Ingibjörg Sigríður Kristjánsdóttir fæddist á Þingvöllum í Helgafellssveit 3. mars 1922 Hún lést á St. Franciskussjúkrahúsinu í Stykkishólmi 9. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru María M. Kristjánsdóttir, f. 1888, d. 1987, og Kristján Jóhannsson, f. 1891, d. 1984. Systkini Ingibjargar voru Kristján, f. 1919, d. 2002, Unnur, f. 1923, d. 2008, og Hallvarður, f. 1928, d. 1997.

Eiginmaður Ingibjargar er Guðm. Runólfsson útgerðarmaður í Grundarfirði, f. 9.10. 1920. Þau giftu sig 27.12. 1947. Börn þeirra eru: 1) Runólfur, f. 1948, kvæntur Eddu S. Kristjánsdóttur, börn þeirra Vignir Már og María. 2) Kristján, f. 1950, kvæntur Ragnheiði Þórarinsdóttur, börn þeirra Arnar og Þórarinn. 3) Páll G., f. 1952, kvæntur Guðbjörgu Hringsdóttur, börn þeirra Hringur og Guðmundur. 4) Guðm. Smári, f. 1955, d. 1955. 5) Ingi Þór, f. 1955, kvæntur Hjördísi H. Bjarnadóttur, börn þeirra Ingibjörg, Davíð og Rebekka. 6) Guðm. Smári, f. 1957, kvæntur Jónu B. Ragnarsdóttur, börn þeirra Runólfur Viðar, Rósa og Ragnar Smári. 7) Svanur, f. 1959, kvæntur Guðfinnu Guðmundsdóttur, sonur Svans af fyrra hjónabandi Jóhannes. 8) María M., f. 1966, gift Eiði Björnssyni, börn þeirra Karítas, Stefanía og Monika. Dætur Eiðs af fyrra hjónabandi María Helen og Sigurrós. 9) Unnsteinn, f. 1966, kvæntur Alexöndru Sólveigu Arnardóttur, börn þeirra Örn Ingi, Rúna Ösp og Lydia Rós. Barnabarnabörnin eru tíu.

Ingibjörg stundaði nám við Húsmæðraskólann á Staðarfelli 1941 til 1942, jafnframt stundaði hún vinnu á saumastofum í Reykjavík og Stykkishólmi. Árið 1947 fluttist Ingibjörg til Grundarfjarðar, þar starfaði hún í kvenfélaginu Gleym mér ei og var þar heiðursfélagi. Hún var einnig sæmd heiðursmerki sjómannadagsins, en með húsmóðurstarfinu rak hún ásamt eiginmanni sínum útgerð og fiskvinnslu.

Útför Ingibjargar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Orðstír fagur aldrei deyr

óhætt má því skrifa

á söguspjöldum síðar meir,

saga þín mun lifa.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Elsku mamma, mikið sakna ég þín. Þú varst ekki bara mamma mín heldur líka mín besta vinkona. Þú skammaðir mig aldrei eða settir út á það sem ég gerði. Það er nú kannski ekki alveg rétt að þú skammaðir mig aldrei, en bara í þetta eina sinn út af eggjunum. En okkur Hönnu fannst þú eiga svo mörg egg í búrinu, en það hefði kannski þurft að skamma mig meira. En þú talaðir alltaf við mig um svo margt til að undirbúa mig undir lífið eins og það að þú hefðir áhyggjur af mér þegar þú kveddir þetta líf og baðst mig að vera dugleg og sterk og ætla ég að reyna það. Jólin nálgast og þú ekki með okkur, það hefur verið svo yndislegt að hafa ykkur pabba hjá okkur um jólin. Þér á ég svo margt að þakka, hvað þú hefur verið góð við dætur mínar hvort sem ég hef fætt þær eða fengið þær í kaupbæti. Síðasta afmælið þitt var líka frábært og fékkst þú þá líka flottar gjafir, tvo litla langömmustráka og þú sem varst búin að fá þrjá langömmudrengi tveimur vikum áður. Hægt er að taka þig til fyrirmyndar um fjölgun á mannkyninu þótt sumum hafi fundist alveg nóg þegar fimm Runkarar fæddust á hálfum mánuði. Mikið hefur verið gaman að koma alla morgna til ykkar pabba, þá var oft glatt á hjalla ef gott lag var í útvarpinu var stundum hægt að taka nokkur dansspor en fljótlega var okkur pabba hent út á rúntinn svo þú gætir heklað í friði. Þessir morgnar voru fyrir ykkur, en ég held að ég hafi haft meiri ánægju af þeim.

