Elísabet Hlín Axelsdóttir (Nielsen) fæddist á Seyðisfirði 7. desember 1924. Hún lést á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar 10. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Emil Axel Nielsen, kaupmaður og símritari, f. 26.11. 1897, d. 5.3. 1936 og Kristín Theódóra Víglundsdóttir Nielsen húsfreyja, f. 12.10. 1901, d. 19.4. 1987. Auk Hlínar áttu þau tvö börn. Þau eru: a) Hjalti Axelsson Nielsen, tvíburabróðir Hlínar, d. 2.8. 1967, kvæntur Áslaugu Gunnlaugsdóttur Nielsen, f. 23.11. 1932. 2) Jónína Nielsen, f. 1.2. 1929, gift Gunnlaugi Guðmundssyni, f. 25.6. 1923.

Eiginmaður Hlínar er Ólafur Marel Ólafsson útgerðarmaður, f. í Vestmannaeyjum 30.4. 1925. Þau giftust 29. október 1949 og áttu fjögur börn, þau eru: 1) Axel Haraldur, f. 20.8.1943, d. 21.9.1987. Hann var kjörsonur Ólafs. Fyrrverandi eiginkona Axels er Elísabet Gunnlaugsdóttir, f. 5.7. 1941. Þau áttu fjögur börn: a) Rúnar Ólafur, f. 19.6. 1965, kvæntur Valdísi Hauksdóttur, f. 13.10. 1969. Börn þeirra eru Axel Snær, f. 24.8. 1998 og Brynja Líf, f. 1.2. 2003. Dóttir Rúnars og Höllu Auðunardóttur, f. 27.4. 1971, er Auður Hlín, f. 6.3.1990. b) Ægir, f. 19.3. 1967, sambýliskona Vigdís Hulda Kristjánsdóttir, f. 11.9. 1964. Synir þeirra eru Elvar Þór, f. 3.1.1989 og Unnar Már, f. 17.3.1992. c) Kolbrún, f. 20.4.1968, gift Steinari Gunnarssyni, f. 12.2.1969. Börn þeirra eru Elísabet Ýrr, f. 21.10. 1993, Steinar Gunnar, f. 28.6. 2000 og Tómas Axel, f. 9.11. 2001. d) Gunnlaugur, f. 29.4. 1969, sambýliskona Harpa Hlín Jónasdóttir, f. 23.10. 1968. Dætur þeirra eru Védís Hrönn, f. 10.1. 1991, Steinunn Bjarkey, f. 5.5. 1996 og Elísabet Arna, f. 29.11. 2002. 2) Theódóra, f. 17.4.1951, sambýlismaður Adolf Guðmundsson, f. 19.5. 1954. Börn þeirra eru: a) Elísabet Hlín, f. 8.10. 1974, sambýlismaður Birgir Karl Ólafsson, f. 22.2. 1974. Börn þeirra eru Sylvía, f. 3.7. 2001 og Adolf Daði, f. 3.6. 2004. b) Vilhelm, f. 15.10. 1975, sambýliskona Alda Sif Magnúsdóttir, f. 15.6. 1978. Dóttir þeirra er Sunneva María, f. 24.3. 2008. Dóttir Vilhelms og Sigríðar Fanneyjar Jónsdóttur, f. 19.3. 1971, er Amelía Rún, f. 14.2. 2001. 3) María Vigdís, f. 23.11. 1955, var gift Ólafi Má Sigurðssyni, f. 29.11. 1953. Börn þeirra eru: a) Ólafur Marel, f. 27.10. 1972, d. 5.3. 1979. b) Hildur, f. 13.8. 1975, gift Einari Páli Kjærnested, f. 20.9. 1972. Sonur þeirra er Viktor Marel Kjærnested, f. 28.1. 2000. c) Stella Hrönn, f. 15.5. 1981, sambýlismaður Gunnar Gunnarsson, f. 23.7. 1980. Fyrrverandi sambýlismaður Maríu er Hjörtur Þór Unnarsson, f. 4.8. 1966, dóttir þeirra er Unnur Sif Hjartardóttir, f. 10.10. 1991. 4) Hrönn, f. 22.12. 1959, sambýlismaður Guðjón Harðarson, f. 10.3. 1953. Dætur þeirra eru: a) Margrét, f. 14.12. 1981, sambýlismaður hennar er Brynjar Skúlason, f. 8.11. 1978. Börn þeirra eru Kamilla Kara, f. 10.5. 2005 og Bjarki Nóel, f. 29.9. 2007. b) Elísabet Maren, f. 21.3. 1987.

