Sakamálasögunni Tokyo Year Zero eftir David Peace vindur fram í skugga stríðs. Lögreglumaðurinn Minami er kvaddur á vettvang glæps sama dag og Japanskeisari tilkynnir um uppgjöf þjóðarinnar í síðari heimsstyrjöld.
Sakamálasögunni Tokyo Year Zero eftir David Peace vindur fram í skugga stríðs. Lögreglumaðurinn Minami er kvaddur á vettvang glæps sama dag og Japanskeisari tilkynnir um uppgjöf þjóðarinnar í síðari heimsstyrjöld. Lík ungrar konu hefur fundist en í stað rannsóknar er aldraður Kóreumaður sem haldið hefur verið í nauðungarvinnu dreginn úr nærliggjandi húsi og dæmdur til dauða fyrir glæpinn. Hann er grafinn lifandi. Atriði þetta slær tóninn fyrir verkið í heild. Hér er á ferðinni sakamálasaga sem innleiðir módernískar umbyltingar í formið og sprengir það í tætlur. Það sem mestu skiptir er tónninn, hinn huglægi stíll vitundarflæðis og geðsýki sem byggir á reglubundnum endurtekningum, það hvernig Peace fangar umhverfi eyðilandsins, samfélags í rústum. Unnið er markvisst með kaldhæðnina sem felst í að morðmál sé rannsakað þar sem hundruð þúsunda hafa nýverið verið myrt í ægilegustu stríðsárásum sögunnar. Sjálfur er rannsóknarlögreglumaðurinn lúsugur og tötrum klæddur, hann á við eiturlyfjavanda að stríða og starfar í gjörspilltri stofnun. Hér er kafað ofan í þá myrkustu og vonlausustu veröld sem ég hef kynnst í krimma.