Þegar komstu þá var hlýtt,

þau voru okkar kynni,

allt var göfugt, gott og blítt

er gafst í návist þinni,

ef að jarðlífs mæddu mein

mest var kærleiksdáðin,

skorinorð og hjartahrein

hollust gafstu ráðin.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Takk elsku mamma mín fyrir allt. Þín dóttir

María.

Elsku Inga, þá er kallið komið.

Margs er að minnast á þinni góðu ævi, hugurinn reikar til baka. Ég var aðeins 15 ára þegar ég kom í fjölskylduna til þín, óharðnaður unglingur. Þú tókst mér opnum örmum og varst mér sem önnur móðir. Ég man á afmælisdaginn minn þegar ég varð 16 ára, þá réttir þú mér gufustraujárn sem þú hafðir unnið í bingó nokkrum dögum áður og sagðir að góð húsmóðir yrði að eiga gott straujárn til að geta straujað af fjölskyldunni.

Það var gott að búa á Grundargötu 18, í kjallaranum hjá ykkur Guðmundi. Þakka ég öll þau góðu ár sem þú leiðbeindir mér. Það hefur verið yndislegt fyrir börnin okkar Smára að hafa góða ömmu og afa alltaf nálægt sér til að leita til. Elsku Inga, ferðin til Amsterdam þegar ég varð fertug verður lengi í góða minningasjóðnum og einnig ferðin okkar til Þýskalands sem við fórum fyrir 10 árum. Ég þakka þér líka, elsku Inga mín, fyrir allan stuðninginn sem þú veittir mér við fráfall móður minnar fyrir ári síðan.

Elsku Guðmundur, synir, dóttir, og fjölskyldur. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð

Í minningu lifir þú, móðir kær. Þakkir okkar að eiflífu færð. Hver minning er dýrmæt perla.

Þín tengdadóttir,

Jóna Björk Ragnarsdóttir.

Í dag kveðjum við tengdamóður mína Ingibjörgu Sigríði Kristjánsdóttur sem lést 9. okt sl. Það eru forréttindi að fá að kynnast slíkri konu eins og Inga var.

Ég kynntist Ingu 1986 er ég hafði kynnst dóttur þeirra hjóna. Ég var ekki búinn að vera lengi innan um fjölskylduna þegar ég sá hvílík yfirburðakona Inga var og var hún ein af máttarstólpum Grundarfjarðar. Það reyndi oft á þolrifin hjá henni með allan þennan barnaskara, þ.e. 7 stráka og eina dóttur, en alltaf stóð hún uppi sem sigurvegari. Þegar stórar og erfiðar ákvarðanir voru teknar í fjölskyldunni var hún alltaf með í ráðum og var hlustað á hvað hún sagði og held ég að hún hafi oft haft síðasta orðið.

Það var yndislegt að fylgjast með Ingu og Guðmundi nú á efri árum. Þau voru svo samheldin og ástfangin alveg fram á síðasta dag. Eftir að Guðmundur hætti að vinna 1986 fóru þau að njóta lífsins, þeim þótti mjög gaman að vera innan um fólk og voru mjög dugleg að fara í heimsókn til sveitunga sinna, þiggja kaffi og jafnvel að taka í spil en Ingu þótti afskaplega gaman að spila og stundum þegar við komum í stutta heimsókn var viðkvæðið hjá henni alltaf: viltu ekki kaffi Eiður minn og eigum við ekki að taka einn kanahring. Meðan Guðmundur treysti sér til að keyra voru þau alltaf á ferðinni og voru sum sumrin þannig að við vissum varla hvort þau voru til. Þau keyrðu um sveitina sína inn í Stykkishólm og að Þingvöllum þar sem æskuheimili Ingu var og þótti henni afskaplega vænt um æskuheimili sitt.