Hlín bjó alla sína ævi á Seyðisfirði og lauk þar barnaskólagöngu. Hún lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og Húsmæðraskólanum á Laugalandi. Hlín vann meðal annars í fjölskyldubakaríinu, kaffihúsi og í apótekinu hjá Ellerup. Hún söng í samkórnum Bjarma og stundaði handbolta með Hugin. Hún var ein af stofnendum Ránar, slysavarnafélagsins á Seyðisfirði. Lengst af var Hlín heimavinnandi með stóra fjölskyldu og afar gestkvæmt heimili.

Útför Hlínar fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Í dag kveð ég með miklum trega tengdamóður mína Hlín Axelsdóttur sem lést sl. föstudag. Samvera okkar hefur varað frá vorinu 1973 til þessa dags í blíðu og stríðu. Urðum við strax miklir vinir. Sýndu þau hjónin, hún og Ólafur, mér mikið traust þegar þau réðu mig sem framkvæmdastjóra Gullbergs. ehf. árið 1982, þá nýútskrifaðan úr Háskóla Íslands. Hlín var stórglæsileg kona, mjög hlédræg og heimakær, mikil húsmóðir. Hafði hún sterkar skoðanir á öllu sem var að gerast í þjóðlífinu, en flíkaði þeim ekki mikið.

Hún gat einnig verið föst fyrir. Hún var styrk stoð á bak við atvinnurekstur eiginmannsins. Mjög gestkvæmt var á Brekkugötunni alla tíð og tekið vel á móti gestum, kom þá í ljós hversu flink hún Hlín var og útsjónarsöm húsmóðir.

Hlín hafði mörg áhugamál, en stórfjölskyldan og velferð hennar var henni efst í huga alla tíð, þó sérstaklega barnabörn og barnabarnabörn og eiga þau eftir að sakna ömmu sinnar sérstaklega mikið. Vildi hún halda í gamlar hefðir, sérstaklega í kringum jól og áramót, jólaboð á Brekkugötunni á aðgangadagskvöld, sem allir urðu að mæta í og alltaf sami matseðilinn og rútínan með jólapakkana. Tónlist hafði Hlín gaman af, sérstaklega söng Ellýjar Vilhjálmsdóttur og Ellu Fitzgerald. Einnig hafði hún gaman af því að skemmta sér og dansa í góðra vina hóp.

Hafði Hlín mjög gaman af að ferðast, sérsaklega að fara til suðlægari landa, einnig ferðir í sumarbústaðinn að Tókastöðum, en þar átti hún afdrep þar sem hún gat verið ein með sjálfri sér.

Stend ég í mikilli þakkarskuld við tengdamóður mína fyrir alla aðstoð og hjálp sem hún hefur veitt mér og þau trúnaðarsamtöl sem við höfum átt okkar á milli.

Ég var með þér þegar þú fékkst úrskurð um að þú værir haldin ólæknandi krabbameini. Ég dáðist að æðruleysi þínu og stillingu og viðmóti alveg til dánardags. Megir þú, vinur minn, hvíla á Guðs vegum um ókomna tíð. Vil ég biðja góðan Guð að styrkja og styðja tengdaföður minn Ólaf, dæturnar Dóru, Maríu og Hrönn, barnabörn og barnabarnabörn á þessari kveðjustund Hlínar Axelsdóttur.

Adolf Guðmundsson.

