Magnús Ægir Magnússon
Magnús Ægir Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Ægir Magnússon og Ragnar Z. Guðjónsson gera athugasemdir við umfjöllun um Byr sparisjóð: "Af því sem ranghermt er hjá Gunnari Axel má nefna fullyrðingar hans um rekstrarform Byrs. Hið rétta er að Byr er ekki hlutafélag heldur sparisjóður."

BYR sparisjóður sér sig knúinn til að koma á framfæri eftirtöldum leiðréttingum vegna skrifa Gunnars Axels Axelssonar, formanns Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, í Morgunblaðið 13. október sl. og víðar.

Byr varð til við samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra fyrir tæpum tveimur árum. Frá þeim tíma hafa tveir sparisjóðir til viðbótar gengið til liðs við Byr eða Sparisjóður Kópavogs fyrir réttu ári og í vor sem leið bættist Sparisjóður Norðlendinga í hópinn. Með því að renna saman hafa þessir fjórir sparisjóðir styrkt stöðu sína m.a. með auknu rekstrarhagræði og öflugri þjónustu við viðskiptavini sína. Þá eru þeir ólíkt betur í stakk búnir að takast sameinaðir á við þá miklu óvissu sem nú ríkir á fjármálamörkuðum, heldur en hver í sínu lagi. Eitt af meginmarkmiðum Byrs er að bæta hag viðskiptavina sinna og samfélagsins í heild og hefur sparisjóðurinn í áranna rás stutt íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og velferðarmál á breiðum grunni. Í greinaskrifum Gunnars Axels eru því miður staðhæfingar sem ekki byggjast á réttum upplýsingum og þáði hann nýlega boð um að hitta fulltrúa Byrs að máli til að fara yfir helstu atriði í því sambandi. Í framhaldi af því hefur Gunnar Axel komið leiðréttingum á framfæri í netskrifum sínum.

Hið rétta um rekstrarform Byrs

Af því sem ranghermt er hjá Gunnari Axel má nefna fullyrðingar hans um rekstrarform Byrs. Hið rétta er að Byr er ekki hlutafélag heldur sparisjóður. Þótt stofnfjáreigendur hafi hinn 27. ágúst sl. samþykkt að rekstrarformi sparisjóðsins yrði breytt í hlutafélag, er hlutafjárvæðingu Byrs ólokið. Þau félög sem voru stofnuð í tengslum við það ferli, eins og Byr sjálfseignarstofnun, hafa því ekki tekið formlega til starfa. Með hliðsjón af þeirri óvissu sem ríkir og nýsettum neyðarlögum kann að vera komin ástæða fyrir Byr að vega og meta að nýju kosti hlutafjárvæðingar með tilliti til hagsmuna viðskiptavina, stofnfjáreigenda og samfélagsins í heild. Á þessari stundu er því óljóst hvort og þá hvenær af hlutafjárvæðingu geti orðið.

Hið rétta um arðgreiðslur til stofnfjáraðila

Varðandi arðgreiðslur frá Byr til stofnfjáraðila, þá er hið rétta í því máli að á þessu ári voru greiddir 13,5 milljarðar kr. í arð vegna rekstrar ársins 2007, sem var mesta hagnaðarár Byrs frá stofnun. Aðalfundur Byrs 2008 samþykkti umrædda arðgreiðslu og mun aðalfundur næsta árs taka ákvörðun um greiðslur arðs fyrir árið 2008. Stofnfjáraðilar Byrs, sem eru meira en 1.500 talsins, fengu þennan arð í sinn hlut, en rétt er að nefna að þessir sömu aðilar lögðu sjóðnum til aukið stofnfé í september og desember á síðasta ári og nam sú stofnfjáraukning rúmum 26,7 milljörðum kr.

Höfundar eru sparisjóðsstjórar hjá Byr.

Höf.: Magnús Ægir Magnússon, Ragnar Z. Guðjónsson gera athugasemdir við umfjöllun um Byr sparisjóð