Inga var mjög þakklát fyrir það sem fyrir hana var gert og minnist ég þess er við hjónin fengum leigða íbúð á Akureyri og buðum við Ingu og Guðmundi með okkur. Fórum við víða og fórum við með þau á Húsavík og hittum við kunningja Ingu og Guðmundar þar. Svo þakklát var Inga að hún minntist oft á þessa ferð við mig. Eftir að Guðmundur hætti að keyra fækkaði bíltúrunum mikið, en dóttir þeirra var mjög iðin að fara með þau í bíltúr og eftir að orkan og þrekið minnkaði hjá Ingu varð hún stundum að fara í bíltúr þó að það væri ekki nema að rúnta um bæinn sinn sem henni þótti mjög vænt um og var hún ákaflega þakklát fyrir það.

Elsku Inga mín, nú kveð ég þig með miklum söknuði og geymi í hjarta mínu minningu um hve mikil heiðurskona þú varðst. Elsku Guðmundur minn, þar sem Inga er nú farin til æðri máttarvalda bið ég góðan Guð að styrkja þig og fjölskyldu þína á þessum erfiðu tímum. Guð veri með þér.

Eiður Björnsson.

Elsku amma, nú skilur leiðir um tíma.

Við viljum þakka þér fyrir allt. Þú varst alltaf jafn yndisleg og gafst þér alltaf tíma fyrir okkur.

Okkur er öllum minnisstætt að sitja við eldhúsborðið á Grundargötu 18 og svo seinna á Hrannarstíg 18 og ræða um allt milli himins og jarðar þó fiskiríið væri oftast aðalumræðuefnið. Alltaf voru til nýbakaðar kleinur og pönnukökur og var það skylda að fá sér a.m.k. einu sinni ábót. Þér fannst alltaf jafn gaman að spila, enda kenndir þú okkur það. Fyrst ólsen-ólsen, seinna kasínu og jafnvel kana. Erum við nokkuð viss um að við munum alltaf minnast þín þegar spilin eru tekin upp.

Elsku amma, við vitum að núna ertu komin á góðan stað, Guð geymi þig.

Ég mun aldrei gleyma þér,

allt sem best þú áttir, gafstu mér.

Viltu halda í höndina á mér

hvert sem ég fer?

Því ég mun aldrei gleyma þér.

(Jón Sigurðsson.)

Þín barnabörn

Runólfur Viðar, Rósa

og Ragnar Smári.

Elsku amma, ég á margar góðar minningar með þér og afa, þá sérstaklega á Grundargötunni. Þar sem við systur og frændi okkar Örn Ingi eyddum miklum tíma á meðan foreldrar okkar voru í vinnunni. Það var ýmislegt sem þú leyfðir okkur að gera eins og þegar þú sauðst fisk fyrir okkur til að gefa kettinum sem átti heima fyrir neðan. Þú varst mikið í eldhúsinu og það voru alltaf til pönnukökur sem við máttum ekki klára því pabbi og Unnsteinn áttu líka að fá þegar þeir kæmu að ná í okkur. Þegar maður var að koma heim úr Reykjavík var alltaf kíkt fyrst heim til ykkar áður en haldið var heim og eftir að þið fluttuð var mjög skrítið að keyra bara framhjá húsinu ykkar.

Alltaf kom öll fjölskyldan saman á Grundargötuna á aðfangadag bara til að hittast og fá sér kaffi saman. Það var ekki hægt þegar þið fluttuð því þá komst fjölskyldan ekki fyrir í íbúðinni ykkar en þá komuð þið til okkar og borðuðuð með okkur fjölskyldunni. Alltaf var gaman að fara með þér og afa í berjamó. Þú sast og horfðir á okkur og prjónaðir eða heklaðir. Einnig var gaman í sláturgerðinni þar sem ég fékk að taka þátt og sauma saman vambirnar. Þú hefur líka alltaf verið mikil saumakona og prjónað og heklað. Þú kenndir mér að hekla fyrir stuttu og það voru yndislegar stundir þegar ég sat hjá þér og heklaði.

Með miklum söknuði kveð ég þig, elsku amma mín.

Þín dótturdóttir

Karitas.

Elsku amma,

mér líður illa í hjarta mínu yfir því að þú sért dáin. Þú varst alltaf svo góð við mig, þú heklaðir og prjónaðir á dúkkurnar mínar, einnig prjónaðir þú á dúkkurnar fyrir vinkonur mínar. Það var alltaf gaman að koma til ykkar afa, þið voruð alltaf svo góð við mig og fékk ég alltaf að fara rúnt á litlu skutlunum ykkar. Það var mjög notalegt að hafa ykkur afa hjá okkur um jólin og líka þegar þú komst í glimmerkjólnum og allt varð út í glimmer eftir kjólinn. Takk fyrir allar fallegu gjafirnar sem ég fékk frá ykkur afa.

