— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enn virðast mikil vanhöld á að millifærslur milli landa skili sér á réttan stað og námsmenn erlendis eru enn í miklum vandræðum.

Enn virðast mikil vanhöld á að millifærslur milli landa skili sér á réttan stað og námsmenn erlendis eru enn í miklum vandræðum. Nýi Landsbankinn virðist vera að mjakast af stað og þær upplýsingar fengust frá Nýja Glitni að virkjaður hefði verið svokallaður SWIFT-kóði sem þýðir að símgreiðslur til Íslands ættu að vera komnar af stað. Allar greiðslur frá Nýja Glitni fara gegnum Seðlabankann til móttakanda erlendis.

Eftir Sigrúnu Ásmundar sia@mbl.is

Margir enn hálfúrræðalausir

HJÖRDÍS Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, segir að þar á bæ hafi verið lögð áhersla á að vekja athygli á vandamálum námsmanna erlendis. „Við erum að reyna að leysa málin í samvinnu við hagsmunaaðila,“ segir Hjördís. Það segir hún gert t.d. í tengslum við upplýsingaöflun og viðbrögð við fyrirspurnum námsmanna erlendis.

Hún segir mikið um að haft sé samband við skrifstofu SÍNE og margir séu hálfúrræðalausir.

Hjördís hefur óskað eftir fundi með Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) til að athuga hvaða úrræði LÍN geti boðið. „Félagsmálaráðuneytið tekur tillit til fólks í erfiðum aðstæðum og ég fer fram á það við LÍN að skoðaðir verði möguleikar á að koma til móts við námsmenn erlendis,“ segir Hjördís.

Í samtali hennar við talsmann Seðlabankans í fyrradag kom fram að námsmenn eru í forgangshópi. „Ferlið er þannig að Glitnir og Kaupþing þurfa að senda beiðnir til Seðlabankans sem síðan eru afgreiddar í röð. Þetta á að vera í lagi en mér sýnist þó að svo sé ekki.“ Samkvæmt upplýsingum Hjördísar eru málin farin að mjakast hjá Nýja Landsbankanum en hnökrar á færslum frá Glitni og Kaupþingi.

Bara bíða róleg

ERLA Ragnarsdóttir og Magnús Teitsson búa í Sevilla á Spáni þar sem þau eru í námi. Þau urðu fyrir þeim undrum að evrur sem þau ætluðu að millifæra af reikningi á Íslandi gufuðu upp og hafa hvergi komið fram. „Við ætluðum að senda síðustu 1.000 evrurnar okkar, sem við vorum búin að eignast fyrirfram, fyrir tíu dögum og enn hefur ekkert spurst til þeirra,“ lýsir Erla. Hún hefur spurst fyrir í Byr, sem er viðskiptabankinn þeirra hér heima, og fengið þau svör að Icebank hafi samþykkt millifærsluna. „Það er sem sé vitað að það var tekið á móti evrunum þar, en hvert þær fóru og hvar þær eru í dag vitum við ekki.“

Skýringarnar eru sagðar að seinagangur sé í bankakerfinu og þau skuli bara „bíða róleg“.

„Ég fékk nú samt þau skilaboð að ef þetta yrði ekki komið í dag [í gær] ætti ég að skrifa bankanum,“ segir Erla og bætir því við að hún ætli ekkert að gefa þessu miklu meiri tíma.

Erla segir Ísland ekki vera í brennidepli á Spáni og nefnir ferð í bankann nýlega því til sönnunar. „Þegar ég kom í bankann minn fjórða daginn í röð bauðst þjónustufulltrúi til að hringja fyrir mig og kanna málið í aðalútibúinu. Sem ég þáði. Og hann hringdi en kom svo náfölur til baka og spurði mig: veistu að það er kreppa á Íslandi og bankakerfið er hrunið?“ segir Erla. Hlæjandi játti hún þessu við manninn og benti honum á að þessir atburðir hefðu orðið rúmri viku áður. „En þetta virtust vera alveg ný tíðindi fyrir hann.“

Ekkert bólar á peningunum

„NEI, það bólar ekkert á peningunum enn,“ segir Arnar Birgisson, hjúkrunarnemi í Árósum í Danmörku. Samkvæmt heimasíðu Danske bank, viðskiptabanka Arnars, er ekki tekið á móti millifærslum frá Íslandi vegna „núverandi efnahagsástands“. Einu millifærslurnar sem eru samþykktar eru í dönskum krónum.

„Ég hef skrifað eða hringt í 8-10 banka og fæ sama svarið alls staðar: Nei, engar íslenskar krónur,“ segir hann. Ekki er hann þó orðinn alveg peningalaus en farið er að síga á seinnihlutann af októbergreiðslunni. Auk þess átti hann að fá millifærslu upp á 9.000 danskar krónur á fimmtudaginn í síðustu viku, en hún er sem sagt ekki komin. „Ég er líka búinn að fá vilyrði frá Danske bank og tveimur öðrum bönkum um að ég geti fengið yfirdrátt ef ég lendi í vandræðum,“ segir Arnar. Staða hans er eflaust nokkuð sterk gagnvart dönskum peningastofnunum þar sem hann hefur þegar ráðið sig í vinnu í Danmörku að námi loknu í febrúar á næsta ári.

„Er ekkert svekktur, bara svolítið svangur“

Námsmenn blogga á Facebook-síðu SÍNE, færslur frá í gær.

Díana Hilmarsdóttir

Ég er í Danmörku og hef verið í sambandi við Nýja Landsbankann og ætlaði að millifæra á mánudaginn... þegar gengið var í rúmum 17. Þá var mér sagt að ekki væri búið að opna og seinnipartinn reyndi ég aftur, þá var gengið í rúmum 20 og mér sagt að ég gæti lagt inn beiðni um millifærslu. Ég var spurð hvort ég væri ekki örugglega námsmaður og hvað ég ætlaði að nota aurinn í. Ég hélt að konan væri að grínast, en, nei. Það hefur ekkert komið inn á reikninginn minn hérna úti og ég hreinlega tími ekki að hringja aftur, langar ekki að vita hvað símareikningurinn verður hár, púff.

Hlynur Þór Ragnarsson

Afsakið, en ég væri alveg til í að fá einhverjar upplýsingar frá LÍN eða SÍNE um hvers vegna svo margir kannast alls ekkert við að millifærslur gangi, eins og sagt er. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvað er verið að tala um þegar sagt er að námsfólk geti millifært. Ég er ekkert svekktur, sko, bara svolítið svangur...

Andrés Jakob Guðjónsson

Jæja! Nú er verið að hvetja landsmenn til að safnast saman og mótmæla, bæði á föstudaginn og laugardaginn heima í Reykjavík.

Hvernig væri að við námsmenn gerðum hið sama en fyrir framan sendiráð Dana og Breta. Ég bý í París og hér er stutt milli sendiráða Bretlands og Danmerkur.

Ég er kominn með alveg nóg af viðskiptabanni Dana og Breta, hvað þá frekjunni, dónaskapnum og yfirganginum. Ég er alveg kominn með nóg af fréttum um óréttlæti í garð Íslendinga. Og ég er kominn með nóg af þessari bévitans kreppu.

Ég mun á laugardaginn vera fyrir framan sendiráðin og mótmæla.