Eftir Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Leikurinn var jafn til að byrja með en Blikar tóku rispu í öðrum leikhluta og höfðu yfir í hálfleik 46:35. Þeim tókst að halda þessu forskoti sínu fram í síðasta leikhluta en þá náðu Borgnesingar að minnka muninn niður í fjögur stig. Nýliðunum tókst þó að halda sjó og landa sigri 78:66.
Það var hátíð í bæ hjá Kópavogsbúum í gærkvöldi, þar sem þetta var vígsluleikur á nýju parketi sem lagt var í Smáranum í sumar auk þess sem körfuknattleiksdeild Breiðabliks fagnar fjörutíu ára afmæli í ár. Stuðningsmenn Breiðabliks fjölmenntu til þess að hvetja lið sitt og leikmennirnir brugðust vel við því. Það var þó óneitanlega talsverð taugaspenna ríkjandi hjá leikmönnum beggja liða í fyrsta leikhlutanum enda margir lítt reyndir leikmenn að fá tækifæri. Blikar tefla fram Nemanja Sovic sem leikið hefur á Íslandi í mörg ár og hann naut sín vel í leiknum en Borgnesingar eru án erlends leikmanns. Sovic skoraði 18 stig í fyrri hálfleik og átti stærstan þátt í því forskoti sem heimamenn náðu. Hann endaði með 26 stig en fleiri leikmenn Blika létu til sín taka í síðari hálfleik. Borgnesingar bitu frá sér í síðasta leikhlutanum og hittu þá úr nokkrum þriggja stiga skotum og þar með hljóp spenna í leikinn á ný. Bakvörðurinn Rúnar Ingi Erlingsson reyndist hins vegar hetja Blika þegar hann stal boltanum af Borgnesingum þegar rúm mínúta var eftir og jók forskotið í sex stig. Eftir þetta voru gestirnir slegnir út af laginu og Kópavogsbúar gengu á lagið og fögnuðu fyrstu stigum sínum í vetur.
Einar Árni Jóhannsson, fyrrum þjálfari Njarðvíkinga, stýrir liði Breiðabliks og hann var sáttur við spilamennsku sinna manna: ,,Ég hafði ekki hugmynd um hvernig liði ég væri að fara að mæta. Fyrir mér snerist þetta bara um einn hlut og það voru þessi tvö stig. Það er það dýrmæta í þessu.“
Kenneth Webb stjórnaði liði Skallagríms eins og herforingi en samningi hans var sagt upp í sparnaðarskyni í vikunni: ,,Ég flýg ekki af landi brott fyrr en á morgun (í dag) en ég gerði þetta fyrir þessa fimmtán leikmenn sem hafa lagt sig alla fram fyrir mig í tvo mánuði. Þeir spurðu mig eftir æfingu í gær hvort ég vildi stjórna þeim í þessum leik og það var bara heiður fyrir mig. Ég er stoltur af frammistöðu þeirra í þessum leik. Með vilja og baráttu tókst þeim að minnka muninn niður í fjögur stig í síðasta leikhlutanum og við með boltann. Við erum ekki með marga leikmenn sem hafa reynslu úr efstu deild og ég fer héðan stoltur.“