Það taka líklega flestir undir það að kanadíski píanóleikarinn Marc-André Hamelin er einn mesti virtúós sem hingað hefur komið eins og sannaðist á frábærum konsert hans í Háskólabíói á Listahátíð fyrir nokkrum árum (ímyndið ykkur ef hann hefði haft...

Það taka líklega flestir undir það að kanadíski píanóleikarinn Marc-André Hamelin er einn mesti virtúós sem hingað hefur komið eins og sannaðist á frábærum konsert hans í Háskólabíói á Listahátíð fyrir nokkrum árum (ímyndið ykkur ef hann hefði haft almennilegt hljóðfæri til að spila á). Diskarnir sem hann hefur tekið upp fyrir Hyperion-útgáfuna bresku eru líka mikið eyrnakonfekt og sumir með því besta sem tekið hefur verið upp af píanóleik (nefni sem dæmi „Marc-André Hamelin Live at Wigmore Hall“), en þeir eru þó ekki síst skemmtilegir fyrir ævintýramennsku. Gott dæmi um það er diskurinn „In a State of Jazz“ frá í vor.

Þó nafnið gefi til kynna að á diskinum sé djass að finna þá er það öðru nær; eins og Hamelin tiltekur samviskusamlega í bæklingi útgáfunnar er hann ekki að spila djass, enda er að segja hver tónn spilaður eftir nótum sem er vissulega á skjön við djassinn – tónlist snarstefjunar og innblásturs augnabliksins. Á diskinum eru aftur á móti tónlist sem kallast á við djass, verk eftir

Friedrich Gulda, Nicolai Kapustin, Alexis Weissenberg og George Antheil. Þess má geta að verkið eftir Weissenberg skrifaði Hamelin niður eftir 45 snúninga skífu sem Weissenberg tók upp á sjötta áratugnum, því nótur af því eru ekki til.

Þetta er semsé tónlist sem innblásin er af djass, ef svo má segja, en af tónskáldunum þá er Gulda sá eini sem starfaði sem djasstónlistarmaður ekki síður en konsertpíanisti (og lék meðal annars óforvarandis með Gunnari Ormslev, Jóni Páli Bjarnasyni og fleirum á tónleikum Jazzklúbbs Reykjavíkur í Framsóknarhúsinu í september 1959, en það er önnur saga).