Heimaalin Yelle býr á Brittaníuskaga og vill hvergi annars staðar vera.
Heimaalin Yelle býr á Brittaníuskaga og vill hvergi annars staðar vera.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is FRANSKA söngkonan Yelle er frá smábæ á Brittaníuskaga.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

FRANSKA söngkonan Yelle er frá smábæ á Brittaníuskaga.

Glaðvært, rafskotið indípopp ekki ósvipað Stereo Total er á matseðlinum en Yelle á eins og svo margir „heitir“ samtímatónlistarmenn MySpace frægð sína að þakka. Árið 2005 setti hún lag á síðuna sína og nafn hennar breiddist í kjölfarið út eins og takfastur sinueldur. Breiðskífan Pop-Up kom út síðasta haust og síðasta árið eða svo hefur söngkonan skottast um öll heimsins höf.

„Þetta hefur verið stanslaus keyrsla,“ segir hún í símtali frá Dallas, Texas.

„Ég skrepp til Íslands og fer svo aftur til Bandaríkjanna.“

Yelle kvartar þó ekki en hana hefur dreymt um að vera atvinnusöngkona frá því að hún var barn.

„Það er ómetanlegt að geta haft lifibrauð af því sem stendur hjarta manns næst,“ segir hún og nefnir netið til sem helsta liðsstyrkinn í þessari vegferð sinni.

„Ég setti MySpace-síðuna upp fyrir vini og kunningja en síðan fór allt af stað. Það er mjög mikilvægt að viðhalda svona hlutum, þannig að ég fer reglulega inn á síðuna, svara póstum og styrki tengslin.“

Netið sér þá til þess að það er hægt að lifa alþjóðlegu poppstjörnulífi í krummaskuði á Brittaníuskaga.

„Ég fer stöku sinnum til Parísar að erindast en er annars mest heima og finnst það dásamlegt. Hér fæ ég innblástur og í vetur ætlum við, ég og GrandMarnier, samstarfsmaður minn, að vippa upp annarri plötu. Ég ætla að brydda upp á einhverju nýju um leið og við höldum í þennan anda sem leikur um Pop-Up .“

Yelle leikur á Tunglinu kl. eitt eftir miðnætti.