J æja, enn ein Airwaves-hátíð. Og enn eitt kvöldið þar sem ég hleyp um miðbæ Reykjavíkur eins og hauslaus hæna og reyni að taka inn sem mest af tónlist úr eins mörgum áttum og hægt er. Og það var ekki leiðinlegt.
Biogen opnaði kvöldið með setti í Hafnarhúsinu. Það var fámennt, varla góðmennt en Biogen, meistarinn sem hann er, var í roknastuði engu að síður og lék við hvurn sinn fingur. Dansaði sem trylltur maður á bak við smágerðu kjöltutölvuna og uppskar hrós fyrir. Japanarnir fíluðu þetta.
Yfir á hinn magnaða tónleikastað Hressó (sagði hann með kaldhæðinni röddu) þar sem gleðisveitin fjölmenna Naflakusk taldi í. Er hægt að kalla þetta næfa snilld? Breski tónlistarblaðamaðurinn með hornspangagleraugun í hæfilega flippuðu strigaskónum fílaði þetta.
Mógil, þjóðlagaskotin tilraunadjasssveit (með Hilmar Jensson á gítar) magnaði seið á Organ og hin ærslafulla tilraunarokksveit The Mae Shi lék í Hafnarhúsinu. Ég veit ekki hvort mér fannst sveitin stórkostleg eða hörmuleg.
Ákvað að skjótast upp í Fríkirkju (og það á hjólhesti) og tékka á útgáfutónleikum Lay Low. Smekkfull kirkja blasti við og ekki stóð á Lovísu og co. að sjarma fólk upp úr skónum.
Náði hálfu lagi með Ólafi Arnalds á NASA. Er hér var komið sögu var allt troðið og Ólafur hélt salnum í álögum með pärtískum gæsahúðarstemmum.
Esja (Krummi og Daníel Ágúst) héldu uppi sveittri stemningu á Organ en heitasta erlenda band kvöldsins var klárlega Fuck Buttons, og eftirvæntingin talsverð. Sveitin sveiflaðist úr sveimkenndum drunum yfir í braukandi hávaða en svei mér þá, það hefði mátt hækka aðeins (og ég er að meina það). Ég er ekki alveg að fíla þetta band, en passaði mig að sjálfsögðu á því að stilla mér spekingslega upp við vegg og nudda á mér hökuna.
Rottweilerhundarnir mössuðu Tunglið með harðkjarnarappi, Erpur var í roknastuði. Kvöldið tilheyrði samt GusGus sem sveif örugglega um á teknóvængjum þöndum í Hafnarhúsinu. Heimsklassaband.
Á 22 húkti rappsena Íslands, fremur fúl yfir því að vera svona úr alfaraleið, skiljanlega sosum. Súpergrúppan 32C var í miklu stuði (innanborðs eru Dabbi T, MC Gauti og Nagmús (Magsie úr Subterranean)). 1985!, leidd af Dóra DNA, var í viðlíka ham, rímum spýtt út og stuð, stuð, harðkjarnastuð fyrir öllu. Það er ekki mikið pláss fyrir mjúklegheit í íslensku hipphoppi.
Ég endaði kvöldið á NASA þar sem breska nýbylgjurokksveitin Young Knives lék. Hún var leiðinlegri en orð fá lýst.
Arnar Eggert Thoroddsen