„BAILEY er náttúrulega góður leikmaður og vill spila fyrir okkur en við tókum þá stefnu að vera með alíslenskt lið í vetur og stöndum við hana.

„BAILEY er náttúrulega góður leikmaður og vill spila fyrir okkur en við tókum þá stefnu að vera með alíslenskt lið í vetur og stöndum við hana. En skjótt skipast veður í lofti eins og KR-ingar segja,“ sagði Óli Björn Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur í gær. Umræddur Bailey er Bandaríkjamaðurinn Damon Bailey sem Grindavík sagði upp samningi við á dögunum vegna aðstæðna í þjóðfélaginu, en skv. heimildum Mbl. hefur hann nú boðist til að spila með félaginu fyrir mjög lág laun.

Grindvíkingar hafa þó ekki í hyggju að bæta honum við leikmannahópinn. Óli segist hafa reiknað með sömu stefnu hjá aðalkeppinautunum í vetur, KR-ingum, en að loforð hafi verið svikin.

„Ég talaði við Böðvar [Guðjónss., form. körfukn.d. KR] á miðvikudag fyrir viku um að liðin myndu losa sig við útlendingana og hann staðfesti að KR myndi gera það á föstudeginum. Síðan sögðum við upp samningum við okkar menn en KR sendi þá út bréf til allra liðanna og bað um að skrifað yrði undir heiðursmannasamkomulag, sem að sjálfsögðu ekki öll liðin voru tilbúin að gera, og skýldi sér svo á bak við það til að halda sínum útlendingi. Það borgar sig ekki að gera munnlegt samkomulag við KR,“ sagði Óli Björn. sindris@mbl.is