Elskuleg tengdamóðir mín og góð vinkona Elísabet Hlín Axelsdóttir er látin eftir stutta en erfiða sjúkralegu. „Sæll, ungi maður, Hlín heiti ég.“ Þetta voru fyrstu orð hennar í minn garð í eldhúskróknum á Brekkugötunni. Yngsta heimasætan og tilvondi sambýliskona mín svaf værum svefni þegar undirritaður var að læðast út snemma morguns, seinni part ágústmánaðar 1978. Þessi morgunn átti eftir að hafa mikil áhrif á mig. Ég hef stundum spurt sjálfan mig hvað ef Hlín hefði ekki verið vöknuð, eða að heiman þennan morgun. Eftir að ég kynnti mig var mér boðið sæti í eldhúsinu og fór vel á með okkur. Þrjátíu ára vinátta og hnökralaus samskipti voru að hefjast, hlýja og vinsemd frá fyrsta degi. Hlín var einstök kona glæsileg, barngóð og hlý í viðmóti, róleg að eðlisfari, ákveðin og fylgin sér.

Heimilið og fjölskyldan voru í forgangi. Sérstaklega áttu barnabörnin og barnabarnabörnin í þér traustan vin. Hlín var ekki vön að bera tilfinningar sínar á torg en hún var einlæg og mjúk í okkar tveggja manna samtölum.

Mig langar að nota orðið „Takk“ takk fyrir ferðirnar saman í bústaðinn, takk fyrir hvað þú varst góð og talaðir hlýlega um börnin þín, fjölskyldu, takk fyrir að vera stoð og stytta Óla. Fjölskyldan sér nú á eftir yndislegri konu. Margar góðar minningar eru til og þær munu ylja okkur um ókomin ár. Minningabrotin eru mörg og í stuttri minningargrein er ógerningur að minnast alls.

Kæri Óli og fjölskylda, útför á ekki að vera bara sorgarstund. Hún er líka þakkarhátíð þar sem við komum saman til að þakka fyrir yndislega konu og það sem hún stóð fyrir.

Þinn tengdasonur,

Guðjón Harðarson.

Mig langar til að kveðja þig, amma mín, með þessum fátæklegu orðum. Mér er efst í huga þakklæti til þín fyrir að vera sú sem þú varst. Þú varst ekki bara dásamleg amma heldur varstu líka góð vinkona. Elsku amma, takk fyrir allt og allt. Það verður skrítið að koma heim á Seyðisfjörð og hlaupa ekki beint á Brekkugötuna til þín og afa. Smella á þig stórum og mörgum kossum eins og verið hefur í gegnum árin þegar leiðin hefur legið austur. Brekkugatan hefur yfirleitt verið fyrsti viðkomustaðurinn á leið í bæinn og jafnframt sá síðasti á leið út úr honum. Ég er á leiðinni heim á Seyðis að smella síðasta kossinum á ennið á þér og það hryggir mig mikið. Elsku amma, ég held áfram að smella kossum á afa. Ég veit að mamma, Maja, Hrönn og allir hinir passa upp á að afa líði sem best. Elsku amma, þú kvaddir mig ávallt með sömu orðunum og ég kveð þig með nú:

Guð veri ávallt með þér.

Þín

Elísabet Hlín.

Elsku amma mín, nú er hvíldin þín og þér mun alltaf líða vel. Þú ert komin í faðm Hjalta, Axels og Óla litla, strákanna sem voru teknir alltof snemma frá þér.

Það var alltaf gott að koma við á Brekkugötunni eftir skóla í smáspjall og gæða sér á heimabökuðum kræsingum. Rúgbrauðið, marmarakökurnar og kleinurnar þínar voru í sérstöku uppáhaldi mér. Vinkonurnar fengu stundum að koma með mér því þær vissu að hjá þér var alltaf veisla. Eftir magafylli var stundum brugðið á leik í fallegu höllinni ykkar afa, enda algjör ævintýraheimur fyrir litlar stelpur. Þú varst svo myndarleg húsmóðir, alltaf að baka, sauma eða gera fínt. Þegar þú áttir rólega stund lagðirðu kapal eða púslaðir við eldhúsborðið. Hjá þér lærði ég að leggja kapal, ég taldi mig launa þér kennsluna með því að leggja fyrir þig spilagaldra. Þú varst alltaf jafn hissa á töframætti mínum.

