Skátaskemmtikraftar Eiríkur og Jón Egill eru góðir vinir og eru saman í fréttastöðinni Er ég sem sér um skemmtiatriði á skátakvöldvökum.
Skátaskemmtikraftar Eiríkur og Jón Egill eru góðir vinir og eru saman í fréttastöðinni Er ég sem sér um skemmtiatriði á skátakvöldvökum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Barnablaðið bar að garði hjá skátafélaginu Vífli í Garðabæ voru þar rúmlega 20 kröftugir strákar sem biðu óþreyjufullir eftir að Gísli Örn Bragason, foringi þeirra úthlutaði þeim verkefnum.

Þegar Barnablaðið bar að garði hjá skátafélaginu Vífli í Garðabæ voru þar rúmlega 20 kröftugir strákar sem biðu óþreyjufullir eftir að Gísli Örn Bragason, foringi þeirra úthlutaði þeim verkefnum. Gísli skipti strákunum í þrjá hópa og fóru þeir nokkrir að læra hnúta, aðrir að súrra og þriðji hópurinn að klifra. Með reglulegu millibili var svo skipt, svo allir fengu að reyna sig við hvert verkefni. Barnablaðið fékk tvo skemmtilega stráka lánaða, þá Eirík Egil Gíslason, 11 ára, og Jón Egil Þorsteinsson, 12 ára. Þeir Eiríkur og Jón Egill settust niður með okkur og sögðu okkur frá skátalífinu í Garðabæ.

Útilegur og póstaleikir

Hvað eruð þið búnir að vera lengi í skátunum?

Eiríkur: Ég er búinn að vera tvö ár.

Jón Egill: Þetta er fimmta árið mitt.

Hvers vegna ákváðuð þið að gerast skátar?

Jón Egill: Mig langaði bara til að prófa eitthvað nýtt og svo var stóra systir mín í skátunum svo ég vissi aðeins hvað var að gerast í skátunum.

Eiríkur: Ég vildi prófa að fara í útilegur með vinum mínum. Þeir voru svo margir í skátunum og eru enn.

Hvað gerið þið í skátunum?

Eiríkur: Við förum mikið í póstaleiki, útilegur og tálgum.

Jón Egill: Við lærum líka hnúta og svo lærum við líka að bjarga okkur sjálfir og eldum mikið í útilegum.

Landsmótið stendur upp úr

Hvað er það skemmtilegasta sem þið hafið gert í skátunum?

Eiríkur: Landsmótið í sumar.

Jón Egill: Já, landsmótið í sumar var mjög skemmtilegt. Þá fórum við næstum því á hverju kvöldi á kvöldvöku þar sem allir á mótinu koma saman og skemmta sér.

Eiríkur: Það er svo gaman á kvöldvökum í útilegum því þá erum við oft með skemmtiatriði. Við Jón Egill erum báðir í fréttastöðinni, sem heitir Er ég, og tveir aðrir vinir okkar og við erum alltaf með skemmtiatriði á kvöldvökum.

Jón Egill: Mér finnst líka mjög gaman þegar við fáum að kveikja eld. Ég er nefnilega smá brennuvargur og finnst mjög skemmtilegt að kveikja eld.

Er ekkert leiðinlegt í skátunum?

JónEgill: Það er ekki mjög skemmtilegt að verða rennvotur í útilegum og hafa ekki stað til að þurrka fötin sín.

Eiríkur: Mér finnst heldur ekkert sérstaklega gaman að binda hnúta því ég er ekkert svo góður í því.

Akureyri heillar

Hvert finnst ykkur skemmtilegast að fara í útilegur?

Eiríkur: Til Akureyrar, við vorum þar á landsmótinu.

Jón Egill: Já, mér finnst líka skemmtilegast að fara í útilegu á Akureyri.

Ef þið væruð ekki í skátafélaginu Vífli í hvaða skátafélagi mynduð þið þá vilja vera?

Eiríkur: Ég myndi vilja vera í Svönum á Álftanesi. Það eru margir skemmtilegir krakkar þar.

Jón Egill: Ég myndi örugglega vera í Ægisbúum því frændi minn er þar.

Við kveðjum þessa skemmtilegu og skýru stráka sem hlaupa strax út á tún og taka til við að súrra saman fótboltamark. Það er greinilega mikið ævintýri að vera skátastrákur.