á laggirnar verkefnið „Sérfræðingur til nýsköpunar“ þar sem meðlimir SSF geta komið sérfræðiþekkingu á framfæri við fyrirtæki og stofnanir.

Bent var á við undirritun samkomulagsins í gær að mikilvægt væri að tryggja að starfsmenn sem hyrfu nú frá störfum hefðu einhver úrræði til atvinnusköpunar og gætu komið nýsköpunarhugmyndum og frumkvöðlavinnu í farsælan farveg.

Samtökin og Nýsköpunarmiðstöð leggja fjölmargt til verkefnisins. Nýsköpunarmiðstöðin mun m.a. leggja til leiðir fyrir nýsköpun og frumkvöðlavinnu, handleiðslu varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja og húsnæði samkvæmt reglum sem gilda um fyrirtæki á frumkvöðlasetrum.

Kynningar á næstu dögum

Veitt verður aðstoð og aðgangur að alþjóðlegum gagnagrunnum á sviði tækniyfirfærslu og boðið verður upp á þátttöku í viðskiptasendinefnd á alþjóðlega sýningu og ráðstefnu um viðskiptasérleyfi, en ráðstefnan, sem er stærsta sinnar tegundar í heiminum, verður haldin í Washington í apríl nk.

Haldnir verða kynningarfundir um þjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir meðlimi SSF á næstu dögum.

Í hnotskurn
» Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja leggja m.a. til aðgang að félagsmönnum og upplýsingar um þá.
» Samtök atvinnulífsins leggja m.a. til stuðning við verkefnið í formi ráðgjafar og þátttöku í kynningu.
» Meðal þess sem Nýsköpunarmiðstöð leggur til er stuðningur við mótun viðskiptahugmynda og útfærslu þeirra.