Ted Hughes
Ted Hughes
THE BRITISH Library hefur keypt einkaskjöl, glósubækur og handrit ljóðskáldsins Ted Hughes, sem var lárviðarskáld Breta í fjórtán ár, frá 1984 til dauðadags 1998. Ekkja Hughes fékk greidda hálfa milljón punda fyrir skjölin, sem fylla 220 kassa.

THE BRITISH Library hefur keypt einkaskjöl, glósubækur og handrit ljóðskáldsins Ted Hughes, sem var lárviðarskáld Breta í fjórtán ár, frá 1984 til dauðadags 1998.

Ekkja Hughes fékk greidda hálfa milljón punda fyrir skjölin, sem fylla 220 kassa.

Að sögn blaðamanns The Times , sem fékk að glugga í innihald kassanna – skjölin verða aðgengileg fræðimönnum á næsta ári – kennir þar ýmissa grasa. Til að mynda nýtti Hughes sér gamlar skólabækur úr barnaskóla sem glósubækur. Í eina þeirra skrifar hann ýmsar hugsanir um dauða fyrstu eiginkonunnar, skáldsins Sylviu Plath, sem stytti sér aldur 31 árs gömul. Þar sést að hann hugsaði ekki einungis hlýlega til Plath, heldur með allt að því þráhyggjulegri ástríðu. Í þessum hugleiðingum birtist grunnur að ljóðum sem hann endursamdi og umorðaði næstu þrjátíu árin, áður en þau birtust loks í bókinni Birthday Letters .

Í skjalasafninu eru óbirt ljóð á ýmsum stigum; sum um vini hans og samferðamenn, sendibréf, dagbækur og jafnvel frásagnir af veiðiferðum.

Dagbækur Hughes spanna fjóra áratugi, frá sjötta áratugnum fram á þann tíunda. Í þeim skráir hann hversdagslegar upplifanir, drauma og hugleiðingar um fjölskyldu og vini.