Nú kveð ég þig, amma mín.

Þín dótturdóttir

Monika.

Elsku amma,

það er alltaf erfitt að kveðja svona góða manneskju eins og þig. Þú varst svona alvöru amma, alltaf bakandi, prjónandi og varst góð við alla. Ég á margar góðar minningar um þig, og þá sérstaklega á Grundargötu 18. Ég og Karitas systir vorum alltaf hjá þér og afa í pössun ásamt Erni Inga frænda okkar, þær stundir voru ómetanlegar og ég mun aldrei gleyma þeim. Þegar maður fékk kornflex hjá ykkur með sykri og fékk að borða það inni í stofu fyrir framan sjónvarpið. Svo þegar maður var búinn lagðist maður undir stofuborðið á bleika gólfteppið og hvíldi sig aðeins þar sem afi hvíldi sig alltaf eftir matinn.

Á seinni árunum þegar þið voruð komin uppá Hrannarstíg þá var alltaf gott að koma til ykkar, stundum sat maður bara hjá ykkur afa og talaði við ykkur lengi, lengi. Svo varstu alltaf til í að spila, það fannst þér ekki leiðinlegt. Það er ekki langt síðan ég lærði kana en eftir það komum ég og Karitas systir oft til ykkar til að spila. En ég gæti talið upp alveg óteljandi góðar minningar um þig, elsku amma mín. Hvíldu í friði, amma mín.

Nú hætti ég mína hörpu að slá

því hvílu minni vil ég ná

og gefi öllum góða nótt

vor Guð að sofi vært og rótt.

(Höf. ók.)

Þín dótturdóttir

Ingibjörg Stefanía.

Kynni mín af Ingu og fjölskyldu hennar hafa náð yfir tæplega hálfa öld og hófust 1960 þegar Móses réði sig á Runólf, bát sem Guðmundur eiginmaður Ingu átti og gerði út. Líf sjómannskonunnar hefur aldrei verið auðvelt, en um miðja síðustu öld, var það ólíkt því sem nú er. Lítið sem ekkert samband við áhöfn báta meðan á sjóferð stóð og óvissa því mikil um afdrif áhafna í vondum veðrum. Við þessar aðstæður bjó Inga ásamt sex sonum sínum, fjörugum og kraftmiklum strákum á aldrinum 1 árs til 12 ára, þegar við hjónin fluttum til Grundarfjarðar. Guðmundur eiginmaður hennar var þá á síld fyrir norðan í 3 mánuði á sumrin eða á vetrarvertíð frá Grundarfirði.

Litla húsið þeirra í Hamrahlíðinni var vissulega ekki stórt og hver smuga vel nýtt. Hjartahlýjan réði þar ríkjum og langlundargeðið yfir hamagangi strákanna og uppátækjum þeirra ótrúlegt. Þarna var ekkert þvottahús og var því baðherbergið notað sem slíkt og nægur var þvotturinn! Inga bakaði oft fyrir áhöfnina, þar sem ekkert var bakaríið og ýmislegt annað aðstoðaði hún útgerðina við ásamt því að sinna stóru heimili. Guðmundur og Inga reistu stórt einbýlishús að Grundargötu 18 í Grundarfirði fyrir fjölskylduna. Þar bættust enn í barnahópinn tvíburar – langþráð stúlka og auðvitað fylgdi strákur með! Fljótlega fóru tengdadæturnar að bætast í hópinn og barnabörnin og var því oft fjölmennt á Grundargötunni við hin ýmsu tækifæri. Inga og Guðmundur fluttu árið 1997 í íbúðir aldraðra að Hrannarstíg 18 og hafa búið þar síðan. Eitt af síðustu verkum Ingu var að prjóna ungbarnasokka á 5 langömmubörn, allt strákar sem fæddust sl. vetur, þar af einn sem hún fékk í afmælisgjöf.

