GESTIR þáttarins Orð skulu standa þessa vikuna eru Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri og Helgi Hafliðason arkitekt. Auk þess að fást við m.a.

GESTIR þáttarins Orð skulu standa þessa vikuna eru Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri og Helgi Hafliðason arkitekt. Auk þess að fást við m.a. „eftirburð“ og „Amazon“ botna þeir þennan fyrripart, ortan í óskiljanlegu bjartsýniskasti:

Þjóðarskútan þolir allt,

það er engin kreppa.

Í liðinni viku var fyrriparturinn svona:

Í brimskaflinum boðaföll

brotna á eyðiskeri.

Í þættinum botnaði Hlín Agnarsdótir:

Nú heyrast ekki hlátrasköll,

nú hrynur allt úr gleri.

Kristín Benediktsdóttir:

Siðblint fól í svartri höll

situr og klínir sméri.

Davíð Þór Jónsson:

Hjartað nísta neyðarköll

nú í októberi.

Eiríkur Stephensen:

Breyttir tímar í Björgólfs höll

á borðum falskur héri.

Nú gjaldeyrinn við geymum öll

í gömlu koddaveri.

Úr hópi hlustenda botnaði Hreinn Þorkelsson m.a.:

Senn er skrifuð sagan öll

sannleikans í kveri.

Ríkisstjórnin riðar höll

ríður á haltri meri.

Hallberg Hallmundsson:

Heyrast neyðarhróp og -köll

úr hverri byggð og veri.

Björgólfanna er hrunin höll.

Hún reyndist úr gleri.

Geir Gunnarsson sendi þennan:

Gordon Brown í hárri höll

höndum saman neri.

Þorkell Skúlason í Kópavogi:

Þjóðar vorrar auðnan öll

engan skaða beri.

Auðunn Bragi Sveinsson:

Voðaleg þau vinna spjöll,

verri en heiftar-freri.

Þrautum pínd er þjóðin öll,

þó að lítt á beri.

Ólafur Þórir Auðunsson m.a.:

Græðgisfár í glæsihöll

gleymt nú ætíð veri.

Þátturinn er að vanda á dagskrá Rásar 1 kl. 16.10 í dag. Hlustendur geta sent botna sína, tillögur að spurningum og önnur erindi í netfangið ord@ruv.is eða til Orð skulu standa, Ríkisútvarpinu, Efstaleiti 1, 150 Reykjavík.