Framandi ferðir út á flugvöll í berjamó, koma upp í kollinn þegar ég hugsa til baka. Afraksturinn rann svo ljúflega niður með skyri og rjóma í litla eldhúsinu þínu. Ég man enn eftir fjörugu jólunum á Brekkugötunni með langömmu Viggu og Axel, þegar allir borðuðu saman og opnuðu pakkana í ævintýrastofunni, það voru bestu jólin! Sumarbústaðurinn á Tókastöðum var þér svo kær, þar áttuð þið afi gott athvarf. Minningarnar eru margar og góðar, fyrir það er ég svo þakklát.

Elsku amma, nú er tími þinn hjá okkur liðinn, þín verður sárt saknað. Mér þykir svo vænt um að hafa fengið að vera hjá þér á kveðjustundinni og vona að þér hafi liðið vel. Við munum hugsa vel um afa sem ég veit að saknar þín mikið. Litla skottan þín hún Kamilla grét þegar ég sagði að þú værir komin til Guðs en hún huggar sig við að nú sért þú engill í bænum hennar og verðir því alltaf hjá okkur.

Kyss og knús, þín ömmustelpa

Margrét Guðjónsdóttir

(Maggý).

Margar myndir koma upp í hugann er ég minnist vinkonu minnar Hlínar. Ég var kynnt fyrir henni fyrst árið 1947 er maðurinn minn fór að sýna mér sínar æskustöðvar, Seyðisfjörð. En þar fæddist Hlín og bjó allt sitt líf. Þær voru vinkonur tengdamóðir mín og Theódóra móðir hennar og var mikill samgangur á milli heimilanna. Hlín bjó þá hjá móður sinni með ungan son en móðir hennar rak þá bakaríið á staðnum. Síðan gerðist það að við fluttum til Seyðisfjarðar 1951 er maðurinn minn var ráðinn vélstjóri á togarann Ísólf. Þá var gott að eiga góða að þar. En fjölskylda hans var þá öll flutt til Reykjavíkur. Hlín var gift Ólafi M. Ólafssyni, síðar útgerðarmanni, og varð strax samgangur og mikil vinátta á milli okkar sem ekki hefur slitnað síðan. Óli var stórhuga athafnamaður sem lagði grunn að mikilli atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði með sinni útgerð. Við vorum aðeins í tvö ár þarna en þá fékk maðurinn minn starf í Áburðarverksmiðjunni svo að við fluttum aftur suður. Þau hjón héldu oft til hjá okkur er þau komu í bæinn og var þá gjarnan farið út að skemmta sér ásamt Jónborgu og Högna vinum okkar. Óli alltaf hrókur alls fagnaðar. Oft erum við búin að hlæja að minningum frá þessum árum.

Sumarið 1986 tókum við okkur saman fimm vinkonur, mágkonur mínar tvær, Adda og Jagga, og Jónborg, allar æskuvinkonur Hlínar og fórum í þriggja vikna ferðalag með Norrænu til Norðurlanda. Þetta var mikil ævintýraferð sem við héldum að myndi bæði byrja og enda á Möðrudalsöræfum 17. júní. Við vorum á tveimur bílum, Jónborg og ég bílstjórar, og lentum í blindbyl og ófærð og vorum allan daginn ásamt fleira fólki að moka og ýta. Það voru þreyttar konur sem Óli og Hlín tóku á móti það kvöld. Síðan var haldið út daginn eftir og eins og sannir Íslendingar vorum við með svo stórar ferðatöskur að við vöktum athygli alls staðar rétt eins og við værum allar að flytja að heiman. Dóttir mín og tengdasonur voru við nám í Uppsölum. Þar höfðu þau útvegað okkur íbúð og var ferðinni heitið þangað með viðkomu í Noregi og Danmörku. Þar var víða farið og margt skoðað.

Hlín var sérlega myndarleg húsmóðir og hugsaði vel um sitt fallega heimili. Ég vil þakka allar þær góðu stundir sem ég og fjölskylda mín höfum átt á heimili þeirra Ólafs og sendi ég honum og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Ingunn Erla Stefánsdóttir.