[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is „ÞARNA sá maður þann alheimshljóm sem einkennir ljóðlistina,“ segir Einar Már Guðmundsson um andann sem sveif yfir bókmenntahátíð sem hann sótti í Ciudad Juarez í Mexíkó í september.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

„ÞARNA sá maður þann alheimshljóm sem einkennir ljóðlistina,“ segir Einar Már Guðmundsson um andann sem sveif yfir bókmenntahátíð sem hann sótti í Ciudad Juarez í Mexíkó í september. Spænsk þýðing á Englum alheimsins varð til þess að Einari var boðið á hátíðina en hann las þó aðallega upp ljóð fyrir íbúa Rómönsku Ameríku. „Það var maður sem þýddi ljóðin mín á spænsku fyrir þessa hátíð. Þýðingarnar hljómuðu það vel að ég fékk tvö útgáfutilboð upp á ljóðaúrval í Mexíkó og eina skáldsögu og ljóðaúrval í Brasilíu.“

Einar notaði ferðina til að kynna sér aðstæður í Juarez sem er þekkt fyrir mjög háa glæpatíðni. „Borgin er á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Öðrum megin er gríðarlega stórt fátækrahverfi en hinum megin er viðlíka auðmannahverfi og sagt er að þar búi þeir sem hafa mikla hagsmuni af fíkniefnaviðskiptum.“

Einar fer næst til Norður-Noregs, að landamærum Rússlands. „Mér er boðið að lesa upp í Alta en ég er mest lesni norræni rithöfundurinn á bókasafninu þar.“

Vesturför Gæludýranna

Bragi Ólafsson flaug vestur um haf nýverið til að kynna skáldsögu sína Gæludýrin sem kom út í Bandaríkjunum síðastliðinn miðvikudag. „Ég fékk mjög fínar viðtökur,“ segir Bragi og bætir við glettinn: „Maður segir náttúrlega ekki annað.“ Bragi las upp í bókabúðum í New York, Minneapolis og Seattle og segir hann mætinguna hafa verið ágæta en aðaltilgangurinn sé að vera á svæðinu.

Bókaforlagið Open Letter gefur Gæludýrin út og er það fyrsta bók Braga sem kemur út í Bandaríkjunum en ekki sú síðasta. „Útgefandinn hefur mikla trú á bókinni og mér og ætlar að gefa Sendiherrann út að ári.“

Spurður hvernig standi á því að þeir hafi komist yfir Gæludýrin segir Bragi að þýðingin hafi orðið til fyrir nokkrum árum. „Stofnandi forlagsins var á ferð á Íslandi í leit að höfundum. Hann sá þýðinguna og varð hrifinn af henni,“ segir Bragi sem drakk margan dýran kaffisopann í ferðinni að eigin sögn.

Aðdáendur í austri

„Þessar tvær bækur eru þær fyrstu sem koma út á rússnesku síðan Laxness var og hét,“ segir Hallgrímur Helgason sem var ásamt Einari Kárasyni í Moskvu að kynna 101 Reykjavík og Storm sem Azbooka-forlagið gefur út á rússnesku. Hallgrímur komst að því að hann á nokkra aðdáendur í austri. „Það merkilega með þessa aðdáendur er að þeir eru alltaf svolítið svipaðir, þetta er fámennur hópur kvenfólks á aldrinum 25 til 35 ára sem hefur fengið þessa furðulegu Íslandsdellu.“ Aðdáendahópurinn í Rússlandi á þó líklega eftir að stækka. „Þýðandinn vill taka Höfund Íslands næst, en það er ekki frágengið.“

Hallgrímur notaði ferðina til að heimsækja búgarð Tolstoys meðan Einar fór til Pétursborgar í Dostojevskíj-húsið. „Það var magnað að standa í sama herbergi og Tolstoy og Tsjekhov höfðu ræðst við í. Skyrtan hans Tolstoys hangir yfir rúminu og mér tókst að snerta hana þegar vörðurinn sá ekki til,“ segir Hallgrímur dreyminni röddu. „Það magnaðasta var samt að koma að gröf Tolstoys, hún er mjög látlaus, ein grasþúfa.“