Einvalalið Þeir Andre van Rijn, hollenskur sérfræðingur Europol, Friðrik Smári Björgvinsson og Karl Steinar Valsson sögðu frá aðgerðum lögreglu.
Einvalalið Þeir Andre van Rijn, hollenskur sérfræðingur Europol, Friðrik Smári Björgvinsson og Karl Steinar Valsson sögðu frá aðgerðum lögreglu. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

Á SKALANUM 1-10 flokkast amfetamínframleiðslan sem lögreglan upprætti í fyrradag á bilinu 8-9 að umfangi, að mati Andre van Rijn, sérfræðings á vegum Europol sem hefur verið ráðgefandi við aðgerðir íslensku lögreglunnar.

Búnaðurinn, sem er afar háþróaður, hefur verið mjög dýr að mati Van Rijn, á bilinu 20 til 30 þúsund evrur hið minnsta, eða 4 til 5 milljónir króna á núverandi gengi. „Ef ég á að bera þessa verksmiðju saman við flestar aðrar sem ég hef séð í Evrópu og Bandaríkjunum felst munurinn fyrst og fremst í því að hér er um að ræða háþróaða og tæknilega framleiðslu. Oftast hefur fólk sem stendur í amfetamínframleiðslu mjög litla efnafræðiþekkingu en hér eru greinilega kunnáttumenn á ferðinni.“ Á margra ára ferli sínum segist hann aðeins hafa séð tvær svo þróaðar verksmiðjur áður.

Útflutningur fyrir milljónir

Framleiðslugeta verksmiðjunnar var mikil, allt að tonni af amfetamíni á mánuði, og telur Rijs því víst að framleiðslan hafi ekki verið ætluð eingöngu fyrir íslenskan markað heldur til útflutnings. Hagnaðurinn af slíku næmi milljónum evra.

Ekki er ljóst hversu mikið magn amfetamíns var framleitt í verksmiðjunni áður en lögreglan greip inn í, en að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns rannsóknarlögreglunnar, mun það liggja fyrir innan nokkurra daga. Ekki er talið útilokað að efni sem framleitt hefur verið þar sé þegar komið á markað. Þrír menn hafa nú verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, en þeim fjórða sem handtekinn var hefur verið sleppt. Eins og fram hefur komið eru tveir mannanna, þeir Jónas Ingi Ragnarsson og Tindur Jónsson, á reynslulausn eftir að hafa setið í fangelsi fyrir alvarlega glæpi.

Uppfylltu öll skilyrði

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir markmiðið með reynslulausn þá að hægt sé að hafa eftirlit með viðkomandi fyrstu mánuði eftir að þeir komi út. Þeir Jónas og Tindur hafi báðir uppfyllt skilyrði sem sett eru í íslenskum lögum um reynslulausn eftir að hafa afplánað helming dómsins. „Þetta veitir ákveðið aðhald, en hins vegar gerir það okkur ekki kleift að fylgjast með þeim allan sólarhringinn, enda er þarna verið að veita þeim lausn til reynslu.“

Athygli hefur vakið að Jónas, sem sat inni fyrir aðild sína að líkfundarmálinu svokallaða, stofnaði fyrirtækið Hjúp ehf. í janúar sl., stuttu eftir að hann hlaut reynslulausn. Í hlutafélagaskrá er hliðarstarfsemi þess skráð sem „innflutningur og dreifing á efnafræði- og gróðurvörum“. Ekki er ljóst hvort tækjabúnaðurinn og tonn af mjólkursykri, sem notaður er sem íblöndunarefni, hefur verið flutt til landsins í skjóli þess reksturs.

Ekki hægt að banna efnafræði

Að sama skapi hefur vakið athygli að Tindur Jónsson, sem dæmdur var í sex ára fangelsi árið 2006 m.a. fyrir tilraun til manndráps með sveðju, skráði sig til náms í efnafræði við Háskóla Íslands á meðan hann sat inni. Páll segir ekki forsendur fyrir því að banna föngum að mennta sig á ákveðnum sviðum innan háskólans, hægt sé að misnota alla þekkingu.

„Hluti af okkar verkefnum hér er að undirbúa fanga þannig að þeir séu betur í stakk búnir til að takast á við lífið þegar afplánun lýkur og háskólanám er þáttur í því. Ef svo menn ákveða að nýta sér háskólanámið til að fremja frekari afbrot þá er það nokkuð sem við ráðum illa við.“ Hann segir stundum gæta tvískinnungs í gagnrýni á fangelsisyfirvöld. Þegar umfjöllun snúi að kvörtunum fanga eða aðstandenda um að reglur séu of stífar sé það gagnrýnt að fangelsin uppfylli ekki hlutverk sitt sem betrunarheimili. Nú snúist málið við.

Spurður hvort varnagli hefði verið sleginn við efnafræðimenntun ef fangi væri dæmdur fyrir fíkniefnaframleiðslu, en ekki líkamsárás eins og Tindur, segir Páll ekki hafa reynt á það hingað til. „En það er alveg á hreinu að við munum ávallt leggja okkur fram við að aðstoða menn við að afla sér frekari menntunar ef þeir vilja það.“

Ljóst er að mennirnir tveir hafa nú rofið skilorð og verða því líklega sendir beint úr varðhaldi aftur inn til að ljúka afplánun.

Amfetamín alvarlegur vandi

AMFETAMÍNNEYSLA er alvarlegasti hluti ólöglegs vímuefnavanda á Íslandi, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur, læknis SÁÁ á Vogi.

Á árunum 1996-1997 jókst þessi vandi gríðarlega og hefur vaxið stöðugt síðan. Þótt morfín og kókaín hafi líka komið við sögu í vaxandi mæli frá 1999 er amfetamín eftir sem áður mest áberandi, og skýrir Valgerður það með miklu framboði.

Yfir 700 manns hafa leitað meðferðar SÁÁ á hverju ári síðan 1995 vegna amfetamínfíknar og eru þar af um 200-300 nýir einstaklingar á hverju ári að sögn Valgerðar. Amfetamínfíkn herjar þyngst á fólk á aldrinum 20-35 ára og leita um 6% íslenskra karlmanna og 3% íslenskra kvenna til afeitrunar á Vogi fyrir 30 ára aldur, m.v. ársskýrslu SÁÁ 2006-2007.

Fíklar neyta efnisins ýmist eingöngu eða samhliða öðrum efnum, s.s. áfengi. Um helmingur þeirra sprautar efnunum í æð og þriðjungur fær langvinna lifrarbólgu C. 80% látast á næstu 10 árum eftir að þeir greinast með fíknina.