Barnalán Ingu og Guðmundar hefur verið mikið og starfa allir synir þeirra utan einn og 4 barnabörn í fjölskyldufyrirtækinu þeirra Guðmundi Runólfssyni hf. hér í Grundarfirði. Inga og Guðmundur tóku okkur Móses strax sem fjölskyldumeðlimum, stóð hús þeirra okkur ávallt opið. Inga reyndist mér ætíð vel þegar ég ungt og óreynt borgarbarn kom til Grundarfjarðar. Ég gat alltaf leitað til hennar og fengið góð ráð og leiðbeiningar við hin ýmsu störf þeirra tíma húsmæðra, sem ég bý enn að. Viljum við Móses að leiðarlokum þakka Ingu fyrir alla þá alúð, umhyggjusemi og samverustundir sem við áttum með henni.

Dóra og Móses.

Í dag er til moldar borin ástkær vinkona, Ingibjörg Kristjánsdóttir í Grundarfirði. Þegar maður minnist félaganna úr þorpinu sínu segir maður gjarnan að viðkomandi hafi verið góður sonur eða góð dóttir þessarar þjóðar. Inga Gvendar eins og ég vandist að kalla hana var einhvern veginn svo miklu meira; hún var miklu heldur ein af mæðrum okkar samfélags. Barnaskarinn sem ólmaðist við skakka húsið í Hamrahlíðinni vandist því að tala um mömmu, enda var helmingur þeirra hennar börn og Guðmundur maður hennar kallaði hana ávallt mömmu. Skakka húsið var miðstöð mikilla athafna. Þar ólmuðust sex strákar og þeirra fylgifiskar. Við Hemmi bróðir vorum þar meðal fastagesta. Ævilöng vinátta okkar og strákanna hennar Ingu varir enn og af henni ljómar fjársjóður minninganna. Á þessum tíma voru allir fátækir að efnislegum hlutum en hamingjan var byggð á sannri gleði. Hvort heldur var við eldhúsborðið, á stofugólfinu, úti á túni, uppi við fjós eða hænsnakofa.

Ég stend við dyrnar og banka, það heyrast skruðningar, hróp og köll þegar strákaskarinn ryðst til dyra. Forstofan sem vart er nema einn fermetri er full af strákum. Fyrir aftan hrúguna stendur hin glaða móðir, brosir til mín elskulega og heilsar mér með lítt minni áhuga en þó sýslumaðurinn sjálfur væri kominn. Hún býður mér inn, strákaskarinn hopar og það verður til pláss fyrir aðkomumann. „Smári og Ingi Þór, drífið ykkur nú að vaska upp og ganga frá í eldhúsinu svo þið getið farið út að leika,“ segir mamma blíðlega. Ég bíð vina minna og er með áform um spennandi prakkarastrik. Mikið er ég heppinn, aldrei þarf ég að vaska upp. Þegar húsverkum lýkur erum við félagarnir lagðir af stað niður í fjöru, í trilluleik, fleyta kerlingar, sigla spýtukubbum, uppnefna, hrekkja eða til að stela harðfiski. Og oft fundust gagnlegir hlutir í fjöru. Þessir ungu menn eru þátttakendur í lífi byggðarinnar og leggja ýmislegt til. Heima við eldhúsborðið í skakka húsinu eru ungar mæður uppfræddar af hinni reyndu móður og allt sem að gagni má koma er dregið fram, góð ráð sem annað. Og í kvöld koma karlarnir í land og allt er þvegið og strokið, Palla og Hemma er haldið frá moldarhaugunum svo hinar ófullkomnu þvottavélar fái örlitla hvíld. Það þarf að fara vel með alla hluti svo þeir endist.

Og lífið heldur áfram, dugnaðurinn gefur nýtt hús, hlýtt heimili og fleiri börn. Glaðlynd fjölskyldan hefur með samstöðu sinni komið sér vel fyrir og stór ættbálkur er í uppsiglingu. En hin góða mamma hefur nú lokið göngu sinni hér á jörð. Þessi kona og maðurinn sem hún varði lífinu með voru virkir þátttakendur í öllu því sem til gleði og gagns horfði fyrir þorpið sitt.

Fyrir hönd móður minnar og ömmu þakka ég á þessari góðu vinkonu samfylgd.

Ég lýt í lotningu herrans valdi og bið hann að styrkja alla þá sem syrgja og bið Guð að varðveita minningu Ingibjargar Kristjánsdóttur.

Ingi Hans.