Áskorun Andri Stefán og félagar hans úr meistaraliði Hauka skora á handknattleiksáhugafólk að mæta á leik liðsins gegn Veszprém í Meistaradeildinni á sunnudag.
Áskorun Andri Stefán og félagar hans úr meistaraliði Hauka skora á handknattleiksáhugafólk að mæta á leik liðsins gegn Veszprém í Meistaradeildinni á sunnudag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
ÍSLANDSMEISTARAR Hauka leika sinn þriðja leik í riðlakeppni Meiststaradeildar Evrópu í handknattleik að Ásvöllum á morgun þegar þeir taka á móti ungverska stórliðinu Veszprém.

ÍSLANDSMEISTARAR Hauka leika sinn þriðja leik í riðlakeppni Meiststaradeildar Evrópu í handknattleik að Ásvöllum á morgun þegar þeir taka á móti ungverska stórliðinu Veszprém. Haukarnir ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því Veszprém er ríkjandi Evrópumeistari bikarhafa og hefur í gegnum tíðina náð frábærum árangri í Meistaradeildinni, til að mynda árið 2002 þegar það komst í úrslit.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, segir að þrátt fyrir að andstæðingurinn sé gríðarlega öflugur þá verði spilað til sigurs og ákveðin áhætta tekin til að reyna að láta það verða að veruleika.

,,Ef við ætlum að spila okkar hefðbundna leik, kannski 5:1 vörn eða 6:0 eins og við gerum hér heima, og bíða eftir þeirra stórskyttum þá erum við einfaldlega ekki að reyna að vinna. Við viljum frekar reyna að taka áhættu, spila vörnina framar og reyna eftir fremsta megni að taka þá úr jafnvægi,“ sagði Aron við Morgunblaðið. Haukarnir unnu úkraínska liðið Zaporoyzhe á heimavelli með eins marks mun en töpuðu fyrir þýska liðinu Flensburg á útivelli með sex marka mun.

Afar öflugt varnarlið

Aron segir að lið Vezsprém sé gríðarlega sterkt varnarlið. Það spili öfluga 6:0 vörn og hafi í sínum röðum mjög líkamlega sterka leikmenn. Í markinu sé einn sá besti í heimi, Dejan Peric, skyttur þeirra séu mjög góðar, sérstaklega vinstrihandarskyttan Marko Vujin, leikstjórnandinn mjög lunkinn og línumennirnir báðir vel yfir 120 kg.

,,Ég var ánægður með leik okkar á móti Flensburg og ef við náum að spila á svipðan hátt og við gerðum í þeim leik þá tel ég vel mögulegt fyrir okkur að standa í þeim og ég tala nú ekki um ef við fáum fullt af fólki í húsið sem hvetur okkur áfram. Við þurfum bara að koma þeim á óvart og spila okkar besta leik því ekki veitir af því ég myndi álíta að Veszprém sé eitt af tíu bestu liðum í heimi. Við erum að reyna að halda ímynd Íslands á lofti í handboltanum og til þess að það takist þá verðum við að fá mikinn stuðning,“ sagði Aron.

Engin hræðsla, bara tilhlökkun

Sigurbergur Sveinsson, hinn stórefnilegi leikmaður Haukanna, segist mjög spenntur fyrir leiknum gegn Vezsprém en stórskyttan unga skoraði 5 mörk gegn Flensburg í síðustu viku og stóð sig vel eins og allt Haukaliðið.

,,Það er mikil tilhlökkun hjá okkur að mæta svona stórliði og fyrir okkur yngri strákana er þetta gríðarleg reynsla. Það var frábær upplifun að spila á móti Flensburg og það verður gaman að kljást við ungverska liðið,“ sagði Sigurbergur. ,,Það er engin hræðsla í okkur heldur bara tilhlökkun. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við verðum að ná toppleik ef við ætlum að veita þeim einhverja keppni og á góðum degi, með smá heppni og rosalegum stuðningi áhorfenda ættum við að geta strítt þeim,“ sagði Sigurbergur.

Þátttakan kostar 10 milljónir

Haukarnir biðla til alls handboltaáhugafólks að fjölmenna á Ásvelli á morgun og leggja þeim lið bæði fjárhagslega og í leiknum sjálfum en kostnaður Hauka við þátttöku í keppninni er um 10 milljónir króna og hefur hækkað mikið vegna gengisbreytinganna. „Það er eiginlega óðs manns æði að taka þátt í Meistaradeildinni við þessar kringumstæður og aðferð okkar ætti að vera sú að draga okkur út úr keppninni. Það yrði hins vegar skelfilegt að gera það. Ekki bara fyrir Hauka heldur íslenskan handbolta í heild sinni,“ sagði Páll Ólafsson, yfirmaður handboltamála hjá Haukum.

Í hnotskurn
» Markvörður Veszprém er Serbinn Dejan Peric sem er talinn einn sá besti í heimi.
» Veszprém mætti Val í Meistaradeildinni í fyrra og hafði betur í báðum leikjunum. Þann fyrri vann liðið á Íslandi, 31:24 og í Ungverjalandi urðu úrslitin 41:28.
» Veszprém hefur unnið báða leiki sína í riðlinum, Flensburg 29:28 og Zaporozhye 32:25.